22.01.1987
Sameinað þing: 39. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2493 í B-deild Alþingistíðinda. (2312)

Brottvikning fræðslustjóra í Norðurlandsumd. e.

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég hlýt að leitast við að skýra nánar afstöðu mína í þessu mjög svo umrædda máli vegna viðtals í Ríkisútvarpinu í gærkvöld sem að venju var mikið niður klippt.

Ég vil að það komi ljóst fram að innan Alþb. er enginn ágreiningur um stefnu í sérkennslumálum, enda hefur flokkur okkar lagt megináherslu á þann grundvallarrétt allra barna að fá þá kennslu sem þeim hæfir. Ég tek því að sjálfsögðu undir hvert orð sem félagi minn, hv. þm. Steingrímur Sigfússon, hefur sagt um þau mál og um það sorglega ástand sem ríkir í fræðslu- og menntamálum hér í landi. Það ástand er hins vegar ekki á ábyrgð okkar flokks heldur íhaldsaflanna í landinu sem engan áhuga hafa á aðstæðum þeirra sem mesta þörf hafa fyrir alúð og nærfærni og faglega kunnáttu svo að þeir megi vaxa upp á sem farsælastan hátt.

Ég minni á að í tíð Svavars Gestssonar sem ráðherra félagsmála voru lögin um málefni fatlaðra sett og það var ekki tilviljun að þau voru sett þá, lögin sem gerbreytt hafa aðstæðum fjölmargra hinna fötluðu frá því sem áður var. Mér er fulljóst að mikið starf hefur farið fram í Norðurlandskjördæmi eystra til að byggja upp sérkennslu svo að lögum um grunnskóla sé fylgt. Það er því eðlilegt að fólki þar nyrðra sé sárt um að úr þeirri þjónustu sé dregið. Milli mín og þess fólks er ekki ágreiningur um nauðsyn þeirra starfa. Afstöðuágreiningur minn við alla þá þm. sem í þessu máli hafa talað er um skyldur embættismanna annars vegar og stjórnvalda hins vegar og hvort verjandi hafi verið að leysa einn af fræðslustjórum landsins frá störfum eða ekki. Í huga mínum er enginn efi um að þar eð engin samvinna tókst milli ráðuneytisins og starfsmannsins í þessu tilviki hefði hvaða ráðherra sem er hlotið að krefjast breytinga. Því góða fólki sem vinna vill að málefnum þeirra barna sem sérkennslu þarfnast stendur til boða eftir tæpa þrjá mánuði að hafna þeim stjórnvöldum sem svo illa búa að henni og fela mál barnanna sinna því fólki sem málum þeirra hefur sinnt, meðal annarra hv. þm. Steingrími Sigfússyni, þm. kjördæmisins. En það getur ekki falið embættismanni, hversu mætur og góðviljaður sem hann kann að vera, að vinna störf sín í trássi við stjórnvöld. Og að mínu mati er fráleitt að embættismanni í þjónustu ríkisins líðist að virða fjárlagaafgreiðslu Alþingis að vettugi og lýsa því opinberlega yfir sem og í embættisbréfum að hann telji fjárlög vitlaus og fari þess vegna ekki eftir þeim.

Stjórnvöld sem þjóðin hefur kjörið sér eiga rétt á að stefnu þeirra sé framfylgt og embættismönnum er skylt að sjá svo til. Þeir eru ekki stjórnvald sjálfir. Hugsa mætti sér hvert það leiddi ef embættismenn tækju almennt til við að virða fjárlög að vettugi og hrædd er ég um að þeir félagar mínir á Norðurlandi sættu sig ekki við að opinberu fé væri ráðstafað af embættismönnum ríkisins ef málefnið væri þeim ógeðfellt. Eðlilegt hefði verið að þetta mál væri leyst milli ráðuneytisins og fræðslustjóraembættisins, en fjölmiðlar kusu að gera úr þessum vanda framhaldsþátt mjög svo ósmekklegan. Ráðherrar jafnt sem stjórnmálamenn eiga helst ekki að taka þátt í slíku. Rétt hefði verið að leysa manninn frá störfum meðan rannsakað væri hvernig og hvort ná mætti eðlilegri samvinnu við fræðslustjóraembættið og fá starfsmanninn til að skilja að það er hvorki í verkahring hans að móta stefnu í menntamálum, byggðamálum né mörgum öðrum málum. Það er verkefni hins háa Alþingis að móta þá stefnu á sama hátt og það er verkefni þess að leysa vanda ótal annarra þjóðfélagsþegna sem líða fyrir vanrækslu þeirrar ríkisstjórnar sem við búum við.

