18.12.1986
Sameinað þing: 34. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1967 í B-deild Alþingistíðinda. (1832)

185. mál, kaupleiguíbúðir

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Spurt var: Eiga allir rétt á kaupleiguíbúðum? Og svarið við því er ósköp einfaldlega að lánin eru veitt annars vegar úr Byggingarsjóði ríkisins og þar hafa allir sama rétt, en þau eru líka veitt úr Byggingarsjóði verkamanna og þau lán lúta nákvæmlega sömu skilmálum um tekjuhámark og gildir um verkamannabústaði. Og þegar spurt er sérstaklega: Hvernig stendur á því að við gerum ráð fyrir hærra lánshlutfalli en í núgildandi húsnæðislögum, 70%-80%? þá er svarið þetta: Það er okkar stefna að þurrka þennan mun út. Við viljum að þeir sem eru að afla sér íbúða á hinum almenna markaði í fyrsta sinn njóti 80% lána þannig að við gerum ekki ráð fyrir að sá mismunur verði viðvarandi.

Í annan stað var spurt: Mun þetta kerfi taka við af verkamannabústöðum, getur það staðist við hliðina á verkamannabústaðakerfi? Miðað við undirtektir forustumanna í verkalýðshreyfingunni almennt við þessar hugmyndir má vel vera að það fari svo í reynd að þetta kerfi taki við af verkamannabústaðakerfinu. Kostir þess eru einfaldlega fyrst og fremst þeir að ekki er þörf á útborgun í upphafi og það vegur upp annan mun á kerfunum. Hins vegar getum við ekki fullyrt þetta að svo stöddu. Reynslan mun skera úr um það. Ég hef sjálfur trú á að þetta nýja kerfi muni um það er lýkur taka við af þeim öðrum formum sem við höfum á varðandi byggingu félagslegra íbúða. En frumkvæðið að því er varðar kaupleiguíbúðirnar kemur frá sveitarfélögum og sveitarfélögin eru, meðan einstakir lánþegar gera ekki sérsamning um kaup, eigendur og þau eru einnig frumkvæðisaðilar að því er varðar úthlutun lánanna. Það segir sig sjálft að úthlutunin er félagslegs eðlis að því er varðar lántökur úr Byggingarsjóði verkamanna. Að öðru leyti ætlumst við til þess að sá aðili sem leggur fram 20% framlagið, þ.e. annars vegar sveitarfélagið eða hins vegar félagasamtök, móti sjálfur þær reglur sem hann vill viðhafa um úthlutun húsnæðisins.