18.12.1986
Neðri deild: 28. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1995 í B-deild Alþingistíðinda. (1913)

14. mál, atvinnuleysistryggingar

Frsm. félmn. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til l. um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 64 frá 1981, sbr. lög nr. 10 frá 1985. Hér er um að ræða, eins og hv. þm. er kunnugt, leiðréttingaratriði varðandi það að atvinnuleysistryggingar sem greiddar eru vegna barna verði greiddar til 18 ára aldurs eins og gerist um sjúkradagpeninga og ýmsar aðrar bætur, en eins og menn minnast hækkuðu barnalög, sem sett voru fyrir nokkrum árum, þetta aldurstakmark.

Nefndin hefur fjallað um frv. og umsagnir hafa borist frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun og framkvæmdastjóra Atvinnuleysistryggingasjóðs. Nefndin varð sammála um að mæla með samþykkt frv. þó með þeirri breytingu að í staðinn fyrir að 2. gr. hljóðaði svo, með leyfi forseta: „Lög þessi öðlast þegar gildi“ þótti nefndinni rétt að leggja til breytingu sem hljóðar svo: Lög þessi öðlast gildi 1. jan. 1987.

Ólafur G. Einarsson og Friðrik Sophusson voru fjarstaddir afgreiðslu málsins.