08.12.1986
Neðri deild: 17. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1418 í B-deild Alþingistíðinda. (1263)

223. mál, lögreglumenn

Friðrik Sophusson:

Virðulegi forseti. Þegar þetta frv. kemur hér til umræðu langar mig til að beina því til hv. nefndar sem fær þetta mál til meðferðar, sem virðist ekki vera alveg ljóst enn þá hver verður, að kanna rækilega hvort ekki sé ástæða til að setja ákvæði í lögin um lögreglumenn frá 1972, í 4. gr., þess efnis að til lögreglumanna teljist, auk lögreglumanna ríkisins, skipshafna varðskipa og tollvarða, fangaverðir. Ég vil rekja í örfáum orðum söguleg atriði er varða þetta mál.

Á síðustu öld voru lögregla, tollur og fangavarsla í höndum sýslumanna og lögreglustjóra, sbr. 7. gr. laga frá 4. mars 1871, en þá var fyrsti fangavörðurinn ráðinn í Reykjavík en annars staðar á landinu önnuðust sýslumenn fangavörslu. Í 1. gr. laga frá 7. maí 1928 eru störf tollstjóra og lögreglustjóra aðskilin, en sameinuð að hluta, þ.e. gerðir aftur að löggæslumönnum með lögum frá 12. febr. 1940, en þar er ráðherra heimilað að ákveða að tollverðir séu lögreglumenn ríkisins og er það svo allt til 20. apríl 1963 með lögum nr. 56/1972, þeim lögum sem nú er verið að breyta, að tollverðir eru í 5. gr. gerðir að lögreglumönnum ríkisins í skilningi þeirra laga.

Varðandi fangaverði er sama ákvæði um það hverjir skuli annast og sjá um ábyrgð á gæslu og viðurværi fanga, þ.e. sýslumenn úti á landi. Þetta ákvæði er í lögum allt fram til 1954 a.m.k., en síðan er fangavarðastarfið sett til hliðar í þessum lögum og þeir eða yfirmenn fangelsa ekki taldir lengur með lögreglumönnum ríkisins.

Varðandi þá menn er fangaverðir gæta skal tekið fram að oftast eru það þeir menn sem eru erfiðastir og hættulegastir af þeim mönnum sem lögregluþjónar fást við daglega.

Í 70. gr. laga um meðferð opinberra mála segir, með leyfi forseta:

„Gæslufangar sæti þeirri meðferð sem nauðsynleg er til þess að gæslan komi að gagni og góð regla haldist í varðhaldinu, en varast skal svo sem kostur er að beita þá hörku eða harðýðgi.“

Það má öllum vera ljóst að framkvæmd gæsluvarðhalds er mjög vandasöm eins og m.a. ofangreind lagagrein ber með sér. Það er því ljóst að gera verður miklar kröfur til fangavarða, t.d. hvað varðar menntun, aga og siðferði. Þessar kröfur hljóta að vera í engu minna mæli en þær sem gera verður til lögreglumanna, tollvarða og starfsmanna Landhelgisgæslunnar eða þeirra stétta sem einnig er ætlað að verja og framfylgja þeim sömu lögum og reglum sem þeir dómar eru byggðir á sem fangavörðum er gert að fullnusta í sínu starfi.

Herra forseti. Ef nefndin, sem fær þetta mál til meðferðar, kemst að þeirri niðurstöðu að það sé óeðlilegt að fangaverðir falli undir lög nr. 56/1972, um lögreglumenn, en mér hefur skilist að sú sé afstaða dómsmrn., finnst mér koma til greina sú leið, sem embættismenn í dómsmrn. hafa reyndar nefnt við mig, að gerð verði breyting á lögum um fangelsi og fangavist og þar skýrt tekið fram að réttarstöðu fangavarða, þar á meðal hin hlutlæga ábyrgð ríkisvaldsins á skaða sem fangaverðir verða fyrir, verði jafnað til réttarstöðu lögreglumanna í lögum um lögreglumenn, en síðan verði í lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna kveðið á um að fangaverðir vinni í verkföllum.

Í fskj. með frv. um kjarasamninga opinberra starfsmanna, sem nú er til meðferðar í hv. fjh.- og viðskn., hefur í upptalningu, er fylgir 19. gr. þeirra laga, en það er listi yfir þær starfsgreinar sem verða að vinna í verkfalli, fallið niður ein lína, þ.e. um fangaverði, en fulltrúar fjmrn. hafa sagt hv. nefnd að það hafi verið af misgáningi og þess vegna sé það leiðrétting að inn komi í fskj. að fangavörðum beri að vinna í verkföllum.

Herra forseti. Það er mín ósk að hv. nefnd, sem fær málið til meðferðar, kanni til hlítar hvernig eðlilegast er að koma þessum lagaákvæðum fyrir, en eins og ég hef sagt í minni ræðu kemur til greina annars vegar að gera breytingar á 4. gr. laga um lögreglumenn eða gera breytingu nú þegar á lögum um fangelsi og fangavist því að ég hygg að ekki verði hægt að bíða eftir heildarendurskoðun þeirra laga jafnvel þótt hún standi yfir um þetta leyti.