10.12.1986
Neðri deild: 18. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1455 í B-deild Alþingistíðinda. (1311)

212. mál, virðisaukaskattur

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. greindi frá því í upphafi máls síns að þrír stjórnmálaflokkar í þinginu væru sammála um þetta frv. þannig að hann hefur væntanlega talað fyrir hönd stjórnarflokkanna, núverandi og tilvonandi. Hér er um að ræða, virðist mér, fyrsta frv. nýju viðreisnarstjórnarinnar sem hann ætlar að reyna að mynda með formanni Alþfl. eftir kosningarnar ef þeir fá nægilegt fylgi til þess. Það er eftir að telja eins og bent hefur verið á. - Og það fer að mörgu leyti vel á því að þessir flokkar skuli taka höndum saman strax fyrir kosningar, gera grein fyrir því að þeir ætli sér að mynda stjórn eftir kosningarnar og fer sérstaklega vel á því vegna þess að það var viðreisnarstjórnin sem fann upp söluskattinn. Formaður Alþfl. fann upp söluskattinn. Og nú hefur verið tekin um það ákvörðun af Jónunum sem leiða Alþfl.Alþfl. eigi líka að finna upp og standa að framkvæmd virðisaukaskattsins á Alþingi Íslendinga.

Um meðferð málsins má að öðru leyti margt segja og ég ætla að víkja að því á eftir. Ég ætla fyrst að fara almennt yfir áhrif þessa skatts, ræða um verðlagsniðurstöðuna sem greint er frá í frv., ræða um innheimtuna, endurgreiðslukerfið, millifærsluhlutverk ríkisins og mun síðan að lokum verða með ábendingar um hvað ég tel rétt að gera í þeirri stöðu sem við erum nú með hið almenna skattakerfi í landinu.

Ég vík þá fyrst, herra forseti, að verðlagsniðurstöðunni. Í frv. er byggt á þeim forsendum að um verði að ræða mjög verulegar niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum til viðbótar við það sem nú er, en þó er í frv. ekki að finna neitt ákvæði um þetta. Millifærsluráðstafanirnar eru allar fyrir utan þetta frv. Frv. gerir ráð fyrir því eins og það er að búvörur hækki um 24%. Það er það sem stendur í frv. þó að í grg. sé lofað millifærsluráðstöfunum sem hæstv. fjmrh. tók svo að nokkru leyti til baka í ræðu sinni áðan þegar hann upplýsti að ríkisstjórnin væri fyrir sitt leyti tilbúin að ræða um það að haga þessum millifærsluráðstöfunum öðruvísi en gert er ráð fyrir í grg. frv. Það þýðir m.ö.o. að það er verið að benda á þann möguleika að niðurgreiðslur landbúnaðarvara verði mun minni en sagt er í grg., aðrar greiðslur eitthvað hærri, og þess vegna er ekki hægt að ganga út frá neinu öðru en því, ef menn samþykkja frv., að búvörur hækki um 24%.

Búvörur eru söluskattslausar og matvörur hafa verið það allt frá 1. sept. 1978. Það er ljóst að það var mönnum alltaf þyrnir í augum þessi niðurfelling söluskatts af matvælum. Þá hófst fyrir alvöru má segja söngurinn um að söluskattskerfið væri algerlega óbrúklegt og má segja að hann nái hámarki í frv. sem hér liggur fyrir.

Þetta er í fyrsta lagi ljóst með búvörurnar. Þær hækka samkvæmt þessu plaggi um 24%. Önnur matvæli hækka um 14% að meðaltali samkvæmt niðurstöðu greinargerðarinnar. Hvernig lítur þetta dæmi út fyrir láglaunafjölskyldu í landinu eins og sakir standa? Segjum að hver fjölskylda hafi 30 þús. kr. fyrir sig að leggja á mánuði. Þær fjölskyldur eru til í landinu, einkum einstæðra foreldra. Segjum að þessi fjölskylda eyði 20 þús. kr. á mánuði í matvörur, þar af í landbúnaðarafurðir um 10 þús. kr. á mánuði. Búvörurnar hækka úr 10 þús. í 12 400 kr. á mánuði skv. frv., en hér er ekki verið að gera tillögu um að samþykkja grg. Það er aldrei gert í þinginu. Í öðru lagi hækka aðrar matvörur þá úr 10 þús. kr. í 11 400 kr. Skattahækkun þessarar fjölskyldu með 30 þús. kr. á mánuði er 3800 kr. á mánuði skv. þessu frv. vegna þess að nú ber þessi fjölskylda enga skatta hliðstæða af matvörum. Skattahækkun þessarar láglaunafjölskyldu með 30 þús. kr. á mánuði og 360 þús. kr. á ári er skv. frv. upp á 45 600 kr. á ári. Hér er um að ræða nýjan brúttóskatt á þessa fjölskyldu upp á 12,7%. Þar er fundinn skattstofninn sem á að fara að borga núna samkvæmt þeim tillögum sem hér liggja fyrir. Verði hins vegar þær hliðarráðstafanir sem hér er rætt um varanlegar er ljóst að skattahækkun þessarar fjölskyldu verður um 2 þús. kr. á mánuði miðað við þá eyðslu í matvæli sem ég reiknaði með áðan. Hér er um að ræða skattahækkun upp á 25 þús. kr. á ári. Segjum að þessi fjölskylda hafi eitt barn á framfæri og barnabætur verði hækkaðar um 520-550 millj. kr. Þá er alveg ljóst að þessi fjölskylda verður fyrir skattahækkun, einstætt foreldri með eitt barn, þrátt fyrir hækkun barnabótanna upp á þó nokkrar og tilfinnanlegar upphæðir, vegna þess að þetta fólk hefur litlar tekjur.

