27.10.1986
Efri deild: 6. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í B-deild Alþingistíðinda. (252)

79. mál, almannatryggingar

Flm. (Helgi Seljan):

Virðulegur forseti. Á þskj. 79 hef ég leyft mér að flytja frv. til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, um þá gr. laganna, 5. gr., sem fjallar um tryggingaráð. Breytingin er fólgin í því að tryggingaráð skipi sjö menn í stað fimm nú og til viðbótar þeim fulltrúum sem Alþingi kýs á fyrsta þingi eftir hverjar almennar alþingiskosningar í tryggingaráð skuli Öryrkjabandalag Íslands og Landssamtökin Þroskahjálp tilnefna sinn fulltrúa hvort í tryggingaráð, svo og varamenn þeirra.

Í grg. segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Hér er sú breyting lögð til um skipan tryggingaráðs að til viðbótar hinum fimm þingkjörnu fulltrúum, sem þar sitja nú, komi tveir fulltrúar jafnréttháir, þ.e. frá Öryrkjabandalagi Íslands og Landssamtökunum Þroskahjálp.

Flm. hefur einnig hugleitt þann möguleika að fulltrúi aldraðra yrði í ráðinu einnig, en vandséð er hvaða aðili gæti tilnefnt fulltrúa þeirra í ráðið. Sé það unnt er um sjálfsagðan hlut að ræða sem ber að athuga í þeirri nefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar.

Tryggingastofnun ríkisins er viðamikil og á hennar vegum fer fram víðfeðm og um leið vandasöm starfsemi. Gleggst sést þetta af frv. til fjárlaga fyrir næsta ár þar sem gert er ráð fyrir að útgjöld stofnunarinnar nemi nálægt 10 milljörðum kr., eða u.þ.b. 25% ríkisútgjalda. Lífeyristryggingar eru þar upp á um 5,7 milljarða kr. og sjúkratryggingar nema tæpum 3,9 milljörðum kr.

Hér er um málaflokk að ræða sem vissulega þarf og á að fá mikið fjármagn til skipta. Elli- og örorkulífeyrir er nú hvergi nærri því sem vera þyrfti til þess að allir fái þar unandi hlut. Sama er að segja um sjúkradagpeninga og svo mætti lengi telja.

Á borð þessarar stofnunar koma fjöldamörg verkefni til umfjöllunar og úrskurðar og oft mjög vandmeðfarin. Flm. fullyrðir að embættismenn þessarar stofnunar leggi sig mjög í líma við að leysa úr málum og veita sem sanngjarnasta úrlausn. Gagnrýni á ýmislegt, sem þar mætti enn betur fara, á eflaust vissan rétt á sér, enda undarlegt ef svo væri ekki með hliðsjón af þeim fjölmörgu vafaatriðum sem þar er kveðinn upp úrskurður um.

Æðsta ráð þessarar stofnunar er tryggingaráð sem m.a. setur reglur um fjölmargt á grundvelli laganna um almannatryggingar. Þangað er ýmsu því vísað sem málsaðilum þykir ekki hafa fengist viðunandi úrlausn á, auk þess sem tryggingaráð fer með yfirstjórn stofnunarinnar og hefur æðsta vald við helstu ákvarðanir.

Hér er ekki lögð til breyting á kjöri fimm fulltrúa í tryggingaráð á Alþingi og allra síst er hér verið að kasta nokkurri rýrð á þá ágætu fulltrúa sem þar sitja og hafa setið, eða þeim vantreyst til góðra verka. Hins vegar eru flest vandasömustu úrlausnarefnin, álitaefnin, á þann veg að þau snerta þá aðila beint og óbeint sem lagt er til að eigi fulltrúa til viðbótar í tryggingaráði. Flm. telur það því bæði eðlilegt og sanngjarnt að þessi samtök eða fulltrúar þeirra setjist þarna inn til ákvörðunar ásamt þeim þingkjörnu fulltrúum sem fyrir eru.

Eflaust mun því haldið fram að hér komi þeir aðilar að málum sem eiga of ríkra hagsmuna að gæta fyrir umbjóðendur sína til að geta tekið hlutlausar ákvarðanir. Hitt vegur þó þyngra að mati flm. að hér munu koma að verki nákunnugir aðilar, fólk sem veit hvar skórinn helst kreppir og sem einnig getur eytt óþarfa misskilningi og tortryggni milli einstaklinga og hópa annars vegar og stofnunarinnar hins vegar.

