02.12.1986
Sameinað þing: 24. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1291 í B-deild Alþingistíðinda. (1129)

167. mál, afnám tóbaksveitinga á vegum ríkisins

Flm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 177 till. til þál. um afnám tóbaksveitinga á vegum ríkisins og opinberra stofnana. Tillgr. hljóðar svo: „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að afnema tóbaksveitingar á vegum ríkisins og opinberra stofnana.“

Ég mun ekki hafa langa framsögu fyrir þessu máli. Málið er einfalt og skýrir sig sjálft.

Alþingi samþykkti 17. maí 1984 lög um tóbaksvarnir. Þessi lagasetning var mikið nýmæli og þessu nýmæli hefur verið vel tekið og þessi lagasetning skilað góðum árangri. Ég held að engum blandist hugur um að það hefur dregið mjög úr reykingum á almannafæri. Sérstaklega er gleðilegt hvað miklu færri unglingar reykja nú en áður. Þess vegna tel ég að það sé mjög óviðunandi að ríkið eða ríkisstofnanir veiti lengur tóbak á fundum eða í samkvæmum. Hér er þó ekki lagt til að sett verði á algjört reykingabann. Gestir ríkis eða ríkisstofnana svo og starfsmenn geta notað sitt eigið tóbak svo fremi sem þeim svo sýnist.

Við erum orðin forgangsþjóð í heiminum varðandi tóbaksvarnir og til okkar er litið sem fyrirmyndar á því sviði. Þess vegna er ósamkvæmni í því að ríkið veiti tóbak sem er meira að segja réttilega merkt sem heilsuspillandi eitur. Auðvitað vilja ríkisstjórn og Alþingi stuðla að velferð þegnanna. Það er engin kurteisi að spilla heilsu gesta eða starfsmanna með eitruðu tóbaki. Ég vil geta þess að Danir eru einnig að fjalla um þessi mál.

Ég vil með þessu vekja athygli á máli sem ég veit að menn, þegar þeir íhuga það, sjá að er sjálfsagt og vona að það hljóti góða og jákvæða afgreiðslu í hv. allshn.