Hér er sem sagt verið að flytja til skattbyrðina í landinu, leggja nýja skatta á þá sem eru með allra lægstu launin og lélegustu kjörin. Jafnframt er ljóst að skattaþyngingin á hálaunafólkið verður mikið minni vegna þess að hálaunafólk greiðir mikið lægri hluta tekna sinna fyrir matvæli. Þetta atriði tel ég vera grundvallaratriði þessa máls. Hér er verið að færa til skattabyrði af fyrirtækjum yfir á lágtekjufólk. Ég tel að skattkerfisbreyting, hversu góð sem hún kann að vera að öðru leyti, skattkerfisbreyting af þessu tagi sem hefur það í för með sér að íþyngja láglaunafólki, þar sem hvergi er í frv. minnst á að koma til móts við láglaunafólk þó það standi í greinargerðinni, slíka skattkerfisbreytingu komi ekki til greina að fallast á fyrir þá sem vilja raunverulega bera hag láglaunafólksins fyrir brjósti.

Ég hef aðeins vikið að matvörunum og búvörunum sérstaklega, en í frv. er gert ráð fyrir að fella niður flestallar undanþágur sem verið hafa í gildi í sambandi við söluskattinn. Ekki lifir þetta fólk frekar en aðrir af einu saman brauði. Það er augljóst að margs konar menningarleg þjónusta mun hækka í verði frá því sem verið hefur skv. þessu frv. Margs konar menningarstarfsemi hefur verið undanþegin söluskatti. Það er gert ráð fyrir því að fella þær undanþágur niður nema í mjög takmörkuðum tilvikum. Ég tel að skattkerfi sem kemur þannig út hljóti að eiga að hafa í för með sér að menn taki um leið ákvörðun um að eyða stórauknu fé, sem svarar þessum skatttekjum a.m.k., til menningarmála í landinu. Ég teldi að ef menn ætla að framkvæma altækan virðisaukaskatt af því tagi sem hér er tillaga um og millifærsluráðstafanir í leiðinni hljóti menn að líta sérstaklega á hlut menningarmálanna sem ég er sannfærður um að fara illa út úr þessu kerfi miðað við það sem verið hefur og er þá langt til jafnað í rauninni.

Staðreyndin er sú að núna hirðir ríkið stórkostlega fjármuni, t.d. í söluskatt af bókum, en skilar í Launasjóð rithöfunda aðeins tíunda parti eða svo af þeim söluskatti.

Hér vík ég fyrst, herra forseti, að verðlagsniðurstöðunni. Og hér er ekki um að ræða tilbúnar tölur af minni hálfu. Þessar tölur liggja fyrir í frv. sjálfu. Þar kemur fram hversu mikill söluskattur leggst núna á einkaneysluna, hversu mikill virðisaukaskattur legðist á einkaneysluna og þar kemur líka fram hverju skila í söluskatti skattskyld aðföng atvinnurekstrar og hverju skattskyld aðföng atvinnurekstrar skila í virðisaukaskatti.

Skv. frv. og grg. þess er einkaneyslan með um 72% af söluskattinum en 85,1% af virðisaukaskattinum. Á grundvelli frv. þýðir þetta að einkaneyslan skilar í söluskatti miðað við sambærilega álagningu um 13 milljörðum kr., en í virðisaukaskatti 15,4 milljörðum kr. Einkaneyslan er m.ö.o. skattlögð um 2,4 milljarða í viðbót við það sem væri samkvæmt söluskattskerfinu. Skattskyld aðföng atvinnurekstrar ásamt skekkju í öðrum liðum, eins og það er orðað, skila í söluskattinum 14,1% eða 2,6 milljörðum kr. á þeim grundvelli sem frv. er reiknað út. Samkvæmt tillögunum um virðisaukaskatt skilar atvinnureksturinn hins vegar ekki 14,1% heldur 3,2% eða 580 millj. kr. Lækkun skatta af atvinnurekstri er með þessum hætti 2,1 milljarður, en hækkun skatta á einstaklingum er með þessum hætti 2,4 milljarðar kr. Það er grundvallaratriðið í þessu máli að það er verið að íþyngja einstaklingunum en létta byrðar fyrirtækjanna.

En hver eru þá rökin fyrir því að þessar tillögur eru fluttar? Rökin eru þau, eins og hæstv. fjmrh. gat um áðan, að hér er um að ræða altækt kerfi og mikið líklegra að það skilaði sér betur en söluskattskerfið.

