04.12.1986
Sameinað þing: 25. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1372 í B-deild Alþingistíðinda. (1209)

170. mál, fjármögnunarfyrirtæki

Gunnar G. Schram:

Herra forseti. Eins og þegar hefur komið fram í þessum umræðum hefur hv. 2. þm. Norðurl. v. hreyft hér allmerku máli sem er till. til þál. um fjármögnunarfyrirtæki, en hann vill fela ríkisstjórninni að láta undirbúa löggjöf um þá starfsemi. Þessi tillaga er að mörgu leyti gagnleg og þörf því að hún dregur athyglina að því sem efni hennar er, þeim fjármögnunarfyrirtækjum sem hér hafa nokkur verið stofnuð á síðustu misserum og árum. Það má vel vera að rétt sé að taka það til athugunar hvort æskilegt er að setja löggjöf um þessi félög og slíka starfsemi.

Tillagan leiðir hins vegar hugann að þeirri spurningu hvort ekki er orðið tímabært að taka frá grunni til endurskoðunar þær reglur íslenskra laga sem gilda um erlent fjármagn í íslensku atvinnulífi. Það vekur upp þá grundvallarspurningu hvort ekki sé eðlilegra að fá hingað til lands erlent áhættufjármagn í stað þess að sífellt sé verið að taka lán í bönkum og öðrum lánastofnunum gegn veðum í eignum hér á landi á háum vöxtum. Slík lán auka skuldabyrði þjóðarinnar sem þegar er orðin ærin fyrir, ekki síst þegar við höfum þá staðreynd í huga að það lánsfjármagn sem nú er um að ræða í íslensku atvinnulífi mun vera að uppruna um 70% erlent.

Það er alveg rétt, sem hv. þm. þessarar tillögu sagði, að það áhættufé, sem um er að ræða og kemur inn á vegum og vettvangi hinna nýju fjármögnunarfyrirtækja, er gróðafjármagn. Það liggur í hlutarins eðli að svo er. En ég sé í sjálfu sér ekki neitt illt við það vegna þess að vitanlega eru það ekki aðeins eigendur hins erlenda áhættufjármagns sem hafa hag og ábata af því fjármagni heldur ekki síður þeir Íslendingar sem að fyrirtækjunum standa og byggja þau upp, sem þá einnig hagnast í jafnvel ríkari mæli en hinir erlendu eigendur áhættufjármagnsins. Það er mergurinn málsins.

Þetta leiðir vitanlega hugann að þeirri grundvallarspurningu sem er staða erlends áhættufjármagns í íslensku atvinnulífi. Ég vil taka undir með þeim sjónarmiðum, sem hér hafa komið fram, að það beri að gjalda varhug við því að erlendir fjármagnseigendur nái undirtökum í íslensku atvinnulífi. Ég held þó að það sé ekki hægt að setja allt „íslenskt atvinnulíf“ að þessu leyti undir sama hatt.

Það er vitanlega sjálfsögð stefna, sem fylgt hefur verið, að tryggja það sem vendilegast að Íslendingar hafi einir yfirráð yfir sínum auðlindum og nýtingu þeirra. Þar er fyrst og fremst um að ræða nýtingu sjávaraflans og fiskimiðanna, nýtingu íslenskra fallvatna og orku, nýtingu annarra íslenskra landkosta eins og jarðhita og annars slíks. Það sama þarf hins vegar alls ekki að gilda hvað varðar aðgang erlends fjármagns að annarri atvinnustarfsemi, þar sem ekki er um auðlindanýtingu að ræða. Ég tel einborið að ekki þurfi sömu reglur að gilda um fjárfestingar í ýmsum þjónustugreinum eða iðnaði og þær takmarkanir sem við viljum láta gilda hvað varðar nýtingu auðlinda okkar. Ég tel þess vegna bæði þörf á því og fulla ástæðu til þess að sett verði skýr lög um það hér á Alþingi hvernig við getum nýtt okkur þá kosti sem í erlendu áhættufjármagni felast. Það hafa allar nágrannaþjóðir okkar gert í vaxandi mæli á liðnum árum með góðum árangri og þangað getum við vitanlega sótt löggjafarfyrirmyndir.

