17.12.1986
Neðri deild: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1894 í B-deild Alþingistíðinda. (1752)

88. mál, álagning tímabundinna skatta og gjalda 1987

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Vegna fsp. hv. 3. þm. Reykv. skal tekið fram að það er sjálfsagt að koma nýjustu upplýsingum um áætlaðar tekjur af þessum gjaldstofnum til hv. fjh.- og viðskn. þegar hún tekur málið til meðferðar, en eins og kunnugt er hafa þær forsendur breyst síðustu daga með því að nýjar áætlanir hafa komið fram þar að lútandi.

Að því er húsnæðisgjaldið varðar kom það upphaflega til sem samkomulag þingflokka á Alþingi og því var ætlað að gilda út þetta ár, en það er nú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að framlengja þetta gjald, sem er 1% á söluskattsstofn, og sú ákvörðun er tekin á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og ekki til þess ætlast að stjórnarandstaðan sé bundin við samkomulagið lengur en til stóð þegar það var gert. Það er svo að framlög ríkissjóðs til Byggingarsjóðs ríkisins eru allmiklu meiri en þetta gjald gefur og má því segja að það renni allt til Byggingarsjóðs ríkisins því að framlag ríkissjóðs er meira en þetta eina prósentustig gefur.