Í rauninni hefði hæstv. fjmrh. ekki þurft annað en að lesa grg. frv. til að átta sig á því hvað það er í rauninni hæpin staðhæfing að þetta kerfi skili sér mikið betur. Á bls. 40 í grg. frv. segir, með leyfi forseta, í IX. kafla á þessa leið:

„Telja verður það ofmælt að í kerfinu felist umtalsvert sjálfseftirlit með hagsmunaárekstrum innheimtuaðila. Í öllum aðalatriðum má segja að allar aðstæður að þessu leyti verði mjög hliðstæðar í virðisaukaskattskerfi og nú í söluskattskerfinu og mun þörf á virku eftirliti skattyfirvalda ekki verða minni með tilkomu virðisaukaskatts.“

Það er m.ö.o. niðurstaða fjmrn. að aðstæður séu að öllu leyti mjög hliðstæðar því sem gerist í söluskattskerfinu og þess vegna þurfi engu minna eftirlit með þessu kerfi en hinu og það sem kallað er sjálfseftirlit, sem er athyglisvert orð, virðisaukaskattskerfisins sé ekki betra en svo að þetta sé mjög svipað og söluskattskerfið.

Ég verð að segja það eins og er, herra forseti, að ég hef engin rök heyrt sem sannfæra mig um að virðisaukaskattskerfið hljóti að skila sér betur en endurbætt söluskattskerfi. Ég hef engin rök heyrt fullgild í þeim efnum. Ég tek það fram að ég er reiðubúinn til að taka við rökum og fallast á þau ef menn geta bent mér á efnisleg rök í þessu efni.

Það er ljóst að innheimtuaðilum virðisaukaskatts fjölgar stórkostlega frá því sem er í söluskatti. Söluskattinn borga nú um 10 þús. greiðendur, en virðisaukaskattinn 22 500. Á bls. 28 í grg. frv. er farið rækilega yfir með hvaða hætti greiðsla virðisaukaskattsins gengur fyrir sig frá hrávöruframleiðanda til framleiðanda, frá framleiðanda til heildsala, frá heildsala til smásala. Það sem vantar í þessa töflu eru upplýsingar um hversu margir greiðendur eru á hverju stigi virðisaukaskattsins.

Ég hef leyft mér að giska á að greiðendur virðisaukaskattsins á lokastigi séu a.m.k. jafnmargir og greiðendur söluskattsins eru í dag, þ.e. á bilinu 10-12 þús. eða svo. Ég held að það sé ekkert auðveldara að sjá fram úr því að þessir 12 þús. aðilar greiði betur virðisaukaskatt en þeir greiða núna söluskatt. Auðvitað er upphæðin sem þeir eiga að greiða lægri en nú í söluskattinum, en að skilin verði hlutfallslega betri þarna en nú er á ég eftir að sjá að geti orðið.

Það hefur verið talað um að hver aðili virðisaukaskattskerfisins passi upp á annan. Vonandi er eitthvað hæft í því. En þá er líka hitt til, ég ætla ekki að segja góð heldur gamalkunn staðreynd úr þjóðlífi Íslendinga, að menn eru býsna seigir við að hjálpast að við að losa hvor annan við skattstofninn svo að ég taki pent til orða. Þetta gerist í þjónustunni í stórum stíl þar sem báðir aðilar í söluskattinum, bæði viðskiptamaðurinn og sá sem þjónustuna innir af hendi, sameinast um að sleppa söluskattinum vegna þess að þeir eiga sameiginlega hagsmuni af því að losna við hann á einhverju stigi. Þannig hefur það verið og það er ein ástæðan til að menn eru að tala um að laga þetta kerfi. En skyldi það ekki líka geta verið þannig að menn á einhverjum stigum vildu hjálpast að við að sleppa líka við virðisaukaskattinn? Ég hygg að fljótlega gæti sú orðið raunin og kannske er það rétt sem Guðmundur Bjarnason, hv. 6. þm. Norðurl. e., sagði úr þessum ræðustól fyrir nokkrum vikum: Kannske er nauðsynlegt fyrir ríkið að finna upp nýtt skattkerfi á tíu ára fresti, að þegar búið er að finna á því öll götin og smugurnar verði að endurnýja það alveg upp á nýtt til þess að það sé í rauninni brúklegt til að skila tekjum í ríkissjóð.

