18.12.1986
Neðri deild: 28. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1985 í B-deild Alþingistíðinda. (1894)

229. mál, frádráttur vegna fjárfestingar í atvinnurekstri

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það vekur nokkra undrun þegar þetta mál er hér til afgreiðslu hve stuttorðir ræðumenn stjórnarandstöðunnar eru. Það er eins og þeir séu að hraða þessu máli í gegnum þingið með þeim vinnubrögðum að rétt nenna að tala fyrir nál. Ekki er það nú beysin frammistaða.

Hvaða mál er hér á dagskrá? Jú, það er verið að takast á um það í þinginu hvort sanngjarnt sé að veita mönnum skattafrádrátt ef þeir leggja fyrir fé til atvinnurekstrar. Það vita allir sem eitthvað þekkja til að einfaldasta leiðin til að fara í kringum skattalög eru einmitt svona ákvæði. Það eru bankastjórarnir sem ráða sköttunum ef þessi stefna á að halda áfram. Maðurinn slær sér einfaldlega lán fyrir upphæðinni til að hafa á hreinu að hann hafi lagt þetta fyrir. Við erum búnir að skerða hér fleiri, fleiri sjóði til alls konar verkefna í landinu, en rétt manna til að leggja fyrir fé til atvinnurekstrar má ekki skerða. Þeirri skattaglufu skal haldið opinni og fylgt fram. Og hvað með stjórnarandstöðuna sem hefur sérstakan áhuga á endurbótum skattakerfisins? Er henni ekki ljóst að þetta mál er komið á elleftu stundu frá ríkisstjórninni? Er henni ekki ljóst að það er auðveldara en allt annað að drepa málið ef einhver áhugi er fyrir? En það er enginn áhugi. Ekki nokkur áhugi hjá stjórnarandstöðunni að drepa málið. (GJG: Ríkisstjórnin er í tíu atkvæða meiri hluta.) Hv. 7. þm. Reykv. hefur setið hér í salnum í allan dag. Ég hef ekki orðið var við þennan mikla meiri hluta í skrifarasætinu. Ég hef ekki orðið var við annað en að forseti hafi haft nóg að gera við að liggja á bjöllunni til að ná saman liði. Engu að síður liggur fyrir að stjórnarandstaðan vill hleypa hér í gegn á silfurfati máli sem er auðvelt hjá henni að drepa ef nokkur áhugi er til staðar. Mig undrar að svo dáðlaus stjórnarandstaða skuli vera til staðar.

Ég er að brjóta um það heilann hvort það leynist lífsmark með þeirri stjórnarandstöðu. Það er greinilegt að það er komið lífsmark í þann sem mælti með málinu í deildinni og telur að það sé grundvallaratriði núna að stuðla að því að ríkið hafi minni tekjur.

Nei, það verður fróðlegt að sjá hér á eftir hvort ekki fást í það minnsta umræður um hvort þetta sé sjálfgefið mál, hvort það megi ekki örlítið draga úr þessum rétti, hvort það sé slíkur skortur á því að menn taki þátt í atvinnurekstri á Íslandi sem hér kemur fram. Ég undirstrika að mig undrar það, þegar jafnlítið lifir eftir af þingtíma og nú er til jóla, að menn skuli leggja sig í framkróka við að þjóna ríkisstjórninni með að hleypa jafnvitlausu máli í gegnum þingið.