02.02.1987
Neðri deild: 39. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2669 í B-deild Alþingistíðinda. (2486)

Þingstörfin og þinghaldið

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir þau svör sem hann hefur gefið við fsp. minni undir þessum lið, um þingsköp. En ástæðan til þess að ég kvaddi mér hljóðs undir þessum lið, um þingsköp, er ósköp einfaldlega sú að það er ekki mjög langur tími eftir af þessu þinghaldi og það er nauðsynlegt að fara að átta sig á því, eins og hv. þm. Páll Pétursson gat um, hvaða mál það eru sem eiga að hafa forgang á þeim vikum sem eftir eru þar til þingi verður slitið.

Eftir blaðafréttum að dæma eru það tvö stórmál sem ríkisstjórnin hefur áhuga á að koma í gegnum þingið. Það eru annars vegar tillögur um skipulagsmál bankanna, í hvaða formi sem þær koma hér inn, og það eru hins vegar tillögur um verulegar breytingar á skattakerfinu, þ.e. staðgreiðslufrumvarpið sem gengur undir því nafni. Staðreyndin er sú hins vegar að hvorugt þessara mála er komið inn í þingið og vitað er að það verður úrtökusamt á næstu vikum vegna þess að Norðurlandaráðsþing verður haldið alveg næstu vikur og fjöldi þm. verður þá í burtu þannig að ég óttast það mjög, ef þessi mál fara ekki að sjást, að þá verði ekki tekið á þeim af þeim krafti sem óhjákvæmilegur er. Ég tek það fram í þessu sambandi að stjórnarandstöðuflokkunum hefur verið sýnt minnisblað um skattabreytingarnar. Það er vélritaður snepill upp á þrjár síður og ég hygg að staðgreiðslufrumvarpið, sem svo er kallað, sé ekki til enn þá. Ég hef grun um að þetta frv. hafi t.d. ekki sést í þingflokkum stjórnarflokkanna enn þá, hvað þá heldur meira, þó að liðnir séu tveir mánuðir síðan verkalýðshreyfingunni var gefið fyrirheit um það að staðgreiðslukerfi skatta yrði komið á frá og með næstu áramótum. Ég skil ekki þessar tafir, þennan drátt á málinu, þar sem mjög víðtækt samkomulag á að geta verið um forsendur þess og nota þetta tækifæri til að gagnrýna þann seinagang sem þar hefur komið fram. Um leið lýsi ég því yfir af okkar hálfu að við hljótum nú sem fyrr að leggja áherslu á að komið verði hér á staðgreiðslukerfi skatta og erum tilbúin til að beita okkur fyrir því ásamt öðrum að slíkt mál verði afgreitt hér ef nokkur kostur er.

Varðandi bankamálin er sem sagt ljóst að stjórnarflokkarnir eru ekki tilbúnir, sagði viðskrh. Framsóknarmaðurinn sagði aftur á móti: Framsóknarflokkurinn er tilbúinn. (PP: Verður tilbúinn.) Verður tilbúinn, segir hann núna, á því er nokkur munur. (ÓÞÞ: Hann er löngu orðinn tilbúinn.) Í öðru tilvikinu var um að ræða sögn í þátíð en hinu í framtíð þannig að það er eins gott að hlusta nákvæmlega á þá framsóknarmenn því þeir eru vanir því að vefja sig inn í reglur málfræðinnar út og suður ef þeir þurfa að smeygja sér fram hjá óþægilegum staðreyndum. Þetta liggur sem sagt fyrir og ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir svörin og bæti því svo við af okkar hálfu að við erum auðvitað tilbúin til þess að taka á þessu máli hvenær sem er og viljum að það verði gert hið allra fyrsta.