15.12.1986
Neðri deild: 20. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1721 í B-deild Alþingistíðinda. (1468)

228. mál, Kjaradómur

Frsm. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það er sömu sögu að segja um þetta frv. Fjh.- og viðskn. hefur skoðað það eins og hin sem fylgjast þarna að og mælir með samþykkt þess með breytingu sem flutt er á sérstöku þskj., þ.e. að undir Kjaradóm sé tekinn rektor Tækniskóla Íslands, og þykir okkur það til samræmis, og jafnframt verði áfram undir Kjaradómi ríkisskattanefndarmenn í fullu starfi en samkvæmt frv. var hugmyndin að þeir féllu undan Kjaradómi. Undir þetta rita með fyrirvara Kjartan Jóhannsson og Svavar Gestsson en aðrir nefndarmenn án fyrirvara, þ.e. Páll Pétursson, Ólafur G. Einarsson, Halldór Blöndal, Guðmundur Bjarnason og Friðrik Sophusson. Fyrirvörum hefur þegar verið lýst og hv. 3. landsk. þm., Guðrún Agnarsdóttir, hefur lýst afstöðu sinni til málsins.

Ég vil láta þess getið í tilefni þeirra röksemda sem hún færði fram á móti þessari kjaradómsskipan að ég tel að það sé miklu heppilegra form á ákvörðun launa að láta Kjaradóm kveða upp úr með það fremur en að gera það að einhverju samningsatriði eða ákvörðunaratriði ráðherra hverju sinni. Það held ég að sé meingölluð aðferð og Kjaradómur sé miklu heppilegri vettvangur til þess að ákvarða þessi laun en að ráðherra sé falið það.