26.11.1986
Neðri deild: 15. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1180 í B-deild Alþingistíðinda. (1016)

158. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Í þessum umræðum hafa menn verið að deila um það hverjar væru staðreyndir mála að því er varðar breytingar á skattbyrði milli ára á undanförnum árum. Þær deilur ættu út af fyrir sig að vera óþarfar, þ.e. ef menn treysta þeim gögnum sem um þetta hafa verið birt af hálfu opinberra stofnana.

Lítum fyrst á staðreyndir sem hér eru birtar um áætlaða skattbyrði einstaklinga á árunum 1978-1987, sbr. töflu 6 á minnisblaði Þjóðhagsstofnunar um skattbyrði. Þessar tölur eru miðaðar við skattbyrði til ríkissjóðs miðað við greiðsluár. Og þar eru tölurnar þessar að árið 1985, þegar fyrsta skrefið var stigið í átt til þess að lækka tekjuskatt í áföngum, var þetta hlutfall 3,9%. 1986 4,9 en 1987 áætlað 4,6, m.ö.o. hlutfallið nú er til mikilla muna hærra en það var 1985 en að vísu áætlað lægra en á yfirstandandi ári. Og hvað þýðir þetta? Þetta þýðir ósköp einfaldlega að það hefur ekki verið staðið við fyrirheitin um áframhaldandi lækkun tekjuskatts í áföngum. Það þýðir m.ö.o. að tekið hefur verið til baka aftur það sem upphaflega var gert í þessu skyni á árinu 1985. Til þess að staðfesta þetta enn frekar er rétt að líta á töflu 4 á sama plaggi. Þar er verið að fara með tölur um áætlaðar tekjur ríkissjóðs á mann, umreiknaðar miðað við þjóðarframleiðslu 1987, og þessar tölur eru gefnar á verðlagi í árslok 1986, þ.e. á verðlagi fjárlagafrv. og þessa skattafrv. Skv. þeim upplýsingum eru tekjur ríkissjóðs á mann á sambærilegu verðlagi þessar: 1984 16,6 þús., 1985 14 þús., 1986 18 þús. og 1987 18.2 þús. M.ö.o. liggur það alveg ljóst fyrir að skattbyrðin skv. þessu, og við erum að tala um tekjuskatt til ríkissjóðs í tölum talið pr. mann á sambærilegu verðlagi, hefur vaxið frá árinu 1985 allverulega þó að það sé að vísu rétt að hún hefur lækkað ef við miðum við síðasta ár fyrrv. ríkisstjórnar, þ.e. ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens heitins og ríkisstjórnar Ragnars Arnalds, úr 21,2 í áætlunartöluna 18,2. Engu að síður er það staðreynd að skattbyrðin, þannig metin á sambærilegu verðlagi, er nú í tölum fjárlagafrv. og þessa skattafrv. hærri en hún var á árunum 1984, 1985 og 1986.

Miðað við þessar upplýsingar verð ég vægast sagt að lýsa furðu minni yfir því að hv. 2. þm. Reykn. skuli virkilega telja þetta vera tilefni til þess að fara með lofræðu um efndir núv. hæstv. ríkisstjórnar á fyrirheitum um afnám tekjuskatts á almennar launatekjur á kjörtímabilinu. Ég held að tölurnar tali allt öðru máli um það.

Í annan stað, af því að þeir hæla sér enn af því að það sé meginatriði þessa frv. að jaðarskattur hafi lækkað úr 50%, eins og hann var í áður en þessi ríkisstjórn tók við, niður í 38,8%, vil ég enn ítreka það að þessar tölur eru algjörlega villandi vegna þess að prósentutalan um jaðarskatt hefur ekkert gildi nema menn reikni hana í samhengi við áætlað verðbólgustig. Þannig þýðir 38,5% jaðarskattur í 10% verðbólgu 35% greiðslubyrði á greiðsluári. Og það er hærri tala en þessi jaðarskattur var í reynd á undanförnum árum miðað við greiðsluár því að í 50% verðbólgu reynist hann 31%, í 80% verðbólgu 28% og í 130% verðbólgu síðustu ríkisstjórnar 22% þannig að hér er auðvitað í reynd um að ræða þyngingu á jaðarskatti miðað við tekjur á greiðsluári.

