20.01.1987
Sameinað þing: 39. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2410 í B-deild Alþingistíðinda. (2279)

Brottvikning fræðslustjóra í Norðurlandsumd. e.

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Brottvikning eða brottvísun úr embætti er stór ákvörðun. Veigamikil rök hljóta og verða að vera fyrir þeim sökum sem á viðkomandi eru bornar. Verður að álíta að til slíkra aðgerða sé ekki gripið nema gildar ástæður liggi til Ólíklegt verður einnig að teljast að eins varkár, yfirvegaður og sómakær maður og hæstv. menntmrh. er grípi til órökstuddra og óundirbúinna aðgerða í svo viðkvæmu máli sem hér er á ferðinni.

Ég tel það ekki hlutverk þm. eða a.m.k. ekki mitt hlutverk að gerast dómari í þessu deilumáli og ég hef ekki getað athugað svo nákvæmlega rökstuðning hæstv. ráðh. að ég telji mér fært að setjast í dómarasæti á þessu stigi.

Ég get hins vegar látið í ljós álit mitt á þeim vinnubrögðum sem mér finnst að hér hafi verið við höfð. Vinnubrögð og aðferðir finnst mér ekki skemmtilegar eða geðfelldar og ég veit ekki hvort segja má að mér finnist þær vart mannlegar. Ég trúi því varla að fullorðnir menn geti ekki tekið á erfiðum og viðkvæmum málum á annan hátt en þann sem hér hefur verið viðhafður. Það mun venja að hafa annan hátt á þegar svo kemur upp á, vísa viðkomandi frá um stundarsakir og láta rannsaka málið og sakargiftirnar.

Það er ekki deiluefni að valdið er að sjálfsögðu í þessu tilfelli hjá hæstv. menntmrh. Það veit auðvitað hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. En varðandi fyrirspurn hans að öðru leyti um viðhorf talsmanna samstarfsflokks hæstv. menntmrh. get ég aðeins svarað fyrir mig persónulega og ræð e.t.v. litlu um framvindu málsins, en ég vil leggja á það áherslu að það verði skipuð nefnd eða einhver sá hópur sem getur rannsakað gaumgæfilega þessar sakargiftir og fræðslustjóranum verði því aðeins vikið frá um stundarsakir eða tímabundið meðan sú rannsókn eða úttekt á málinu fer fram. Það er, eftir því sem mér skilst, samkvæmt venju og tel ég það eðlilega málsmeðferð að standa svo að.

Fræðsluráð og fræðslustjóri í Norðurlandskjördæmi eystra hafa reynt að framfylgja grunnskólalögum eftir fremsta megni og lagt áherslu á að halda hlut sínum til jafns við önnur fræðsluumdæmi. Það er mikilvægt hlutverk sem þm. hljóta að styðja við af fremsta megni. Við hljótum að virða það sjónarmið og standa með aðilum í því ætlunarverki þeirra. Mikilvægast er að sjálfsögðu að allir sitji við sama borð, jafnræði ríki milli umdæma og landshluta og það þurfi ekki að skerða ýmsa þætti kennslumála hverju nafni svo sem þeir nefnast, hvort sem það er stuðningskennsla, sérkennsla eða annað, og ef það þurfi að skerða slíka kennsluþætti verði gætt jafnræðis. Það er ekki hægt að una til lengdar við það að sum umdæmi fái árum saman betri afgreiðslu en önnur.

Tölulegar upplýsingar um mismunun eftir umdæmum verður að sannreyna, t.d. með störfum til þess skipaðrar nefndar sem ég nefndi áður. Ég veit að nú þegar eru uppi efasemdir um nákvæmni á útreikningum í töflum sem fram koma í svari hæstv. menntmrh. við fsp. hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um stuðnings- og sérkennslu og birtast á þskj. 319. Það m.a. sýnir að það þarf að skoða þessar upplýsingar betur, þær tölulegu staðreyndir betur sem virðast vera til grundvallar málinu. Sumar þær upplýsingar sem komu fram í máli hæstv. menntmrh. hér á undan eru ekki í samræmi við þær tölur sem við höfum áður heyrt.

Ýmis kostnaður við rekstur grunnskóla í Norðurlandi eystra er hærri en í sumum öðrum umdæmum. Fyrir því eru ýmsar ástæður og ýmis rök. Ég leyfi mér að vitna örstutt til þessa margumtalaða nóvemberplaggs eða nóvemberskýrslu sem lögð var fyrir þm. kjördæmisins í nóvember s.l. Þar segir m.a.:

„Ástæða er til að hafa í huga að meðalkennarinn í okkar umdæmi er nokkru dýrari en gerist í öðrum dreifbýlisumdæmum. Vísast til þess að starfsréttindi og starfsaldur hafa nú mikil áhrif á launakostnað. Einnig er rétt að benda á að starfsaldursafsláttur kennara kostar verulegar upphæðir í okkar umdæmi, en er hverfandi sums staðar annars staðar. Slíkt getur jafnvel skapað hlaup í áætlun upp á 10-15%. Það er með öllu óviðunandi að sæmileg staða gagnvart kennararáðningum og jafnvægi á starfsliði skuli leiða til truflana á skólahaldi.“

Einnig segir: „Greind þörf fyrir sérkennslu er nær fjórfalt meiri en ráðuneytið hefur samþykkt.“

Það er ekki maklegt eða stórmannlegt af hæstv. menntmrh. að hafa í flimtingum þörf barna fyrir sérkennslu. Vissulega er gott ef ekki þarf að veita börnum á Austurlandi hlutfallslega jafnmikla sérkennslu og í Norðurlandi eystra. Betur að þar leynist ekki einstaklingar, börn sem þurfa á einhvers konar aðstoð að halda. Hún er ekki alltaf mjög alvarlegs eðlis, e.t.v. aðstoð við lestur, reikning eða eitthvað slíkt sem síðar getur skipt sköpum fyrir viðkomandi einstakling.

