27.01.1987
Sameinað þing: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2570 í B-deild Alþingistíðinda. (2387)

218. mál, efling atvinnu og byggðar í sveitum

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég held að það sé misskilningur hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. að sú till. sem hér er á dagskrá sé einhver árás á mig eða þá landbúnaðarstefnu sem ég fylgdi sem ráðherra. Till. er ekki árás á þá stefnu. Till. er á hinn bóginn flutt af þremur þm. Sjálfstfl. vegna þess að þeir hafa komist að raun um varðandi búvörulögin, þó góð séu á ýmsan máta og feli í sér miklar breytingar til hins betra, þá þurfi annað og meira að koma til heldur en þau gera ráð fyrir og heldur en framkvæmt hefur verið á þeirra grundvelli.

Till. sannar það að þessir hv. þm. Sjálfstfl. slá því föstu að nú sé svo ástatt, þótt aðeins rúmlega eitt og hálft ár sé liðið frá því að búvörulögin tóku gildi, að nú þurfi að fela fjmrh. og landbrh. að hlutast til um skipulagt átak, eins og segir í tillgr., til atvinnuuppbyggingar í sveitum til að vega upp á móti samdrætti í hefðbundnum landbúnaði. Þetta hygg ég að sé rétt. Því miður er svo ástatt í landbúnaði að á þessu er full þörf.

Ég get lýst fylgi mínu við þessa till. og ég lýsi fylgi mínu við þá töluliði sem á eftir fara í tillgr., til að mynda eins og segir í 6. tölul. að búvörusamningur milli bænda og ríkisvalds verði framlengdur um tvö ár. Þetta þýðir það að flm. telja að það þurfi a.m.k. að treysta stöðuna nú, að teygja úr aðlögunartímabilinu þannig að menn viti betur hvar þeir standa og tóm gefist til, hvort tveggja í senn, að fá svigrúm til þeirra aðgerða sem taldar eru upp og ekki síður hitt að gera nú alveg sérstakt átak til atvinnuuppbyggingar til að mæta samdrættinum.

Búvörulögin byggðu m.a. á því að gert var ráð fyrir að verja verulegu fjármagni, í rauninni mjög miklu fjármagni, til uppbyggingar nýrra atvinnutækifæra í sveitum landsins til þess að vega upp á móti samdrætti í hinum hefðbundnu greinum. Ef samdrátturinn fer hraðar en uppbygging nýrra atvinnutækifæra þá verða skörð í byggðina, þá hrynur afkoman og þá hrynur byggðin. Ég skil það svo að þessi till. sé flutt til þess að svo fari ekki og til þess að efna nú til nýs og skipulegs átaks sem tveimur hæstv. ráðherrum er ætlað að hlutast til um.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um till. sjálfa sem ég met að hafi þennan tilgang. Ég vil hins vegar segja það að í grg. till. eru nokkrar missagnir og jafnvel örlaði aðeins á því í ræðu hv. 1. flm.

Í fyrsta lagi segir í grg. till. að í ljós hafi komið að ekki var um markvissar ráðstafanir að ræða með þeirri stjórnun á búvöruframleiðslunni sem gripið hafi verið til áður en búvörulögin tóku gildi. Ég rifja það upp að gripið var til skarpra ráðstafana til þess að hafa hemil á mjólkurframleiðslunni sem þá var komin í 120 millj. lítra. Og ég minni á það að í minni tíð sem landbrh. var mjólkurframleiðslan innan við 105 millj. lítra að meðaltali á ári á meðan neyslan var að meðaltali rúmlega 100 millj. lítrar.

Hér segir einnig: „Kjarnfóðurnotkun í mjólkurframleiðslu hélst að mestu óbreytt og eftir 1981 fer kúm að fjölga.“ Kjarnfóðurnotkun til mjólkurframleiðslu, í nautgriparækt, í sauðfjárframleiðslu og til hrossa minnkaði á milli áranna 1979-1980 og 1980-1981 um rúmlega 36%. Þetta liggur fyrir og óþarfi í góðri till. að koma með slíkar missagnir.

Hv. framsögumaður sagði að nú gerðist hvort tveggja að það væri samdráttur í framleiðslu, sem er rétt, og það væri aukinn markaður. Aukinn markaður er auðvitað vafasamt. Ég minni á það að þann tíma sem ég var í sæti landbrh. var innanlandsneysla af kindakjöti á bilinu 10 000-10 800 tonn á ári. Nú hefur hún fallið og hv. þm. Egill Jónsson gerði ráð fyrir að hún gæti orðið um 9 500 tonn á ári ef vel gengi. Á þeim tíma var mjólkursalan innanlands að meðaltali rúmlega 100 millj. lítra eins og þegar hefur verið sagt. Á árinu 1985-1986 hafði hún fallið niður í 96,8 millj. lítra en hún er að glæðast núna og það er vel. Á hinn bóginn er það auðvitað missagt að síðan búvörulögin voru sett hafi neysla og markaður fyrir þessar vörur aukist.

Ég held að það séu kannske því miður ekki nægilega staðfestar upplýsingar sem sanni það að bændur landsins búi nú við vaxandi og góðan hag. Að vísu komu góðar tekjur árið 1985 vegna þess að þá kom í fyrsta skipti uppgjör á einu ári og auk þess uppbætur frá árinu á undan. Ég hef þær fregnir frá fjármálastofnunum í mínu byggðarlagi að þar sé árið 1986 snöggtum lakara hvað afkomu landbúnaðarins snertir og það kemur mér sannarlega ekki á óvart. Það er vel ef hið gagnstæða er í öðrum landshlutum.

Um mjólkurframleiðsluna segir að kúm hafi fjölgað eftir árið 1981. Það er rétt. Þeim fjölgaði þá á milli ára um 80 talsins, en 1981 hafði þeim fækkað til að mynda frá 1979 um 1000. Og það var reyndar svo að eftir að leið á árið 1983 jókst mjólkurframleiðslan og að mínum dómi hefði þurft að taka nokkuð skarpar í taumana á árinu 1983 heldur en gert var, en þá jókst mjólkurframleiðslan, sem sýnir m.a. það sem hér er í gögnum sagt að 1985-1986 hafi hún numið 111,5 millj. lítra. Þegar árferði fór batnandi þurfti að taka skarpar í tauma eins og gert var á árinu 1980, í því eina góðæri sem var á því tímabili sem ég var við forustu í þessum efnum, sem varð til þess að mjólkurframleiðslan náðist á einu ári úr 120 millj. lítra niður í 103 millj.

Ég skal ljúka máli mínu, herra forseti, með því að segja að ég tel að hægt sé að fagna þessari tillögu. Tillgr. sýnir það að við þurfum á auknum aðgerðum að halda til þess að bæta úr því ástandi sem við er að etja. Þrátt fyrir ágæt lög hefur ekki tekist eins og þyrfti að vega upp á móti samdrættinum og þess vegna þarf nú nýtt átak eins og hér er gert ráð fyrir og betri og tryggari aðlögunartíma.