Ég minni á það að nýlega hafa verið samþykkt hér á þingi tvenn lög um bankastarfsemi. Í öðrum þeirra er gert ráð fyrir heimild erlendra banka til þess að reka hér svokallaðar umboðsskrifstofur. Ég held að það komi mjög til athugunar við könnun á þátttöku erlends fjármagns í íslensku atvinnulífi hvort ekki er orðið tímabært að rýmka um slíkar heimildir erlendra banka til starfsemi hér á landi í formi útibúa eða á annan hátt þar sem erlendir fjármagnsaðilar lána til íslenskra framkvæmda og íslenskra atvinnufyrirtækja þannig að það séu hinir erlendu aðilar sem bera þá áhættuna. Ef illa fer séu það ekki íslenskir fjármagnseigendur sem beri skaðann heldur þeir erlendu fjármagnseigendur, þeir sem að hinni erlendu bankastarfsemi standa. Þannig dreifum við áhættunni. Þar er ekki um eignaraðild að ræða, heldur er þar einfaldlega um þátttöku í bankastarfsemi að ræða. Það má vel vera að menn segi að þetta sé erfið og óheilbrigð samkeppni fyrir íslenska banka og íslenska bankastarfsemi. Ég er ekki á sama máli. Ég tel að hér gæti vel verið um heilbrigða samkeppni að ræða sem mundi einmitt geta átt þátt í því að létta ýmsum byrðum af íslenska bankakerfinu og geti verið íslenskum atvinnuvegum mjög til góða.

Í öðru lagi vil ég minna á frv. sem nýlega var dreift hér á þingi en það er frv. til nýrra tollalaga. Í 90. gr. þess frv. er gert ráð fyrir nýmæli í íslenskum lögum, þ.e. stofnun sérstakra tollfrjálsra svæða en stofnun þeirra hefur verið bönnuð hingað til. Þar er gert ráð fyrir að fram geti farið vinnsla, iðnaður eða atvinnustarfsemi þar sem virði vörunnar sé aukið, þar sem virðisauki skapist án þess að af slíkri vöru, iðnaðarstarfsemi eða atvinustarfsemi þurfi að greiða aðflutningsgjöld og aðra íslenska tolla og gjöld. Það kemur vissulega til greina að á slíkum sérsvæðum verði heimilað að nýta erlent áhættufjármagn í meira mæli en annars staðar innanlands.

Til að draga saman það sem ég vildi segja í tilefni þessarar þáltill., þá er hún í rauninni aðeins angi af miklu stærra máli, því máli að við Íslendingar setjum reglur og löggjöf, sem hingað til hefur skort í íslensk lög, um þátttöku erlends áhættufjármagns í íslensku atvinnulífi. Ég tel að það sé nauðsyn á frjálslegri reglum á því sviði en hingað til hafa gilt. Raunar hafa þær reglur verið mjög á reiki eins og hv. flm. benti á. Íslenskt atvinnulíf þarf að nýta sér áhættufjármagn í miklum mun meira mæli en það gerir í dag. Það getur orðið íslensku atvinnulífi veruleg lyftistöng á komandi árum. Þar er um það að ræða að hinir erlendu fjármagnseigendur taka áhættuna en ekki hið íslenska bankakerfi. Þess vegna eigum við að setja um þetta skýrar reglur. Í þeim reglum þarf vitanlega jafnan að gæta þess að í efnisköflum slíkra laga og slíkra reglna seljum við ekki forræði yfir atvinnustarfseini okkar eða auðlindum í hendur útlendinga. Aðrar þjóðir hafa getað búið svo um hnútana að ekki er um slíkt að ræða og okkur ætti ekki að vera þar vandara um.