11.12.1986
Sameinað þing: 29. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1507 í B-deild Alþingistíðinda. (1344)

185. mál, kaupleiguíbúðir

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég þakka hv. 1. flm. þessarar þáltill. fyrir svör hennar við spurningum mínum. Ég tel þó ekki rétt hjá henni að öll svörin sé að finna í grg. eða till. því að þess vegna voru spurningarnar fram komnar að till. var lesin mjög gaumgæfilega. Það var ekki fyrst og fremst til að gagnrýna hana heldur til þess að fá frekari upplýsingar um það hvernig flm. hefðu hugsað sér útfærslu þessara hugmynda vegna þess að það vafðist fyrir okkur að sjá hvernig þær yrðu í framkvæmd.

Því miður fann ég ekki gögn mín meðan ég var að hlusta á mál hv. þm. þannig að ég greip ekki öll svör hennar. Ég mun gaumgæfa þau vandlega þegar þingtíðindi berast og mun síðan vonandi fá tækifæri til að fylgjast með þessu máli nánar í nefnd. Ég tók þó ekki eftir því hvort hún svaraði mér þeirri spurningu sem ég spurði, um það hverjir mundu eiga kost á kaupleiguíbúðum. Ég tók ekki eftir að hún svaraði því. Eru það allir eða er það einhver ákveðinn hópur manna?