02.12.1986
Sameinað þing: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1264 í B-deild Alþingistíðinda. (1097)

165. mál, herflugvöllur á Norðurlandi

Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég endurtek það, sem ég hef áður sagt, að af okkar hálfu kemur ekki til greina að hér verði reistur annar hernaðarflugvöllur. Það kemur heldur ekki til greina að hér verði reistur flugvöllur eða varaflugvöllur fyrir millilandaflug nema hann sé að öllu leyti undir innlendri stjórn. Ef það er rétt, sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði, að framkvæmdasjóður Atlantshafsbandalagsins veiti ekki styrki nema háð því skilyrði að slík mannvirki séu undir þeirra stjórn, kemur ekki til greina að þiggja slíkan styrk. (SvG: En annan?) Alls ekki. (SvG: En annan?) Ja, ef um er að ræða styrk sem engum skilyrðum er bundinn nema þeim að varnarliðsvélar fái að lenda þar fremur en að fara í sjóinn þegar ekki er lendingarfært í Keflavík finnst mér að við getum ekki útilokað það. Hins vegar verð ég að segja eins og er að mér þykir dálítið furðulegt ef það er rétt að þeir vegir sem hafa verið lagðir í Noregi með styrk úr framkvæmdasjóði Atlantshafsbandalagsins eru undir stjórn þess. Ég hef aldrei nokkurn tíma heyrt það. Það verð ég að segja eins og er. En þetta voru athyglisverðar upplýsingar og nauðsynlegt að þær séu skoðaðar.