19.12.1986
Sameinað þing: 35. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2166 í B-deild Alþingistíðinda. (2009)

1. mál, fjárlög 1987

Frsm. 2. minni hl. fjvn. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Mig grunaði ekki þegar ég hóf andóf við till. um 12 millj. kr. framlag til hönnunar nýrrar byggingar hér í grenndinni fyrr í dag að þar með væri kveikt í púðurtunnu í þingflokki Sjálfstfl., en þar sem mér heyrðust sumir hérna varla vita á hvaða till. allt þetta byggðist ætla ég, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hana. Hún hljóðar svo:

„Í tilefni af 100 ára afmæli Alþingishússins ályktar Alþingi að fela forsetum þingsins að gangast fyrir samkeppni um gerð og skipulag viðbótarbyggingar fyrir starfsemi þingsins á svæði sem takmarkast af Templarasundi, Kirkjustræti, Tjarnargötu og Tjörninni. Verði samkeppnin við það miðuð að heimkynni Alþingis skuli áfram vera í núverandi þinghúsi, svo og í byggingum í næsta nágrenni þess. Forsetum Alþingis er falinn undirbúningur þessarar samkeppni, þar með talin öflun forsendna fyrir gerð útboðsgagna í samráði við húsameistara ríkisins og skipulagsyfirvöld.“ - Þessi till. var samþykkt vorið 1981.

Forsetar hafa unnið það verk sem þeim var falið, sagði hæstv. forseti Sþ. áðan. En hvað var þeim falið skv. ályktuninni? Þeim var falið að gangast fyrir samkeppni um hús, en þeim var ekki falið að ljúka málinu og láta byggja húsið. Ég lít ekki svo á. Rétta leiðin hefði verið að ræða þetta mál samkvæmt till. í sameinuðu þingi um byggingu eftir niðurstöðu þessarar samkeppni.

Það má vel vera að við þm. hefðum átt að koma athugasemdum og gagnrýni ákveðnar á framfæri á fyrri stígum, en a.m.k. sú sem hér stendur áttaði sig ekki á því að málið væri komið á slíkt flug, enda er aldeilis ómögulegt að skilja samþykkt Alþingis frá 1981 svo. Mér heyrist menn eiga ýmislegt ósagt um þetta mál og tel að best færi á því að taka það á dagskrá í betra næði.

Umræðu (atkvgr.) frestað.