Mér finnst reyndar að í grg. með frv. komi fram mismunandi upplýsingar um það hvað hin bætta innheimta gæti gefið og það er dálítið óþægilegt þegar maður er að fara yfir mál af þessu tagi að hlutum skuli ekki bera 100% saman í grg. jafnþýðingarmikils máls og hér er á ferðinni. Ég ætla að nefna um það eitt dæmi: Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir að fækka uppgjörsdögum úr 12 í 6 á ári. Það er talið að tekjulækkun ríkisins af þessum ástæðum á fyrsta ári virðisaukaskattsins verði 8-9% af virðisaukaskattinum, vegna tilfærslu í tíma. Með þessu móti tapar ríkissjóður verulegum fjármunum, milli 8 og 9% af 18 milljörðum á fyrsta árinu. Þetta eru 11,5 milljarðar sem menn eru að tala um, mér sýnist þetta reyndar vera 1,6 milljarðar króna. Síðan segir í grg. frv.: „Á móti koma væntanlega áhrif af bættri innheimtu.“ En annars staðar í grg. segir að bætt innheimta skili 400 millj. kr. Hvor talan skyldi vera rétt og hvor vitlaus? Þær eru það örugglega ekki báðar. Ég hef satt að segja enga trú á því að virðisaukaskatturinn skili sér einum og hálfum milljarði betur en söluskatturinn strax í upphafi. Mig minnir reyndar að í þeirri nefnd, sem fjallaði um skattsvik og skilaði áliti fyrr á þessu ári, hafi verið gert ráð fyrir því að undanskot undan söluskatti væru 1,2 milljarðar króna, heildarundanskot undan söluskatti. Og ég hafði skilið það svo að menn teldu að virðisaukaskatturinn gæti gefið betri innheimtu sem næmi eins og þriðjungi af þessari tölu í fyrstu lotu, án þess að ég hafi nokkurn tíma séð neinar sannanir eða óyggjandi röksemdir fyrir því að svo geti orðið, enda geta menn kannske ekki framleitt slíkar röksemdir eða birt þær vegna þess að hérna er náttúrlega ekki á vísan að róa í öllum efnum. Alla vega er ljóst að á fyrsta ári virðisaukaskattsins mun vanta upp á greiðslustöðu ríkisins ca. 1500 millj. kr. og það munar um minna. Ég nefni þetta hér vegna þess að mér finnst nauðsynlegt að ítreka nauðsyn þess að plagg eins og grg. með frv. til laga um virðisaukaskatt sé nákvæmt og rétt þannig að maður lesi sömu hlutina út úr grg.

Þessu frv. og framkvæmd þess fylgir mikil skriffinnska og það er lítið gert úr henni í orðum fjmrh. Það er svo skrýtið með Sjálfstfl. að þegar hann er í ríkisstjórn er honum alveg sama hvað skriffinnskan eykst og hann er tilbúinn til þess að kaupa heilu spítalana og bæta við báknið bara ef hann situr í ríkisstjórn, eins og ekkert sé. Og eins er það með þetta mál. Það er stórkostleg aukning á skriffinnsku ríkisins sem fylgir því að taka upp virðisaukaskatt.

Reynt er að draga úr því í ræða fjmrh. áðan en ég er auðvitað sannfærður um að það hlýtur að þýða stórkostlega aukningu skriffinnsku að taka upp þetta kerfi, greiðendunum fjölgar og allt það. Þetta er dýrara fyrir ríkið. Hvergi í þessum útreikningum er gert ráð fyrir auknum kostnaði fyrir ríkið á skattstofum eða annars staðar þar sem um þessi mál verður fjallað. Ég held að það sé nauðsynlegt að átta sig á þessu atriði, hvað þessi skriffinnska þýðir í kostnaði fyrir ríkið. Ég get út af fyrir sig látið það koma fram til að láta menn njóta sannmælis að öllu leyti að ég er auðvitað sem félagshyggjumaður og sósíalisti ákaflega ánægður með það að menn fari að fylgjast betur með rekstri fyrirtækjanna í landinu. Mér þykir vænt um að þeir fjármálaráðuneytismenn skuli átta sig á því undir forustu formanns Sjálfstfl. Hitt er auðvitað alveg ljóst að skriffinnsku má ekki auka aðeins til þess að fjölga störfum hjá ríkinu. Skriffinnska verður að hafa einhvern tilgang, að vera með skilvirkara og betra skattakerfi og hagkvæmara líka frá sjónarmiði ríkisins og þjóðarinnar í heild. Ég gagnrýni það að ekki skuli hafa komið fram upplýsingar um það hvað þetta kerfi kostar en það kostar örugglega tugi milljóna kr. frá því sem er í núverandi kerfi.

Þetta virðisaukaskattskerfi þýðir aukna skriffinnsku en ekki bara vegna innheimtunnar heldur líka vegna endurgreiðslnanna sem ætlunin er að taka upp og sýnast vera óhjákvæmilegar ef menn fara með þetta í gegnum þingið sem ég efa nú að verði gert því það er stutt eftir af þessu þingi. M.a. er gert ráð fyrir því að virðisaukaskattur leggist á vinnu á byggingarstað en það mun hækka verð á nýbyggðu íbúðarhúsnæði um 5-7% að mati frv. Það þýðir að íbúð sem kostar 3 millj. kr. hækkar um 150-210 þús. kr. samkvæmt þessu og það er ekki gert ráð fyrir því í þessu að lánin hækki út á þetta. Það á að endurgreiða þessa upphæð. Ég satt að segja hef ekki séð neinar tillögur um það hvernig á að koma þessu endurgreiðslukerfi fyrir til húsbyggjenda, hverjir eiga að fá þetta endurgreitt og hverjir eiga að annast endurgreiðsluna. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að betri upplýsingar komi fram um það. Hér er um að ræða að mínu mati kerfi sem getur verið klúður í framkvæmd, erfitt og flókið og jafnvel getur það kallað á mismunun á milli einstaklinga.

