15.12.1986
Neðri deild: 21. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1753 í B-deild Alþingistíðinda. (1504)

252. mál, fangelsi og vinnuhæli

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir um breytingu á lögum um fangelsi og vinnuhæli. Efni frv. er í samræmi við frv. um kjarasamninga opinberra starfsmanna og frv. um lögreglumenn, sem því fylgdi, og er tvíþætt. Annars vegar er ákvæði um að fangaverðir megi ekki gera verkfall eða taka þátt í verkfallsboðun, enda hefur það verið svo áður að þeir hafa ekki farið í verkfall þó að opinberir starfsmenn gerðu það. Í öðru lagi er svo ákvæði um að fangaverðir eigi rétt á bótum fyrir meiðsli og tjón sem þeir verða fyrir vegna starfs síns. Þetta efni kom til umræðu þegar fjallað var um hin frumvörpin í hv. Nd. og þá skýrði ég frá því að þetta frv. mundi fram koma.

Efni þess mun enn fremur hafa verið rætt í fjh.- og viðskn. þegar þau mál voru þar til afgreiðslu og því legg ég til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og fjh.- og viðskn.