Þegar þetta allt er haft í huga sýnist mér staðreyndirnar staðfesta það sem hæstv. fjmrh. raunar viðurkenndi í sinni framsögu. Þetta frv. er ósköp hversdagslegt kerfisfrv. Það boðar engar mikilvægar eða meiri háttar breytingar. Það er viðleitni, örlítið skref í þá átt að koma í veg fyrir að ríkisstjórnin standi algjörlega á gati frammi fyrir margítrekuðum og gefnum loforðum um lækkun skatta. Og eitt er rétt að hafa í huga af því að við erum að tala um beina skatta. Við erum ekki bara að tala um beina skatta til ríkisins. Ef við lítum líka á álagningu útsvars og göngum út frá því sem gefnu að sveitarfélögin muni halda útsvarsálagningunni í sama horfi og verið hefur og ef við gefum okkur að hæstv. ríkisstjórn standi við markmið þjóðhagsáætlunar um lækkandi verðbólgu liggur það algjörlega fyrir og er hafið yfir allan vafa að skattbyrði beinna skatta sem slíkra, ef við tökum bæði tekjuskatt til ríkisins og útsvar til sveitarfélaga, mun fyrirsjáanlega hækka mjög verulega. Það er algjörlega fyrirsjáanlegt.

Af því tilefni er rétt að skoða ábendingar Alþýðusambands Íslands, formannaráðstefnunnar og þeirra hugmyndir um tekjuskattinn. Þetta tvennt verður auðvitað að skoða í samhengi vegna þess að ef menn eru að ræða um skattbyrði einstaklinga verður að taka hvort tveggja með inn í myndina, tekjuskattinn til ríkisins og útsvarsálagninguna; fyrir nú utan það að ef við erum að tala um uppstokkun á þessu skattkerfi væri náttúrlega rétt að hafa það í huga líka, ef menn vilja framfylgja raunverulegum valddreifingarsjónarmiðum, að þar þurfa að koma til breytingar á þessu kerfi í samhengi við tillögur um hreinni verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og aukið sjálfræði sveitarfélaga að því er varðar þennan skattstofn.

Ég held að niðurstaðan af þessum umræðum sé ósköp einfaldlega sú að þetta frv. er harla smátt. Það skiptir engum sköpum. Það er gersamlega ofmælt að það boði einhverjar meiri háttar breytingar á núverandi kerfi. Það er reynt að klóra í bakkann, það er reynt að draga úr því að ríkisstjórnin verði ber algjörlega að vanefndum á gefnum fyrrheitum um lækkun á tekjusköttum í áföngum. Það er heldur illa unnið sem kerfisfrv. Dæmin sem fylgja því um áætlaða skattbyrði fjölskyldna geta verið gersamlega villandi vegna þess að þarna eru aðeins örfá meðaltalsdæmi. Það hefði verið sjálfsagður hlutur að gera þá kröfu til fjmrn. að það hefði látið fylgja miklu gleggri dæmi með fleiri tilvikum til þess að niðurstaðan yrði ekki sú að þeir sem lesa þetta taki það sem einhvern bókstaflegan eða raunverulegan hlut.

Eftir stendur að ferill hæstv. ríkisstjórnar í ljósi loforðanna hefur verið fálmkenndur. Það hefur verið staðið við fyrsta áfangann um lækkun tekjuskatta. Það hefur verið tekið til baka með annarri hendinni. Heildarendurskoðun skattalaga bíður algjörlega og þetta frv. skiptir engum sköpum í þá átt.

Ég hafði lúmskt gaman af því þegar hæstv. fjmrh. tók svo til orða að það væri athyglisvert að jafnvel stjórnarandstaðan og flokkar vinstra megin við miðju virtust vera að taka undir með tillögum Reagan-stjórnarinnar í Bandaríkjunum í skattamálum. Ef menn ætla að gera slíkan samanburð held ég að menn verði að hafa í huga einhvern sögulegan samanburð á því.

