04.12.1986
Sameinað þing: 25. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1358 í B-deild Alþingistíðinda. (1197)

Afstaða til stöðvunar kjarnorkuvígbúnaðar

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég skal halda mig eingöngu við þingsköp. Ég vil einungis taka fram að það er alrangt að það hafi staðið á Alþfl. að taka afstöðu í þessu máli. Afstaða okkar var tilbúin þegar um síðustu helgi. Hins vegar hagaði því svo til í nefndinni að fulltrúar Framsfl. báðu um frekari frest. Okkur hefur ekkert verið að vanbúnaði til að lýsa skoðun okkar á þessu máli. En ég skal halda mig við það að ræða ekki frekar um efnisatriði málsins.

Í annan stað vil ég harðlega mótmæla því að það hafi staðið á því að Alþfl. tæki afstöðu að því er varðaði tillögu Kvennalistans um svipað efni í fyrra. Ég lýsti afstöðu Alþfl. eindregið og afdráttarlaust í utanrmn. í fyrra þannig að allar ásakanir um afstöðuleysi í þessum efnum eru út í hött.