Ég ætla þessu næst, herra forseti, að víkja nokkrum orðum að millifærslunum sem eru í grg. Það er fyrst til að taka að ég er þeirrar skoðunar almennt að millifærsluhlutverk ríkisins megi vera mikið víðtækara en það er nú. Ég er ekki sammála þeim sem telja það höfuðverkefni íslenskra stjórnmála að skera niður þjónustu ríkisins. Ég er ekki sammála þeim sem sjá pólitískan metnað sinn helstan í því að keyra niður tölur ríkisins sem hlutfall af þjóðarframleiðslu. Hins vegar er ljóst að þessar tillögur þýða aukin ríkisumsvif sem hlutfall af þjóðarframleiðslu, nettóaukningu ríkisumsvifa frá því sem nú er. Þetta birtist með þeim hætti í fyrsta lagi að niðurgreiðslur á landbúnaðarvörum á að auka um 950 millj. kr. Ég tel reyndar að það séu verulegar líkur á að þessar niðurgreiðsluhugmyndir yrðu lækkaðar mjög fljótlega og hæstv. fjmrh. opnaði reyndar fyrir það í ræðu sinni áðan. Ég tel að það sé ekki á vísan að róa fyrir neytendur eða landbúnaðinn að þessar niðurgreiðslur verði varanlegar með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir og þess vegna væri að mínu mati eðlilegra að setja það inn í frv. um virðisaukaskatt, ef að lögum verður, að þennan skatthluta eigi að endurgreiða af tekjum af virðisaukaskatti þannig að það sé ekki slitið á milli eins og gert er ráð fyrir í frv. eins og það hér liggur fyrir sem byggist á því að landbúnaðarvörur hækki í verði um 24%.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir því að tollar og vörugjöld af innfluttum matvælum og innlendum falli niður, upp á 550 millj. kr. Þetta er ekki aukning á millifærslum ríkisins heldur tilfærsla frá því sem er.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að hækkun húshitunarkostnaðar verði niðurgreidd um 450 millj. kr. og mig vantar alveg upplýsingar um það, herra forseti, og óska eftir að fjmrh. geri grein fyrir því í þessum umræðum: Á hverju er þetta byggt? Hvernig er þessi niðurgreiðsla hugsuð? Hverjir fá hana og hvert fer hún? Það er býsna athyglisvert að á sama tíma og ríkisstjórnin gerir ráð fyrir að hækka orkuverð í landinu um 600 millj. kr. með sérstökum orkuskatti nú um áramótin er hér verið að tala um niðurgreiðslur á húshitunarkostnaði upp á 450 millj. kr. sem á að koma til framkvæmda um þar næstu áramót. Ég óska eftir nánari upplýsingum um þetta atriði og jafnframt nota ég tækifærið og spyr hæstv. fjmrh.: Hvað er að frétta af þessu orkuskattsmáli? Hvar er það á vegi statt? Er ekki ætlunin að leggja hér inn frv. um það efni? Byggist ekki fjárlagafrumvarpið á því? Hvað tefur? Hvernig stendur á því að ríkisstjórnin kemur ekki þessu frv. frá sér? Það er auðvitað eins og annað. Það er ekki sauðast við að koma inn málum í þingið á eðlilegum tíma og allt fer í hönk þegar á að fara að afgreiða þau á handahlaupum síðustu dagana fyrir jólin. Hvar er þetta orkufrumvarp? Eru menn kannske hættir við það og er komið eitthvað annað í staðinn?

Í fjórða lagi er gert ráð fyrir því að barnabætur hækki skv. grg. frv. um 525 millj. kr. Það kann að vera rétt að þessi hækkun slétti útreikninginn hjá hjónum með tvö börn en það er ljóst að þessi hækkun dugir ekki til að slétta út reikninginn hjá einstæðum foreldrum eins og ég sýndi fram á áðan. Barnabætur munu á næsta ári vera áætlaðar um 1,7 milljarðar kr. Hér er um að ræða hækkun á barnabótum í kringum 30%. Ég held að óhjákvæmilegt sé að spyrja líka hvaða hugmyndir eru um útfærslu á þessu atriði. Er ætlunin að barnabætur og barnabótaauki hækki jafnt og hlutfallslega? Þetta skiptir máli og það er ekki hægt að láta umræðu fara fram um þetta mál öðruvísi en að upplýsingar um það liggi fyrir.

Þá er gert ráð fyrir að elli- og örorkulífeyrir hækki um 4%, upp á 175 millj. kr., og ég vil inna hæstv. fjmrh. eftir því einnig hvernig sú útfærsla er hugsuð af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það er nauðsynlegt að fá um það upplýsingar við þessa umræðu.

