20.10.1986
Efri deild: 4. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í B-deild Alþingistíðinda. (111)

3. mál, frídagur sjómanna

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti. Ég hef aldrei gumað af neinni grg. í þessu máli. Ég hafði frumkvæði að því að hafa samband við Sjómannasambandið og Farmanna- og fiskimannasambandið til að þoka þessu máli fram í framhaldi af umræðunni í hv. deild s.l. vor og það er mergurinn málsins.

Menn mega tala um orðbragð eins og þeim sýnist, en það er ósmekklegt að vera með slúður í garð manna þegar ekki er hægt að leggja það á borðið að einn hafi gert eitt eða annað. Það er slúður að bera það upp á mig að ég sem gamalreyndur fréttamaður á Morgunblaðinu hafi haft þau forréttindi að skrifa sjálfur frétt og koma henni fram. Það er ósiðlegt slúður.

Það er enginn að tala um að skipa nefnd í þessu máli, eins og hv. þm. og nýkrati Stefán Benediktsson sagði. Það er spurning um að fá grg. frá sjómannasamtökunum sem á að tryggja að þetta mál nái fram að ganga, að það nái höfn, og það eru allir sammála um það. En þegar menn eru með persónulegar dylgjur gef ég ekkert undir fótinn, en svara í sömu mynt. Og það er gott að hv. þm. Eiður Guðnason skildi það.

Formaður Sjómannasambands Íslands hefur staðfest við mig að þetta frv. eins og það er lagt fram standist ekki að hans mati og það þurfi að lagfæra það. Það sem ég hef sagt er að ég hef lagt mitt af mörkum til að ná fram upplýsingum og þær séu unnar sem geta siglt þessu máli í höfn. Það var lágkúrulegt í garð sjómannastéttarinnar að leggja þetta mál fram eins og hv. þm. Eiður Guðnason gerði í upphafi máls síns. Hann gat horft yfir sviðið og tekið það upp án þess að vera með það slúður sem hann lagði höfuðkapp á í þessu máli.