21.10.1986
Sameinað þing: 5. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í B-deild Alþingistíðinda. (139)

35. mál, kjarnorkuverið í Dounreay í Skotlandi

Fyrirspyrjandi (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Herra forseti. Snemma s.l. sumar bárust fregnir af því hingað til lands að stjórnvöld á Bretlandseyjum hygðu á stórfellda stækkun á kjarnorkuverinu í Dounreay í Norður-Skotlandi og áætla að reisa þar stærstu plútoníumendurvinnslustöð í heimi. Plútoníum er eitthvert allra hættulegasta efni sem menn þekkja. Það finnst ekki í náttúrunni og ef menn anda að sér svo miklu sem einum milljónasta úr grammi af plútoníum leiðir það til krabbameins. Það tekur plútoníum 25 þúsund ár að eyðast ef það berst út í andrúmsloftið eða út í náttúruna og áætlað er að aðeins hálft kíló af þessu efni þurfi til að eyða öllu lífi á jörðunni.

Dounreay er nyrst í Skotlandi og öll losun úrgangsefna frá þessu kjarnorkuveri berst jafnhraðan með hafstraumum um Norður-Atlantshaf, þar á meðal upp að Íslandsströndum. Slík losun á sér þegar stað, en hún mun margfaldast verði kjarnorkuverið stækkað og hér er engin smástækkun á ferðinni heldur er áætlað að auka framleiðslugetu versins um 1500% eða úr 5 tonnum af plútoníum á ári í 80 tonn.

Af losun geislavirkra úrgangsefna í Norður-Atlantshaf frá slíku kjarnorkuveri stafar okkur Íslendingum bein og bráð hætta svo ekki sé minnst á fiskistofnana sem við byggjum afkomu okkar á.

Í öðru lagi virðist kjarnorkuverið í Dounreay ákaflega ótryggt. Árið 1984 urðu 194 slys í verinu, þar af 8 sem voru opinberlega skilgreind sem meiri háttar. Í fyrrahaust munu 25 kg af plútoníum hafa týnst í framleiðslukerfi versins sem leiddi til þess að upp safnaðist kljúfanlegt efni í því magni að nálgaðist hættumörk. Alls hafa orðið 1262 slys í þessu kjarnorkuveri á 8 ára tímabili, þ.e. frá 1977 til 1984. Það er því ljóst að í næsta nágrenni við okkur er kjarnorkuver sem hefur alla eiginleika til að verða annað Chernobyl og ef það gerist, ef stærsta plútoníumendurvinnslustöð í heimi, sem Bretar hyggja á að reisa þarna, bilar þarf ekki að spyrja um framhaldið fyrir okkur Íslendinga. Það má gera ráð fyrir að líf eyddist í og við stóran hluta Norður-Atlantshafs.

Hér er því um ákaflega alvarlegt mál að ræða og því spyr ég hæstv. utanrrh. á þskj. 35:

„1. Hefur ráðherra látið kanna hvaða áhrif stækkun kjarnorkuversins í Dounreay á Skotlandi getur haft á Norður-Atlantshafið og þá sérstaklega með hliðsjón af losun geislavirkra úrgangsefna í hafið?

2. Hefur ráðherra gripið til einhverra aðgerða í þessu máli.“