18.12.1986
Neðri deild: 28. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1991 í B-deild Alþingistíðinda. (1901)

229. mál, frádráttur vegna fjárfestingar í atvinnurekstri

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Hér er til umræðu breyting sem gerð var á skattalögum á sínum tíma og menn töldu að væri ein af þeim leiðum sem hægt væri að grípa til til að örva nýsköpun og framþróun í atvinnurekstri. Ég minnist þess að þegar þetta mál var til umræðu í hv. fjh.- og viðskn. lýstu menn þeim ótta sínum að erfitt mundi reynast að gegnumlýsa það, ef svo má að orði komast, þegar árin liðu, þ.e. það mundi verða erfitt að fá að vita nákvæmlega hver áhrif þetta hefði til þess sem ætlað var, þ.e. til eflingar atvinnurekstri.

Nú langar mig, fyrst þetta mál er komið hér til umræðu, að spyrja hv. formann fjh.- og viðskn. Pál Pétursson hvort nefndin hafi látið athuga og hvort lögð hafi verið fram gögn í nefndinni um hvernig þetta ákvæði hafi verið nýtt á undanförnum árum og hvernig þeir skattasérfræðingar sem við var rætt meti þetta ákvæði til góðs og einnig hvernig skattyfirvöldum hafi gengið að gæta þess að það væri notað í góðum tilgangi en ekki í þeim tilgangi að skjóta undan. Vænti ég að hv. þm. Páll Pétursson svari þessari fsp. minni.