27.11.1986
Sameinað þing: 22. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1216 í B-deild Alþingistíðinda. (1049)

Greiðslur afurðastöðva til bænda

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég hygg að svo lengi sem a.m.k. ég man eftir hafi á hverju hausti verið rætt um afurðalán og þörf á að þau nægðu til að greiða út afurðaverð eins og ætlast hefur verið til. Það muna sjálfsagt margir eftir því að á s.l. hausti, eða fyrir ári voru miklar umræður og yfirlýsingar um að ríkisstjórnin mundi ekki standa við sinn hlut af staðgreiðsluláninu svokallaða sem greitt var út um miðjan desember eins og lög kváðu á um.

Í sambandi við þá fsp. sem hv. 5. þm. Austurl. lagði fram vil ég lesa þá samþykkt sem ríkisstjórnin gerði síðari hluta vetrar 1985 um breytingu afurðalánanna:

„Ríkisstjórnin samþykkir að fyrirgreiðsla Seðlabankans, endurkaupin á afurðalánum landbúnaðar og iðnaðar, verði færð til viðskiptabankanna í samræmi við ákvæði stjórnarsáttmála, enda verði tryggt að viðskiptabankarnir haldi áfram að veita afurðalán með sama hætti og verið hefur, en á móti hefur Seðlabankinn ákveðið að lækka bindiskyldu úr 28% í 18% af innlánum. Verði lánveitingar þessar viðskiptabönkunum engu að síður erfiðari en nú er búist við, vegna þess að aukning innlána verði hlutfallslega minni en verðmætaaukning afurðalána, mun Seðlabankinn gera ráðstafanir til þess að jafna þann mun. Einnig mun hann veita bönkum skammtímafyrirgreiðslu ef þeir lenda af óviðráðanlegum ástæðum í erfiðri greiðslufjárstöðu vegna árstíðasveiflna afurðanna.“

Fyrir skömmu voru þessi mál aftur tekin til umfjöllunar í ríkisstjórninni. Þá var málið rætt og ákveðið að fela landbrh. og viðskrh. að ganga eftir því að fjármögnun birgða sauðfjárafurða verði komið í það horf sem um var samið við kerfisbreytinguna. Í framhaldi af því ræddi ég við fulltrúa viðskiptabankanna og óskaði eftir því að þeir settu það niður hvað þeir teldu að til þyrfti að koma til þess að þeir gætu greitt út 72,4% af óniðurgreiddu heildsöluverði kindakjöts á þessu hausti. Bréf um það bárust mér í gær og í fyrradag og í morgun óskaði ég eftir því við viðskrh. að hann hlutaðist til um að niðurstaða fengist í þessum efnum svo að samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 1985 og ítrekun nú fyrir skömmu næði fram að ganga. Það er viðskrh. að gera nú.