Ég sé ekki betur, herra forseti, en að hér sé um að ræða tiltölulega mjög lága upphæð og það skiptir auðvitað máli í þessu efni hvort hún er til að hækka elli- og örorkulífeyri, þ.e. grunnlífeyri eða er hún til að hækka tekjutryggingu eða er hún til að hækka hvort tveggja? Upplýsingar óskast um það með hvaða hætti þessi upphæð er ákveðin. En niðurstaðan verður sú að nettó millifærsla ríkisins eykst um 2100 millj. kr. Það sem Sjálfstfl. kallar yfirleitt „ríkisumsvifin“, með mikilli fyrirlitningu, eykst um 2,1 milljarð kr. eða um 1,4% af þjóðarframleiðslunni eins og hún er talin vera í dag á verðlagi í lok ársins.

Hæstv. fjmrh. tók það fram í sinni ræðu áðan að Sjálfstfl. eða ríkisstjórnin og aðstoðarríkisstjórnin væri til viðtals um breytingu á þessu öllu og ég vildi gjarnan inna eftir því með hvaða hætti menn hugsa sér að koma því á. Hefur það kannske verið rætt innan stjórnarflokkanna hvernig á að skipta þessu, bæði núverandi og tilvonandi? Viðreisnarstjórnin birtist þarna á mynd í DV í gær. Er búið að ganga frá því hvernig á þeim málum verður tekið? Hvað á að eyða miklu í niðurgreiðslur og hvað í annað? Ég er nokkurn veginn sannfærður um það að svörin hjá forsvarsmönnum núverandi og tilvonandi ríkisstjórnar í þessu efni verða þau að þetta sé allt á floti, þessar millifærsluráðstafanir, það sé í raun og veru gjörsamlega óljóst hvernig þessum fjármunum verður varið. Menn eigi eftir að semja um það, „den tid, den sorg“, og þegar kemur að því að ákveða fjárlög fyrir árið 1987 er alveg augljóst mál að það verður hjólað í þessar upphæðir nema þær séu bundnar með allt öðrum hætti en hér er gert.

Niðurstaða mín, herra forseti, af þessum hugleiðingum er sú í fyrsta lagi að frv. þýðir skattahækkun á láglaunafólk. Ég hef rökstutt það með gildum hætti.

Í öðru lagi eru millifærsluráðstafanirnar óákveðnar og óljósar og í þessu sambandi er nauðsynlegt að nefna að í frv. er ekkert ákvæði um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga en hann hefur verið skertur verulega í tíð þessarar ríkisstjórnar. Það eru ekki tæmandi upplýsingar um það hvernig með hann verður farið og í frv. eru engin ákvæði um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Ég hefði talið eðlilegt, ef menn fara fram með þetta á annað borð, að Jöfnunarsjóður sveitarfélaganna kæmi inn í mál af þessu tagi vegna þess að annars er meiri hætta á að framlög til hans verði skert en er nú þegar.

Í þriðja lagi nefni ég það í sambandi við þetta frv. að ég tel að innheimtu- og endurgreiðslukerfið verði dýrara en nú er og það sé um að ræða hættu á klúðri í sambandi við endurgreiðslu á byggingarkostnaði.

Í fjórða lagi tel ég að ekki liggi fyrir nein óyggjandi rök um að þetta kerfi skili sér betur en söluskattskerfið og reyndar er það svo dapurlegt að í grg. frv. er bersýnilega engin sannfæring fyrir því að virðisaukaskattur skili sér betur en söluskattur.

Ég tel, herra forseti, þess vegna að eðlilegasta málsmeðferðin við þetta frv. væri sú að ríkisstjórnin fengi það aftur. Og þá er ég ekki endilega að tala um þessa ríkisstjórn því að hún er bráðum dauð, svo er stjórnarskránni fyrir að þakka. Einhver ríkisstjórn tekur við og ég tel eðlilegt að það verði niðurstaðan á þessu þingi að ákveða að allt tekjuöflunarkerfi ríkisins verði tekið til endurskoðunar - allt. Ég tel að eigi að vinna þannig að því að um það verði sem best samstaða í þinginu og með aðilum vinnumarkaðarins, með stjórn og stjórnarandstöðu hverjir sem hana kunna að skipa. Ég tel það verulegan galla á framlagningu þessa máls að við meðferð þess og undirbúning hefur stjórnarandstaðan ekki fengið neinar upplýsingar aðrar en frv. sjálft á undirbúningsstigum málsins. Og ég tel að þegar um er að ræða tekjustofn upp á 16-18 milljarða kr. sé hann svo stór og þýðingarmikill að það eigi að reyna að stuðla að sem bestri samstöðu um álagningu og innheimtukerfi fyrir þennan mikilvæga stofn.

