15.12.1986
Neðri deild: 20. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1717 í B-deild Alþingistíðinda. (1461)

211. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég hef áheyrnaraðild að hv. fjh.- og viðskn. og hef þar fylgst með umfjöllun frv. til laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna og fylgifrumvarpa þess, frv. til laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, frv. til laga um breytingu á lögum um lögreglumenn og frv. til laga um Kjaradóm.

Það ber að gleðjast yfir þeim góðu vinnubrögðum sem höfð voru við gerð þessara frv. Þau eru árangur af samstarfi fjmrn., Sambands ísl. sveitarfélaga og viðkomandi stéttarfélaga, BSRB, BHMR og BK, eða Bandalags kennarafélaga. Á fund nefndarinnar komu fulltrúar þeirra hagsmunasamtaka launafólks sem í hlut eiga og lögðu þeir mikla áherslu á það að fullt samkomulag væri um öll frv. fjögur. Þeir lögðu jafnframt mikla áherslu á að þau fengju afgreiðslu á Alþingi fyrir jól. Við þingkonur Kvennalistans höfum ekkert við þrjú þessara frv. að athuga og stöndum að samþykkt þeirra og fögnum þeirri auknu réttarstöðu sem opinberir starfsmenn fá með samþykkt þeirra.

Hins vegar gegnir öðru máli um Kjaradóm. Að sjálfsögðu eru til þau störf sem hafa þá sérstöðu að þeir sem gegna þeim eiga tæplega heima í nokkru stéttarfélagi eða að miklu varðar að þeir geti verið óháðir því að standa í launadeilum við ríki eða sveitarfélög. Þessi störf eru þó ekki mörg. Hins vegar er stöðug ásókn sífellt fleiri starfsgreina og hópa í þann klúbb eða heldri manna hóp sem fær laun sín ákvörðuð af Kjaradómi og beita þeir rökum um hliðstæð störf eða staðgengilshlutverk til að fá inngöngu. Hópurinn fer því óðum stækkandi sem fær launakjör sín ákveðin af Kjaradómi og þeir sem fylla þennan hóp standa því ekki í launabaráttu með stéttarfélögum sem þeir gætu þó hæglega tilheyrt. Því er haldið fram að stéttarfélögin vilji fullt eins vel losa sig við ýmsa yfirmenn og hátt launaða stjóra yfir í Kjaradóm því að þá gefist meira svigrúm til betri samninga fyrir stéttarfélagið í heild. Það má því segja að yfirmenn leiti ekki bara sjálfir eftir inngöngu í þennan kjaradómsklúbb heldur séu þeir beinlínis reknir í þá rétt af undirmönnum sínum.

Þetta kann að vera rétt, að reyndin sé sú að meira olnbogarými gefist þegar þeir hæstlaunuðu eru afgreiddir sér og halda ekki hinum niðri þegar samið er við stóran hóp.

Hins vegar finnst mér vera önnur hlið á þessu máli sem varðar grundvallaratriði. Það að yfirmaður stofnunar, sem hefur e.t.v. og oftast svipaða eða hliðstæða menntun og þorri annarra starfsmanna stofnunarinnar, fær sérstaka afgreiðslu sinna kjaramála en á ekki samleið með starfssystkinum sínum stuðlar að aðskilnaði milli þeirra og það viðheldur jafnframt því píramídalaga valdakerfi sem viðgengist hefur þar sem forustumaður trónar á toppnum í sérstöðu án þess að tryggð sé virkni og dreifing valds til annarra. Þessi ráðstöfun getur enn fremur stuðlað að því að viðkomandi forstöðumaður sé jafnmikill eða meiri fulltrúi atvinnurekandans en faggreinar sinnar, stofnunar eða starfsfólks þar sem hann þarf aldrei að standa í launabaráttu gegn atvinnurekanda sínum, ríki eða sveitarfélagi. Mér finnst þessi ráðabreytni vinna gegn valddreifingu og get því ekki stutt það að sá hópur stækki stöðugt sem þannig fær ákveðin launakjör sín. Það er þó auðvelt að sjá ýmsar hliðstæður og réttmæti krafna þeirra sem ýmsar starfsstéttir gera. Dæmið virðist því endalaust og ekkert lát er á aðsókn en viðmiðunarreglur virðast engar. Alþm. geta líka verið veikgeðja. Hópurinn stækkar því ár frá ári. Það hljóta að þurfa að vera einhverjar viðmiðunarreglur hvað varðar inntökuskilyrði þannig að handahófskenndar ákvarðanir ráði ekki fjölda þeirra sem hópinn fylla. Þegar þetta mál var 276. mál þingsins 1983-84 þá átti enn að fjölga í þessum hópi. Þá talaði hv. þm. Kristín Halldórsdóttir f.h. Kvennalistans í málinu og lagði einmitt ríka áherslu á að settar yrðu viðmiðunarreglur sem kvæðu skýrt á. um inntöku starfsgreina í þennan hóp. Hún lauk reyndar máli sínu þá með því að draga í efa að fulltrúar í ráðuneytum og vélritarar t.d. ættu greiðan aðgang í þennan hóp. En flestir sem þeim störfum gegna eru konur eins og hv. þm. vita. Það er nefnilega þessum skammdegi ljósara að þorri þeirra sem sitja í kjaradómsklúbbi eru karlar en ekki konur. Tilvera eða stærð þessa klúbbs væri að sjálfsögðu ekkert réttlætanlegri þó að þar sætu fleiri konur. Hins vegar endurspeglar samsetning hans stöðu kvenna í þjóðfélaginu hvað varðar val í stjórnunar- og forustuhlutverk og jafnframt aðgang þeirra að þeim launakjörum sem þar tíðkast.

Ég mun ekki orðlengja þetta mál frekar og lýsi því yfir að þingkonur Kvennalistans munu ekki standa gegn þessu máli þar sem það er hluti af mikilvægu samkomulagi sem við viljum ekki rjúfa eða skemma fyrir.