17.12.1986
Neðri deild: 26. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1948 í B-deild Alþingistíðinda. (1795)

158. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Forseti (Ingvar Gíslason):

Vegna þessarar fsp. vill forseti upplýsa að það er augljóslega mjög ákveðin og eindregin ætlun forseta að taka hér fyrir allmörg mál sem eru á dagskránni. Ég held að það komi naumast til að forseti bregði út af því. Þar mun vera um að ræða málefni sem forseti telur að hafi verið samkomulag um að næðu fram að ganga fyrir þinghlé.

Klukkan er að vísu farin að halla í eitt og það er vissulega áliðið, en hins vegar enn nokkuð eftir af þeim tíma sem þingið hefur oft tekið sér þegar stendur á eins og nú. Jólahlé er senn að hefjast og ég vona að hv. þm. hafi biðlund og verði við þeim tilmælum forseta að sitja hér enn um stund og taka þátt í umræðum og afgreiðslu mála. (TG: Setið mun meðan sætt er.)