Tillöguflutningur Alþfl. að því er varðar breytingar á tekjuskattskerfi á sér lengri sögu en Reaganstjórnin. Þar er gott að vísa til staðreynda um aðgerðir ríkisstjórna á fyrri hluta viðreisnartímabilsins þar sem hlutfall tekjuskatta af tekjum ríkissjóðs var lækkað mjög verulega en tillögur Alþfl. þá voru einfaldlega þær að tekjuskattur skyldi algjörlega afnuminn af almennum launatekjum. Það mun hafa orðið að sætta sig við málamiðlun í því efni. Á seinasta áratug byrjaði Alþfl. að flytja tillögur um afnám tekjuskatts á launatekjur með þeim almenna rökstuðningi að hann væri orðinn ranglátur skattur, launamannaskattur, árið 1973. Og ég vek athygli á því að umræðan um skattamál hér á hinu háa Alþingi, sem nú er kannske orðin dálítið fyrirferðarmeiri, var í daufara lagi þegar við þm. Alþfl. byrjuðum þá umræðu 1983-84. Tillöguflutningur okkar þá beindist mjög að því ranglæti skattkerfisins að tekjuskatturinn væri launamannaskattur, að skattundandráttur og skattsvik væru ólíðanleg, að skatteftirlit væri í molum og að viðurlög við skattsvikum væru ófullnægjandi. Um þetta voru flutt mál og að lokum náðist sá árangur að það var samþykkt krafa um skýrslu um skattundandrátt og sú skýrsla að lokum birt. Því næst er það að fyrir utan þennan málflutning og þessa tillögugerð að því er varðar tekjuskatta höfum við fyrir löngu síðan, og löngu áður en þau tíðindi spurðust af umbótatillögum Reagans í skattamálum í Bandaríkjunum, flutt tillögur um heildarendurskoðun á skattakerfinu að því er varðar beina skatta, einnig að því er varðar hriplekt söluskattskerfi, einnig að því er varðar eignarskatta og nú síðast einnig að því er varðar meðhöndlun á skatttekjum.

Þær hugmyndir sem við höfum sett fram hafa ósköp einfaldlega mótast af því að við vildum einfalt skattakerfi, réttlátt og auðvelt í framkvæmd, sem byggðist á því að því er varðaði tekjuskatta að snarhækka skattfrelsismörk, afnema með öllu frádráttarliði aðra en einfaldan frádráttarlið til nokkurra ára fyrir húsbyggjendur sem eru að afla sér húsnæðis í fyrsta sinn, taka upp staðgreiðslukerfi þess kerfis beinna skatta sem eftir stæði, taka því næst upp undanþágulaust skattkerfi óbeinna skatta, söluskatts, með fyrirvara um það að hann gæti verið í virðisaukaskattsformi ef hann fullnægði settum skilyrðum um það að hann væri undanþágulaus, hann væri með mun lægri skattprósentu. Ég nefni þetta bara að gefnu tilefni vegna þess að það verður ekki sagt að þessar hugmyndir hafi verið sóttar vestur um haf til Bandaríkjanna. Þær eru settar fram löngu áður en tíðindi spurðust af þeirri skattalagabreytingu sem þar hefur átt sér stað núna á s.l. misserum. (Gripið fram í.) Það gæti verið, það gæti vel verið. Það er a.m.k. mun sennilegra miðað við þennan sögulega samanburð.

Að lokum vil ég aðeins árétta það, herra forseti, að svör hæstv. fjmrh. í tilefni af athugasemdum mínum um virðisaukaskatt þóttu mér mjög í skötulíki. Ég nefndi dæmi um ávirðingar og galla þess frv. sem við höfum séð. Hæstv. ráðh. svaraði með því að hann hefði góðfúslega leyft fulltrúum þingflokka að kynna sér frv. og þar hefði á því orðið sú breyting að prósentan hefði verið lækkuð úr 25% í 24%. Það út af fyrir sig er góðra gjalda vert en það er líka hænufet og skiptir engum sköpum. Ágallarnir á þessu frv. eru margir og veigamiklir og ef það er alvörumál hæstv. fjmrh. að reyna að ná samstöðu í þinginu, við þingflokka og þar með hugsanlega þingflokka stjórnarandstöðunnar, um einhverja heildarendurskoðun á skattakerfi liggur alveg ljóst fyrir að það frv. verður að taka til rækilegrar heildarendurskoðunar.