Ég hef sjálf setið fjögur ár í svæðisnefnd fyrir þroskahefta hér í Reykjavík. Ég tel mig vera allkunnuga þessum málum. Það var ekki alltaf auðvelt að standa frammi fyrir fólki sem var ráðalaust vegna vanda fatlaðra barna sinna, en ég man aldrei eftir að nokkrum nefndarmanni dytti í hug né starfsmönnum nefndarinnar að taka sér það stjórnvald að hefja framkvæmdir og rekstur sem ekki voru heimildir fyrir. Það er hins vegar ekki sama hvert stjórnvaldið er. Ég minnist þess að þessi nefnd stóð frammi fyrir vanda einhverfra barna hér í bænum. Foreldrar þessara barna höfðu varla fengið að njóta nætursvefns frá fæðingu þeirra. Við sáum að þetta var hræðilegt upp á að horfa. Niðurstaðan var að ákveðinn þm., sem hér talar, gekk upp í félagsmálaráðuneyti og bað um 2 millj. kr. þá og krafðist þess að keypt yrði hús samstundis til að reyna að leysa versta vandann. Þá vildi svo til að félmrh. var Svavar Gestsson og ég fékk þessa peninga og þannig varð Trönuhólaheimilið til. Mér er til efs að þeir peningar hefðu fengist ef einhverjir aðrir hefðu verið við völd.

Hinn skyndilegi áhugi hv. þm. Norðurl. e. á sérkennslu í umræðum í fyrradag var nánast neyðarlegur. Þar var málflutningur hv. þm. Steingríms Sigfússonar undantekning því að hann hefur sinnt sérkennslumálum hingað til og jafnt í kjördæmi sínu sem á landsvísu eins og við aðrir þm. Alþb. Ég tel því að þeir norðanmenn ættu að fylkja sér um málstað okkar í stað þess að etja embættismönnum sínum til verka sem þeir hafa ekki heimild fyrir. Þeim stendur það til boða í næstkomandi kosningum.

Vinnuaðferðir hæstv. ráðh. er ég ekki að styðja, enda engin fósturmóðir hans svo er guði fyrir að þakka, en ég hlýt að bregðast ekki því litla brjóstviti sem guð gaf mér þó að það kosti mig e.t.v. missi tímabundinna vinsælda. Meðan ég sit á Alþingi Íslendinga mun ég reyna að virða þá þrískiptingu valdsins sem við búum við og gera eðlilegan greinarmun á löggjafarvaldi, framkvæmdarvaldi og dómsvaldi. Ég hef hingað til og mun hér eftir hafna pólitík vinsældanna. Ég trúi ekki á ítroðslupólitík. Ég trúi enn þá að það sé hægt að ræða mál við fólkið í landinu, fá það til að skilja hvað við erum að gera. Og við erum ekki öll að gera það sama. Það verður fólk að skilja. Ég trúi því að á endanum skilji fólk og virði þann rétt og þær skyldur sem við höfum líka sem alþm. Og ég tel líka að í þeim skyldum felist fyrst og fremst að virða þessa stofnun en ekki vanvirða, að fara að lögum, semja sanngjörn lög og gera okkar besta í þágu fólksins í landinu. En það er mikilvægt að það sé gert á réttan hátt og það sé haft sem réttara reynist. Þetta kann að vera barnalegt sjónarmið og fyrir það verð ég þá að líða. En það er alveg ljóst að embættismönnum íslenska ríkisins ber að fara að lögum jafnvel þó það séu fjárlög.