03.02.1987
Sameinað þing: 44. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2679 í B-deild Alþingistíðinda. (2500)

298. mál, ávana- og fíkniefni

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Vímuefnavandinn hefur að mati flestra farið vaxandi í þjóðfélagi okkar á s.l. árum, ekki síst að mati þeirra sem hafa mest afskipti af fórnarlömbum vímuefnaneyslu. Þessi þróun hérlendis helst í hendur við það sem gerst hefur í nágrannalöndum okkar. Þó hefur hún orðið talsvert hægari hér en víða annars staðar meðal fjölmennari þjóða og það gefur okkur aukið svigrúm til að bregðast við.

Þrátt fyrir miklar umræður bæði hér á Alþingi og í fjölmiðlum og vaxandi áhyggjur alls þorra fólks hafa stjórnvöld ekki séð ástæðu til þess hingað til að beina sérstökum aðgerðum að því að sinna þeim unglingum sem illa eru staddir vegna vímuefnaneyslu. Neyðarathvarfi hefur samt verið komið á fót af Rauða krossi Íslands og mun ég víkja að því í fsp. hér á eftir.

Enn vantar aðstöðu til að meðhöndla þau börn og unglinga sem eiga við geðræn vandamál að stríða þó nokkrar fjárveitingar hafi fengist til þeirra mála nú. Ekki er til meðferðarheimili fyrir unglinga sem ánetjast hafa vímuefnaneyslu. Það að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu vímuefnaneyslu er langtum yfirgripsmeira og erfiðara verkefni og varðar í raun jafnframt pólitíska stefnumörkun í málefnum fjölskyldunnar því að mikil vímuefnaneysla er oft nátengd félagslegum vandamálum af ýmsum toga, auk þess sem hún er tengd áfengisneyslu.

Eitt fyrsta verk núv. hæstv. menntmrh. eftir að hann tók við embætti var að vitna í skýrslu frá landlækni um vímuefnaneyslu unglinga og lýsa áhyggjum sínum og vilja til að leita úrbóta. Það var í nóvember 1985. Síðan hefur hann að vísu verið önnum kafinn við að hreinsa íslenska tungu, Lánasjóð ísl. námsmanna, reka mann og annan, kaupa hús og þeyta herlúðra.

Í janúar fyrir réttu ári kallaði hann þó samráðherra sína saman til að samræma aðgerðir og það mun svo hafa leitt til þess að hæstv. forsrh. skipaði þá nefnd sem hér er gerð fsp. um. Nú bíða menn eftir aðgerðum, bíða eftir að heyra verkin tala. Framtak áhugahópa er lofsvert og nauðsynlegt, en stjórnvöld geta ekki firrt sig ábyrgð í þessum efnum. Því spyr ég hæstv. forsrh.:

„Hvað líður störfum framkvæmdanefndar ríkisstjórnarinnar sem forsrh. skipaði 25. maí 1986 til þess að samhæfa aðgerðir í baráttunni gegn útbreiðslu og notkun ávana- og fíkniefna? Hvenær hyggst nefndin skila áfangaskýrslu eða ljúka störfum?