13.01.1987
Neðri deild: 34. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2307 í B-deild Alþingistíðinda. (2216)

275. mál, stöðvun verkfalls á fiskiskipum og á farskipum

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Aðeins örstutt. Ég hef ekki gert mikið af því að tefja umræðu í dag, en ég held að það sé alveg ljóst að það hefur glögglega komið fram í umræðum í dag, og ekki síst eftir að formaður Sjálfstfl, talaði hér, að það er ekki meiri hluti fyrir því að það mál nái fram að ganga sem hér hefur verið lagt fram á þingi. Það er ljóst að ég hygg að það sé meiri hluti fyrir því að menn telji að það sé ekki fullkannað að hægt sé að ná samningum í þessari deilu. En ég mótmæli því, sem fram kom hjá hæstv. fjmrh., að hér séu menn aðeins að deila um aukaatriði og formsatriði þegar hann vill láta vísa málinu til nefndar og að ég hygg Framsfl. líka. Það skiptir máli undir hvaða andrúmslofti og kringumstæðum deiluaðilar eiga að setjast aftur að samningaborðinu. Eiga sjómenn að hafa þá svipu yfir sér að málið sé hérna til meðferðar og verði hvenær sem er tekið upp aftur? Þetta eru alls óeðlilegar kringumstæður. Og telja menn virkilega að LÍÚ verði samningsfúst í þeim viðræðum sem þá eru fram undan ef málið er jafnframt opið enn þá inni á Alþingi og þar til meðferðar? Þetta eru í hæsta máta óeðlileg vinnubrögð og ég fæ ekki skilið hvers vegna stjórnarflokkarnir geta ekki staðið að því að draga frv. til baka. Þeim er þá í lófa lagið á síðari stigum málsins, ef þeir telja svo, að leggja frv. fram á nýjan leik. En að ætla sér að deiluaðilar geti sest við samningaborðið með málið enn inni í þinginu er alls óeðlilegt. Og ég vil eindregið ítreka það við hæstv. forseta að ekki verði gengið frá málum öðruvísi í dag en að reynt verði á þá till. sem hér liggur fyrir til rökstuddrar dagskrár til þess að samningaviðræður geti hafist á eðlilegan hátt á nýjan leik, en málinu sé ekki annaðhvort frestað á dagskránni, 1. umr., eða vísað til nefndar. Ég tel að það muni hafa alvarleg áhrif á gang mála og ég vara við þeirri málsmeðferð.