20.01.1987
Sameinað þing: 39. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2386 í B-deild Alþingistíðinda. (2270)

Brottvikning fræðslustjóra í Norðurlandsumd. e.

Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Vegna spurningar hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar til mín vil ég taka það fram að mér barst í hendur greinargerð frá fræðsluráði Norðurlandskjördæmis eystra sem ég lagði fram á ríkisstjórnarfundi í morgun og á þeim sama fundi kannaði ég jafnframt hvort menntmrh. gæti fallist á til sátta að breyta uppsögn í brottvikningu úr starfi tímabundið þannig að rannsaka mætti málið á meðan, en hæstv. menntmrh. hefur ekki treyst sér til að fallast á það eins og hann hefur reyndar gert grein fyrir í mjög ítarlegu máli. Ég tel mig því hafa kannað hvort sú leið er fær því það er tvímælalaust að mál þetta er í höndum menntmrh. Hann fer með forsvar menntamála, með framkvæmd grunnskólalaganna og samkvæmt lögum um opinbera starfsmenn, skyldur og réttindi er ráðherra heimilt að víkja manni úr starfi ef hann telur hann hafa brotið af sér. Fyrir því hefur menntmrh. gert grein. Ég vildi vegna fsp. hv. þm. láta koma fram að ég tel þegar hafa reynt á samkomulag um þessa leið.