Ég tel að ríkisstjórnin hafi bersýnilega ekki viljað samstöðu um málið nema kannske við Alþfl. Hún hefur bersýnilega ekki viljað samstöðu við stjórnarandstöðuna heldur er málinu slengt framan í hana í frumvarpsformi án þess að hún hafi haft nokkra möguleika til að fylgjast með þessu máli frá degi til dags á undirbúningsstigi. Hér er farið öðruvísi að en hjá hinni borgaralegu hægri stjórn Schlüters í Danmörku þar sem stjórn og stjórnarandstaða, allir meginflokkar danska þingsins, komust að samkomulagi um nýtt kerfi fyrir persónuskatta í Danmörku sem tekur gildi frá og með næstu áramótum, kerfi sem víðtæk samstaða er um og ánægja með bæði meðal stjórnmálamanna og embættismanna. Hér hefur allt öðruvísi verið staðið að hlutunum, verið illa á þeim haldið af hálfu ríkisstjórnarinnar.

En það er fleira í þessu efni sem vert er að hafa í huga. Menn eru ekki bara að tala um virðisaukaskatt sem er stórmál. Fyrir liggja í fjmrn. hugmyndir um breytingar á tollalögum. Þessar hugmyndir voru sýndar hér í fyrra en innheimtar með hraði aftur af borðum þm. þegar þær voru búnar að liggja þar í hálfan dag. Hér er um að ræða einn veigamesta þáttinn í tekjuöflunarkerfi ríkisins. Hann er líka til endurskoðunar og líka til endurmats í fjmrn.

Fyrir liggja tillögur um betra skattaeftirlit og aðgerðir gegn skattsvikum, m.a. frá nefnd sem starfaði og skilaði áliti á miðju þessu ári. Fyrir liggja róttækar hugmyndir um breytingu á beinum sköttum frá aðilum vinnumarkaðarins þar sem uppi hafa verið hugmyndir um að sameina í einum skatti útsvar, tekjuskatt, gjald í framkvæmdasjóð aldraðra, sjúkratryggingagjald, sóknargjöld og aðra beina skatta og að fella niður frádrætti, taka í staðinn upp afslætti og vera með eina einfalda skattaprósentu. Fjmrh. hefur greint frá því að hann sé að skoða einhverjar svipaðar hugmyndir uppi í fjmrn. og hafi kallað í aðila vinnumarkaðarins til að fylgjast með þeirri vinnu en þessar hugmyndir liggja fyrir og þær eru einn veigamesti hluti tekjuöflunarkerfis ríkisins.

Fyrir liggja einnig hugmyndir um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, sjálfstæðar hugmyndir, bæði um útsvar, fasteignaskatta og aðstöðugjöld. Hvar eru þær? Þær liggja fyrir og hafa verið ræddar á vettvangi Sambands ísl. sveitarfélaga. Þetta á að taka með inn í myndina. Fyrir liggja tillögur um samtímaskatt og loforð um samtímaskatt sem taki gildi frá og með 1. janúar 1988. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh.: Telja menn að það sé líklegt að unnt sé að framkvæma hvort tveggja í senn, upptöku virðisaukaskatts og samtímaskatts á sama árinu? Því hefur verið haldið fram mörg undanfarin ár, m.a. af embættismönnum í skattakerfinu, að það væri óhugsandi að þetta gerðist samtímis, þessar tvær róttæku og viðamiklu kerfisbreytingar. Hefur eitthvað breyst í viðhorfum þeirra? Er það vitleysa sem menn hafa verið að halda fram undanfarin ár? Er allt í einu fundin einhver leið, burtséð frá efni málsins en tæknilega, til að framkvæma það að taka upp algjörlega nýtt kerfi óbeinna skatta annars vegar og samtímainnheimtu beinna skatta hins vegar á sama árinu?

Ég efast um satt að segja, að þetta geti gengið. Ég hef farið yfir þetta mál rækilega og ég á erfitt með að sjá að þetta geti gengið. Hættan er sú að ef of mikið er lagt á skattakerfið af þessu tagi í einu verði framkvæmdin í skötulíki og niðurstaðan hringavitleysa og óánægja með þær breytingar sem verið er að gera. Og ég bið menn í allri vinsemd að ætla sér af í þessu efni og að láta sér ekki detta í hug að við getum snúið þessum hlutum öllum við svo að segja með einu handbragði á einu og sama árinu.

Nei, herra forseti, mín niðurstaða er sú að núna væri eðlilegast að allt skattakerfi ríkis og sveitarfélaga verði tekið til allsherjarendurskoðunar með tilliti til samhæfingar og samstillingar kerfisins og með tilliti til þess að það náist samkomulag aðila vinnumarkaðarins og flokkanna á Alþingi í stjórn og stjórnarandstöðu um skattakerfið sjálft sem er grundvöllurinn undir allri samneyslunni og þjónustu ríkisins. Að vera með skattakerfi sem alltaf hefur verið bullandi ágreiningur um milli stjórnar og stjórnarandstöðu og gagnvart aðilum vinnumarkaðarins kann ekki góðri lukku að stýra. Það hefur í för með sér óheppilegar sviptingar í kringum skattakerfið, skapar óvissu hjá skattgreiðendum, öryggisleysi hjá þeim sem eiga að framkvæma málið og niðurstaðan verður stöðug óánægja með þetta grundvallaratriði, þennan hornstein samneyslunnar í landinu.

