17.12.1986
Efri deild: 22. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1823 í B-deild Alþingistíðinda. (1636)

254. mál, málefni aldraðra

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða hið ágætasta mál sem við höfum stutt eindregið síðan það fyrst kom, enda sett að frumkvæði heilbr.- og trmrh. Alþb. á sínum tíma. Hér er um að ræða vissulega nokkuð meiri hækkun á þessum nefskatti milli ára en verðlagsforsendur og kaupgjaldsforsendur gefa tilefni til, en engu að síður vitum við, eins og hv. frsm. kom inn á, að hér er um það mörg verkefni og brýn að ræða að ekki veitir af þeim fjármunum sem í þetta fást og fólk telur heldur ekki eftir sér að greiða þennan skatt. Eins og sagt var í hv. heilbr.- og trn., þetta er líklega eini skatturinn sem fólk greiðir með tiltölulega glöðu geði.

Erindi mitt hingað var hins vegar það að vekja athygli á því sem mér hefur þótt nokkuð óeðlilegt varðandi lögin um málefni aldraðra frá upphafi og það er að greiðsluskylda skuli ná upp að 75 ára aldri. Mér hefur alltaf fundist, þrátt fyrir ákveðin tekjumörk sem þarna eru sett, að aldursmörk ættu að vera önnur, annaðhvort 67 ára eða 70 ára. Við það ætti að miða þrátt fyrir það að ég veit að þetta fólk kvartar ekki yfir því að borga þessa skatta. Það er einmitt það fólk sem kvartar ekki yfir sköttum sínum. Mér þykir það nokkuð óeðlilegt að fólk sem komið er á þennan aldur sé látið borga í þennan Framkvæmdasjóð þó þessa upphæð og kem þessari athugasemd hér með á framfæri. Það er ekki ástæða til þess við þetta mál að koma með breytingu um það. En ég hygg að ég muni athuga þetta mál frekar í vetur varðandi þá leiðréttingu, sem ég tel býsna réttlætanlega í þessu efni, að færa aldursmörkin á þeim sem greiða eiga þennan skatt a.m.k. niður í 70 ár.