27.11.1986
Sameinað þing: 22. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1219 í B-deild Alþingistíðinda. (1054)

Greiðslur afurðastöðva til bænda

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Bændur eiga að sjálfsögðu skýlausan rétt samkvæmt búvörulögum á þessum greiðslum. En mér þykir rétt að það komi fram sem ég veit sannast í þessu máli. Það var árið 1985, í fyrra, að bankarnir afgreiddu 74% af niðurgreiddu heildsöluverði sem var þá um 67% af óniðurgreiddu heildsöluverði sauðfjárafurða. Til þess að vinnslustöðvar landbúnaðarins gætu greitt fullt grundvallarverð fyrir 15. des. í fyrra flýtti ríkið niðurgreiðslum og flýtti einnig hluta af vaxta- og geymslugjaldi og kom þannig með, að ég hygg, 449,5 millj. sem gerði vinnslustöðvunum kleift að greiða út afurðirnar 15. des.

Árið 1986 afgreiddu bankarnir á sama hátt og í fyrra 74% af niðurgreiddu heildsöluverði, en í ár mun þetta aðeins samsvara um 61% af óniðurgreiddu heildsöluverði þar sem niðurgreiðslur hafa breyst milli ára. Þess vegna er því haldið fram af bönkunum að þeir hafi staðið við sinn hluta af gerðu samkomulagi. Hitt er annað mál að nú er vel að hæstv. landbrh. vinnur að lausn þessara mála í ríkisstjórninni.