22.10.1986
Efri deild: 5. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í B-deild Alþingistíðinda. (186)

9. mál, lágmarkslaun

Davíð Aðalsteinsson:

Hæstvirtur forseti. Aðeins örfá orð. Ég skil fullkomlega þann hug sem liggur að baki flutningi þessa frv. og vil að ýmsu leyti taka undir. Það er vissulega til athugunar, þegar við höfum í huga hversu háar þjóðartekjur okkar Íslendinga eru, að launagreiðslur, ekki síst í undirstöðuatvinnugreinunum, skuli ekki vera hærri en raun ber vitni.

Ég er persónulega sannfærður um að með skilvirkara fyrirkomulagi á vinnumarkaðinum er unnt að koma því við að sama vinnumagni verði skilað á verulega styttri tíma en er í dag. Í þessu sambandi er mér efst í huga yfirvinnubannið sem var í gildi um nokkurt skeið fyrir nokkrum árum. Ég er með ákveðið fyrirtæki í huga sem ég ætla reyndar ekki að nefna. Þá var raunin sú að innan 40 stunda vinnuvikunnar skiluðu starfsmenn fyrirtækisins sömu vinnu og þeir höfðu áður gert á álit að þriðjungi lengri vinnutíma. Mér er efst í huga hluti af starfsemi þessa fyrirtækis þar sem þannig hagaði til að um bílstjóra var að ræða. Þeir voru einfaldlega þannig í stakk búnir að þeir vildu alls ekki verða kyrrsettir einhvers staðar uppi í sveit og vildu komast til síns heima, voru samtaka um það að ljúka þessum verkum á verulega skemmri tíma en áður.

Ég minni á þetta til þess að undirstrika þá skoðun mína að það er kannske verðugasta verkefnið að stofna til meiri skilvirkni í atvinnulífinu að þessu leyti. Nú dettur mér ekki í hug að halda því fram að ekki sé að þessu unnið mjög víða og kannske er leitast við það alls staðar, menn komast raunar ekki hjá því. En betur þarf að gera. Ég er reyndar einn af þeim sem efast um að lögbinding lágmarkslauna skili því sem ætlast er til. Mér sýnist að þetta frv. sé kannske tvíþætt, það er flutt í tvennum tilgangi, annars vegar að tryggja lágmarkslaun til framfærslu og hins vegar að minnka launabilið.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um það hversu erfiðlega hefur gengið í kjarasamningum á undanförnum árum að minnka launabil. Reyndin hefur verið sú að heildarsamtökin, fjöldinn, hefur samið og síðan hafa hinir einstöku hópar komið á eftir og fengið sitt, stundum ótæpilega. En ekki fleiri orð um það. (Gripið fram í: Þú nefnir engin nöfn?) Nei, ég nefni engin nöfn.

Ég er ansi hræddur um að lagasetning sem þessi tryggi alls ekki að launahækkanir fari ekki upp allan stigann. Hér er ekki um að ræða neina breytingu á fyrirkomulagi þessara mála að öðru leyti en því sem frv. tekur til. Og í grg. með ftv. er vikið að þeim áhrifum sem lagasetningin kynni að hafa vegna heildarlaunakostnaðaraukans, áhrifum á atvinnureksturinn, áhrifum á þjóðarbúskapinn. Hér er vitnað til Þjóðhagsstofnunar og gert ráð fyrir að ef frv. yrði að lögum mundi heildarlaunakostnaður afvinnurekstrarins í landinu hækka um 3-5%. Eftir því mundi heildarlaunakostnaður í landinu hækka um 21/2 til 31/2 milljarð. Mér finnst satt að segja dálítið mikið fullyrt í grg. að hækkun lægstu launa að því er tekur til ákvæða frv. sé hvorki dýr né líkleg til þess að hleypa verðbólgunni á skrið að nýju. Mér finnst þetta dálítið mikil fullyrðing í ljósi þess að meira að segja hv. flm. efast líklega um að það verði með nokkru móti hægt að stemma stigu við hækkunum þeirra hópa sem þarna eru yfir. Ég ætla a.m.k. að leyfa mér að efast stórlega um það eins og ég hef tekið fram áður. En þessar stærðir, 21/2 til 31/2 milljarður, í auknum launakostnaði hafa náttúrlega óhjákvæmilega í för með sér umtalsverð áhrif á efnahagsmálin almennt. Ekki er heldur gert ráð fyrir þeim viðbótaráhrifum sem ég tel óhjákvæmileg.

Ég vil segja það fyrir mitt leyti og taka undir það sem hér hefur komið fram að meginverkefni atvinnurekstrarins í landinu er auðvitað að byggja sig þannig upp, og þá er ekki síst hlutverk löggjafans að koma þar til, að afkoma atvinnurekstrar verði þannig að hann verði færari eftir en áður að greiða mannsæmandi laun. Þegar við erum að tala um launakjör, fjárhæðir launa, megum við ekki aðeins líta á þörf einstaklingsins fyrir framfærslueyri. Við verðum líka að hyggja að möguleikum atvinnurekstrarins til þess að greiða launin, við komumst ekki hjá því. Frá því hefur verið skýrt hér, og það er alveg rétt, að slík lágmarkslaun eru bundin í lögum sums staðar annars staðar. Nú held ég persónulega að það sé mjög örðugt, og m.a. í þessu sambandi, að bera saman og leggja að jöfnu aðstæður hérlendis og víða erlendis. Ég held að það geti reynst mjög hæpinn samanburður.

Ég legg mikið upp úr því að atvinnureksturinn og alþýðusamtökin beri sem mesta ábyrgð á sínum gjörðum og að vinnumarkaðurinn sjálfur semji um kaup og kjör, einfaldlega vegna þess að ég held að það sé affarasælast að þessir aðilar beri þar mesta ábyrgð. Ég geri mér grein fyrir því að í sumum tilvikum kemst ríkisvaldið ekki hjá því, ríkisstjórn og löggjafarþing, að skipta sér af málum, ekki síst þegar þarf og er óhjákvæmilegt að tryggja framgang ákveðinnar efnahagsstefnu, eftir atvikum til skemmri eða lengri tíma. En þegar á allt er litið held ég að affarasælast sé að þessir aðilar beri sem mesta ábyrgð á þessum málum. Og maður hlýtur náttúrlega að líta til kjarasamninga sem fram undan eru. Um það er engu hægt að spá með hvaða hætti ríkisvald verður að koma þar til. Aðilar vinnumarkaðarins eru þegar farnir að þreifa hvor á öðrum eftir því sem ég veit best. Það er engin spurning í mínum huga að áframhaldandi árangur í efnahagsmálum er ekki síst undir því kominn að aðilar nái saman eins og þeir náðu saman fyrir tæpu ári. Það kann vel að vera að einhver haldi því fram að verkalýðshreyfingin hafi þar samið af sér. Ég held ekki. Ég held að heildarárangur sé góður þrátt fyrir allt og hagsbætur, m.a. fyrir hönd þeirra lægst launuðu sem ég skal viðurkenna að hafa of lág laun, séu meiri það sem af er þessu ári, með árangur í efnahagsmálum í huga, en oft áður.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta, en ég þarf að skoða það miklu betur ef ég á að leggja þessu frv. lið í gegnum þingið.