11.12.1986
Sameinað þing: 28. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1493 í B-deild Alþingistíðinda. (1323)

222. mál, kaup ríkisins á Borgarspítalanum

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Ég geri mér ljóst að hér er ekki um neina umræðu að ræða heldur eingöngu svar ráðherra við fsp. þingmanns, en ég tel mig engu að síður tilknúinn til að koma í stólinn vegna þess að það er sýnilegt að á þessari stundu getur ekki átt sér stað umræða um þetta mál eins mikilvægt og það er og nauðsynlegt er að ræða um það. Þess vegna vildi ég fá svar við því, annaðhvort hjá forseta eða hæstv. ráðherra, hvort hæstv. heilbr.- og trmrh. verður viðstödd 2. umr. um fjárlög á morgun því að ég tel óhjákvæmilegt að sú umræða fari að nokkru leyti inn á þessa fyrirhuguðu sölu Borgarspítalans og þá um leið hinn hluta málsins sem er spurningin um hvort breyta á daggjaldakerfi í bein fjárlög. Ég tel að ekki hafi komið fram enn þá neinar röksemdir fyrir því að sú aðgerð ein og sér réttlæti yfirtöku ríkisins á þessum spítala. Mér sýnist frekar að hér sé á ferðinni einhver sú spilltasta aðgerð í stjórnsýslu sem maður hefur lengi orðið vitni að þar sem kunningi selur kunningja 1200 manna spítala með manni og mús án þess að ráðgast um það við nokkurn mann.