Því miður er margvísleg löggjöf sem ekki er hægt að fullnægja þar sem fjárlög rúma ekki öll þau útgjöld sem af þeim leiðir. Grunnskólalöggjöfin er þar ekki ein á báti. Það á við um ýmsa aðra löggjöf og margar þál. sem Alþingi hefur samþykkt og er skemmst að vitna til afgreiðslu lánsfjárlaga nú í desembermánuði og reyndar á undanförnum árum um meðferð einstakra laga sem þarf að setja inn í skerðingarákvæði vegna þess að ekki er hægt að framfylgja því sem þar er gert ráð fyrir.

Fjárlög hvers árs eru einnig lög sem ber að taka tillit til þó oft séu þau brotin og ýmsir liðir fari fram yfir fjárveitingar. En það er útilokað að þeir sem eftir þeim eiga að vinna kalli þau ólög sem ekki er mark á takandi. Undir það get ég ekki tekið sem alþm. eða fjárveitinganefndarmaður.

Á fjárlögunum er fjárlagaliður sem ber yfirskriftina Grunnskólar, almennt. Í fundargerð fræðslustjórafundar frá 26. ágúst 1985, þar sem fjallað er um fjármál fræðsluumdæma, er m.a. sagt svo, með leyfi forseta:

„Örlygur Geirsson sagði fræðslustjóra hafa fengið í hendur tillögur þær sem sendar voru hagsýslu. Væru þær nú í frekari umfjöllun. Tillögur fræðslustjóra byggjast að mestu á tillögum ráðuneytis. Þó væri ekki gert ráð fyrir eins mikilli aukningu á sérkennslu á fjárlagalið einstakra fræðsluumdæma eins og tillögur fræðslustjóra höfðu gert ráð fyrir heldur væri ákveðinni summu bætt á liðinn Grunnskólar, almennt, sem skipt verði síðar niður á umdæmin.“

Þessi upphæð nam á fjárlögum síðasta árs 8 millj. 970 þús. kr. og mér er tjáð að það hafi ekkert af þessum fjárlagalið verið flutt á t.d. fræðsluumdæmið á Norðurlandi eystra, sem þó virðist hafa verið full ástæða til. Ég treysti því að þær 5 millj. kr., sem ákveðnar voru við fjárlagaafgreiðsluna 1987 til viðbótar við það sein frv. gerði ráð fyrir við lokaafgreiðsluna nú fyrir jólin og færðar voru undir þennan lið, renni þrátt fyrir það sem áður hefur gerst í sögunni til þessa fræðsluumdæmis af því að það var meiningin og fyrir því tel ég mig hafa orð hæstv. menntmrh.

Sé það hins vegar svo ár eftir ár að ekki sé tekið tillit til nauðsynlegra útgjalda þarf að taka málin til gaumgæfilegrar athugunar. Séu fjárlög sannanlega óraunhæf, miðað við þá starfsemi sem staðfest og samþykkt hefur verið, er ekki lengur við fræðsluráð og fræðslustjóra að sakast heldur sjálft fjárveitingavaldið, fjárveitinganefndarmenn og Alþingi eða alþm. E.t.v. hefur fjárveitingavaldið brugðist í þessu máli og því séu rangir aðilar dregnir fyrir dóm.

Fjvn. hefur varla starfsaðstöðu til þess að fara svo ítarlega sem e.t.v. væri þörf á niður í ýmsar grunnupplýsingar fjárlagafrv. Ég leyfi mér hins vegar að fullyrða að óskir fræðsluumdæma eru ekki skornar niður í meðferð fjvn. og samkvæmt upplýsingum frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun ekki heldur þar. Það mun því vera hæstv. ráðuneyti menntamála sem á þennan veg hefur tekið á málum.

Þær upplýsingar að málsaðilar hafi ekki ræðst við mánuðum saman bera vott um alvarlegan trúnaðarbrest. Læt ég það liggja milli hluta hvorum er um að kenna, en þetta finnst mér ekki sýna að vel sé að málum staðið. Og ég ítreka það, sem ég sagði áðan, að mér finnst það með ólíkindum að geta ekki rætt slík mál af heilindum á fundum og komist að viðunandi niðurstöðu. Harma ég því lokaorð hæstv. menntmrh. í hans fyrri ræðu og finnst þau bera vitni ósveigjanleika sem honum og hans stöðu er ekki sæmandi. Ég trúi því ekki að útilokað sé að finna málsmeðferð sem aðilar geti við unað. Ég skora því á hæstv. menntmrh. að brjóta odd af oflæti sínu og efna til fundar með fræðsluráði og leita leiða til að sætta þessi sjónarmið.

Umræðu frestað.