15.12.1986
Efri deild: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1687 í B-deild Alþingistíðinda. (1425)

117. mál, Stofnfjársjóður fiskiskipa

Frsm. sjútvn. (Valdimar Indriðason):

Virðulegi forseti. Sjútvn. Ed. hefur fjallað um það frv. sem hér er til umræðu og nefndin er öll sammála um að mæla með því að það verði samþykkt.

Eins og kemur fram í nál. var kallaður á fund nefndarinnar fulltrúi frá Fiskveiðasjóði. Sendur var aðstoðarforstjóri, Svavar Ármannsson, og gaf hann nefndinni ýmsar upplýsingar um þessi mál og voru þeir aðilar sammála að svo skyldi staðið að málum eins og frv. gerir ráð fyrir nema að nefndin komst að þeirri niðurstöðu eftir viðræður við stjórn Fiskveiðasjóðsins og einnig eftir símasamband við fulltrúa útgerðarmanna, sem þarna eiga mestra hagsmuna að gæta, að gera brtt. við 7. gr., sem er á þskj. 294, og mun þá greinin hljóða svo samkvæmt tillögu nefndarinnar, með leyfi virðulegs forseta: „7. gr. orðist svo:

Sé innstæða í Stofnfjársjóði á reikningi skips þegar greiðslur skv. 4. gr., 5. gr. og 1. málsl. 6. gr. hafa verið inntar af hendi skal Fiskveiðasjóður færa til tekna á reikninginn vexti sem hverju sinni eru ákveðnir með hliðsjón af fjármagnskostnaði skulda er á skipum hvíla hjá Fiskveiðasjóði.“

Um þetta frv. er ekki annað að segja en að það er verið að ljúka þarna framkvæmd vegna þeirra breytinga sem gerðar voru á sjóðakerfi sjávarútvegsins s.l. vor og þarf þessi sjóður einnig að fá sína meðferð vegna framkvæmda. Þó að við séum komnir í nokkra tímaþröng liggur þannig í þessu máli að svo að öllu sé fullnægt þyrfti þetta að afgreiðast eins og margt annað fyrir áramót. Ég tek þá sök að nokkru á mig að málið hafi sofið of lengi í sjútvn., en mundi fara þess á leit við virðulegan forseta, ef mögulegt væri, að ljúka þessu máli sem fyrst héðan úr deildinni svo að Nd. gæti fengið það til meðferðar.

Um málið hef ég ekkert frekar að segja.