18.12.1986
Sameinað þing: 34. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1962 í B-deild Alþingistíðinda. (1828)

261. mál, samkomulag um loðnuveiðar Norðmanna

Frsm. utanrmn. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Till. þessi til þál. fjallar um heimild til ríkisstjórnarinnar að staðfesta fyrir Íslands hönd samkomulag milli Íslands og Noregs um loðnuveiðar norskra veiðiskipa innan íslenskrar lögsögu á árinu 1987.

Eins og að líkum lætur hefur hv. utanrmn. margsinnis rætt um einmitt þessi mál, veiðar á loðnunni í höfunum í kring, og eins og hv. þm. vita hafa enn ekki náðst samningar við Grænlendinga t.d. um þann hlut í veiðunum sem þeim ber, þeim ber auðvitað einhver hlutur þar, en hins vegar eru samningar milli Íslands og Noregs eins og alkunna er þar sem Íslendingar eiga 85% af heildarveiðinni og Norðmenn 15%.

Till. svipaðs eðlis og þessi er var flutt á síðasta þingi þar sem Norðmönnum var heimilað að veiða hluta af sínum 15% innan íslenskrar fiskveiðilögsögu eða efnahagslögsögu öllu heldur og nú er flutt till. sama efnis. Um þetta sérstaka mál hafa verið haldnir tveir fundir í hv. utanrmn. þar sem hæstv. sjútvrh. og hans starfsmenn hafa mætt ásamt með hæstv. utanrrh.

Nefndin er sammála um að mæla með samþykkt þessarar till. eins og að líkum lætur þar sem hún í heild flytur hana.