21.10.1986
Sameinað þing: 6. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í B-deild Alþingistíðinda. (180)

6. mál, rannsóknir á botnlægum tegundum á grunnsævi

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um rannsóknir á botnlægum tegundum á grunnsævi, sem ég flyt ásamt mörgum þm. Alþb., hv. þm. Garðari Sigurðssyni, Geir Gunnarssyni, Guðmundi J. Guðmundssyni, Helga Seljan, Ragnari Arnalds, Skúla Alexanderssyni og Steingrími J. Sigfússyni. Tillagan er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir að fram fari skipulegar rannsóknir á botnlægum tegundum á grunnslóð og kortlagning slíkra miða til að auðvelda veiðar, ekki síst innfjarða.

Gerð verði áætlun um þetta verkefni með það í huga að ljúka slíkum yfirlitsrannsóknum á næstu fimm árum og til þess veitt sérstakt fjármagn úr ríkissjóði, í fyrsta sinn á fjárlögum 1987.“

Þetta er tillagan sjálf. Í grg. er hún rökstudd m. a. með tilvísun til þess hvaða þörf er á því að auka fjölbreytni í veiðum og hagnýta fleiri tegundir sjávardýra hér við landið heldur en verið hefur til þessa bæði til veiða og vinnslu.

Það hefur vissulega nokkuð miðað í þessum efnum á undanförnum árum en það skortir þó verulega á upplýsingar um margar tegundir, ekki síst hryggleysingja á grunnsævi við landið, sem hugsanlega væri unnt að nýta til verulegra hagsbóta bæði fyrir þá sem þær veiðar stunduðu vegna úrvinnslu og sölu sem auðvitað þarf að vera til staðar.

Í grg. eru nefndar ýmsar tegundir sem þarna geta komið við sögu til viðbótar við hörpudisk og rækju, sem nú eru nytjaðar með góðum árangri við landið, og reyndar á djúpslóð að því er djúprækju varðar. Þær tegundir sem hér eru nefndar sem dæmi og ekki síst kæmu til greina eru trjónukrabbi, beitukóngur, kúfskel, kræklingur, aða, báruskel, eða „báruskeljar“ því um fleiri en eina tegund getur verið að ræða, og ígulker. Það vottar fyrir viðleitni til að nýta sumar þessara tegunda nú þegar en það skortir afskaplega mikið á leiðbeiningar og upplýsingar til sjómanna hvar þessi mið sé að finna og einnig þá um leið hversu mikið sé óhætt að nýta af viðkomandi tegundum því það skiptir máli að ganga ekki harðar að þessum stofnum en veiðiþol þeirra býður, ekki síður en hinum þekktari og þýðingarmeiri stofnum sjávardýra hér við landið.

Auðvitað þarf að vinna að markaðsöflun og vöruþróun í tengslum við slíkar tilraunir og hagnýtingu þessara tegunda. Ekkert gerist án þess. Það er verulegur áhugi hjá mönnum víða um land að í þetta verkefni verði ráðist. Mér er kunnugt um sveitarstjórnir sem hafa leitað til rannsóknastofnana eins og Hafrannsóknastofnunar um fyrirgreiðslu í þessum efnum og leiðbeiningar, en Hafrannsóknastofnun er ekki nema að mjög takmörkuðu leyti fjárhagslega og hvað mannafla snertir í stakk búin til þess að sinna þessu svo sem skylt væri. Það skortir ekki vilja þar á bæ, en það skortir það sem við á að éta í þeim efnum, sérstaklega fjárveitingar. Það skiptir líka afar miklu að tekið sé skipulega á máli sem þessu og vitneskjan kortlögð með aðgengilegum hætti þannig að það verði sem mest leiðbeinandi fyrir þá sem vilja nýta þessar upplýsingar.

Ég hef vissulega Hafrannsóknastofnun fyrst og fremst í huga í þessum efnum, fékk enda stuðning af hálfu manna þar til þess að vinna þessa tillögu og fylgiskjal með henni er ritgerð eftir Hrafnkel Eiríksson fiskifræðing um rannsóknir á botnlægum hryggleysingjum á fjörðum og flóum hérlendis. Þar koma fram nánari upplýsingar varðandi hinar einstöku tegundir, sem þarna gætu komið við sögu, stöðu þekkingar í sambandi við þær og þörfina á frekari upplýsingaöflun. Þar er einnig að finna, í töflu á bls. 4 í þessu þskj., áætlun, að vísu mjög grófa og með öllum fyrirvörum, um hugsanlegt veiðiþol þessara tegunda, hversu mikið magn hugsanlega mætti veiða af þeim hér við land. Höfundur tekur skýrt fram að þarna sé um ágiskanir að ræða.

Fleiri rannsóknastofnanir geta komið við sögu en Hafrannsóknastofnun, eins og vikið er að í grg., svo sem Líffræðistofnun Háskólans og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, ekki síst hin síðarnefnda að því er varðar vöruþróun. Og ég efast ekkert um að það er fullur vilji til samvinnu um svona verkefni.

Herra forseti. Ég er viss um það að fjármagni sem varið væri í þessu skyni væri vel varið. Á því er brýn nauðsyn að við leitum allra leiða til að auka fjölbreytni í okkar sjávarútvegi sem er okkar undirstaða og það er satt að segja ekki vansalaust hversu skammt er komið upplýsingum og þekkingu okkar þar á ýmsum sviðum. Það sýnir sig að ef fjármagni og hugviti er varið til að leita, þá hefst að jafnaði eitthvað upp úr slíku. Það þekkjum við af reynslu liðinna ára. Ég legg til, herra forseti, að tillögu þessari verði vísað til hv. atvmn. að lokinni þessari umræðu.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.