08.12.1986
Neðri deild: 17. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1420 í B-deild Alþingistíðinda. (1265)

223. mál, lögreglumenn

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Þungskilið er lögmál lífsins og alltorskilið virðist mér eftir hvaða reglum málum er vísað til nefnda. Þau lög sem þetta frv. fjallar um breytingar á voru tekin fyrir í þinginu 1972 og þá var því frv. vísað til allshn. Með leyfi forseta æski ég þess að mega lesa upp 1. gr. laganna ef menn skyldu eftir henni geta áttað sig á því hvort það efni sem er í lögum um lögreglumenn frá 1972, 1. gr. þeirra laga sem eru í gildi, bendi til þess að þetta mál heyri undir fjh.- og viðskn.

„1. gr. Ríkið heldur uppi starfsemi lögregluliðs sem hefur það verkefni að gæta almannaöryggis og halda uppi lögum og reglum, stemma stigu við lögbrotum og vinna að uppljóstrun brota, sem framin eru, samkvæmt því sem nánar greinir í V. kafla laga um meðferð opinberra mála.“

Í sjálfu sér skyldi engan undra að þeir sem eiga að sjá um þessi störf eigi ekki að geta farið í verkfall. Það er eiginlega dálítið skrýtið ef þeir gætu farið í verkfall. Ég fæ ekki séð hvernig nokkurt ríki fær staðist þar sem það væri framkvæmt að lögregluþjónar væru í verkfalli þegar þeim dytti í hug.

1. gr. í frv. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Við 4. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi: Lögreglumenn ríkisins, sbr. 1. málsgrein, mega hvorki gera verkföll né taka þátt í verkfallsboðun.“

Þetta er talið svo flókið mál og efnismikið í fjárhagslegri afstöðu þingsins að það þurfi alla reiknimeistara fjh.- og viðskn. til að finna út hvað þetta kosti. Að sjálfsögðu verða þeir þá spurðir spjörunum úr um útreikningana og forsendur. Ég hef aldrei vitað að í þingstörfum kæmi það upp að mönnum dytti önnur eins vitleysa í hug og ætla að fara að hrúga öllum málum inn í fjh.- og viðskn. hvort sem þau eiga þar erindi eða ekki.

Ég geri að tillögu minni, herra forseti, að þessu máli verði vísað til allshn. samkvæmt hefðum. Ekki samt 100 ára hefðum eins og hér hefur verið talað um áður. Svo fróður er ég ekki um söguna að ég viti hvort þessi nefnd var til þá, en það hefur komið fram hjá einum ræðumanni í dag að hún muni hafa verið til fyrir 100 árum. Ég mælist eindregið til þess að þessu máli verði vísað til allshn.