Ég vil auðvitað leyfa mér að gagnrýna það sérstaklega hvernig ríkisstjórnin hefur sniðgengið stjórnarandstöðuna í sambandi við þetta frv. um virðisaukaskatt. Ég vil einnig gagnrýna það að stjórnarandstaðan skuli ekki kölluð til við umræður um þær kerfisbreytingar á tekju- og eignarskattslögum sem nú eru í gangi. Það er stuttur tími eftir af þessu þingi og það er útilokað að ná í gegnum þingið neinum meiri háttar málum af þessu tagi öðruvísi en að það sé a.m.k. sæmilegt samkomulag um verklagið hér á hv. Alþingi.

Samkvæmt yfirlýsingu hæstv. fjmrh. við frágang kjarasamninganna var gert ráð fyrir að lagt yrði fram á Alþingi frv. um skattamálin og samtímaskattinn. Það stendur ekki að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir því að frv. verði samþykkt. Ég vil gjarnan inna hæstv. ráðh. eftir því hvaða hugmyndir hann er með í þessu efni sérstaklega og hvort það er ætlun ríkisstjórnarinnar að reyna að láta afgreiða frv. um þessa róttæku kerfisbreytingu í skattamálum á þessu þingi ásamt frv. um virðisaukaskatt. Og af því að hæstv. félmrh. er kominn í salinn legg ég einnig fyrir hann eina spurningu. Hvar er frv. til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga sem búið er að lofa margoft og hefur verið rætt í Sambandi ísl. sveitarfélaga? Ætla menn kannske líka að fara með það í gegnum þingið, plús frv. til tollalaga sem hér liggur fyrir?

Ég hef enga trú á því að það sé ætlun ríkisstjórnarinnar að keyra þessi mál í gegn vegna þess að ég held að það sé óframkvæmanlegt. En það er nauðsynlegt að vita hvort framlagning þessa frv. um virðisaukaskatt er aðeins framlagning eða hvort menn ætla sér að fylgja því eftir að keyra málið fram á þessu þingi. Er þetta forgangsmál eða á að taka það fyrir á eftir tekjustofnum sveitarfélaga og kerfisbreytingu í skattamálum, staðgreiðslukerfi skatta og öllu því?

Þessi ríkisstjórn er búin að sitja að völdum síðan vorið 1983 og það er fyrst núna sem hún virðist vera að átta sig á því að það þurfi að gera kerfisbreytingar í skattamálum á Íslandi, á síðasta ári kjörtímabilsins. Það eru miklir afreksmenn sem þarna hafa setið að störfum eða hitt þó heldur.

Ég held að það sé nauðsynlegt líka að átta sig á því að ef Alþingi ætlar sér að afgreiða mál af þessu tagi, eins og þetta frv. um virðisaukaskatt, tekur það tíma. Þm. eiga allan rétt á því að vanda afgreiðslu mála. Það hefur aftur og aftur komið fyrir í tíð þessarar ríkisstjórnar að mál hafa verið svo illa unnin í nefndum þingsins, lítt yfirlesin og lítt könnuð að það hefur orðið nauðsynlegt að gefa út bráðabirgðalög eða flytja brtt. strax á næsta þingi vegna þess að málin voru morandi í vitleysum af því að ekki fékkst tóm til þess á þinginu að fara með málin með eðlilegum hætti. Það er ekki aðeins sanngirnismál heldur líka skylda okkar alþm. að fara þannig með mál sem við fáum að meðferð þeirra sé öll hin vandaðasta. Og þegar embættismenn eru búnir að hafa þessi mál í fleiri, fleiri, fleiri mánuði hljóta auðvitað þm. einnig að fá góðan tíma til að fjalla um mál af þessu tagi.

Ég lýk máli mínu með því, herra forseti, að segja: Frv. um virðisaukaskatt er mikilvægt mál fyrir þingið. Það snertir stóran hluta tekjustofna ríkisins. Hér er einn af hornsteinum samneyslunnar. Þess vegna á að stuðla að sem víðtækustu samkomulagi um þessi mál, söluskatt eða virðisaukaskatt, tollalög, betra skattaeftirlit, samtímaskatt, tekjuskatta, tekjustofna sveitarfélaga. En að ætla sér að húrra þessum málum hér fram með þeim hætti sem nú virðist ætlunin meira og minna tengslalaust, án þess að augljós tengsl séu á milli málanna, það er fullkomlega gagnrýni vert.

Ég teldi þess vegna eðlilegast að Alþingi kysi fljótlega nefnd allra flokka sem ásamt aðilum vinnumarkaðarins færi í þessi skattamál í heild og reyndi að stuðla að sem víðtækustu samkomulagi. Ríkisbúskapur, sem byggist á skattstofnum sem óeining er um, er í stöðugri óvissu. Það geta komið upp vandamál vegna þessarar óeiningar og ríkisstjórnin á ekki að gera sér leik að því að skapa óeiningu og ósætti eins og hún hefur gert í skattamálunum undanfarna daga.