Í stjórnarnefnd um málefni fatlaðra, sem úthlutar talsverðu fjármagni og kveður upp erfiða og vandasama úrskurði oft og tíðum, eiga fulltrúar þessara samtaka verðugan og réttmætan sess og ekki hefur heyrst um neina hagsmunaárekstra þar, miklu fremur telur flm. að þetta fyrirkomulag á skipun stjórnarnefndar hafi til heilla orðið og mælir þar af nokkurri reynslu.

Flm. telur einsýnt að á það verði látið reyna á Alþingi hver vilji þess er varðandi tryggingaráð, ekki síst með tilliti til farsællar reynslu af starfi stjórnarnefndar um málefni fatlaðra þar sem fulltrúar fatlaðra ráða svo mjög um mótun alla sem og ákvarðanatöku.

Lögin um málefni fatlaðra eru ung og þar þótti Alþingi nauðsyn til bera að hagsmunaaðilar kæmu ríkulega inn í myndina varðandi alla stjórn. Á þessum mikilvæga og víðfeðma vettvangi eru ekki síðri ástæður fyrir því að fulltrúar þessara þýðingarmiklu og öflugu samtaka komi að málum til heilla jafnt fyrir stofnunina sjálfa sem og umbjóðendur samtakanna. Því er frv. þetta flutt.“

Ég tel raunar að fáu þurfi við þessa grg. að bæta. Ég hef um árabil haft mikil samskipti við Tryggingastofnun ríkisins og starfsfólk þar. Reynslan af þeim samskiptum er sú að þar vilji fólk verulega leggja sig fram um að leysa vanda þeirra sem þangað leita.

Málafjöldi hvers árs er gífurlegur og mikil vinna sem oft þarf að inna af hendi varðandi einstök mál. Það er gert af ærinni samviskusemi að því er ég best þekki til. Því er hins vegar ekki að neita að ýmsir reyna öðru hvoru að leika á kerfið eins og það er kallað þó að vissulega séu það undantekningar. En þar má líka finna orsök þess hversu vandlega þarf að yfirfara hvert mál sem ekki er því augljósara.

Margt í löggjöf okkar um almannatryggingar þarfnast endurskoðunar og einföldunar og m.a. þyrfti að gera tryggingaumboðin á landsbyggðinni miklu sjálfstæðari og færari um að kveða upp úr um öll venjuleg mál, sameina þar sem best alla þætti er lúta bæði að sjúkratryggingum og lífeyristryggingum. Um það efni hyggst ég flytja frv. síðar á þessu þingi. Þegar Magnús heitinn Kjartansson var trmrh. gerði hann átak í því að koma málum í þetta horf, en Alþingi hafnaði þá sjálfstæðari umboðum úti á landi þar sem allir þættir væru sameinaðir.

Meginmál þessa frv. snertir það mál fyrst og síðast að koma þeim samtökum inn í myndina sem þurfa að gæta mestra hagsmuna umbjóðenda sinna. Ekki af því að ég telji að þeir hafi verið fyrir borð bornir, en af kunnugleika við þessi samtök bæði og ýmsar raddir þar fyrr og síðar tel ég sjálfgefið að þeim sé veitt þarna ákveðin hlutdeild sem verði m.a. og sér í lagi til að forðast óþarfa árekstra, óþarfa eða þarfa gagnrýni varðandi hin viðkvæmu mál sem ævinlega koma upp, hljóta að koma upp, og þá ekki síður að fulltrúar þessara samtaka megi hafa mótandi áhrif á meginákvarðanir, megi eiga hlutdeild í því að móta og setja reglur um hvernig með ýmis þau mál skuli fara sem löggjafinn hefur skilið eftir í rammalöggjöf eða beinlínis vísað til nánari ákvörðunar tryggingaráðs.

Um hina ýmsu þætti almannatryggingamálanna mætti vissulega hafa langt mál. Ég vík rétt að einum þeirra. Ég hef lengi talið að í gegnum almannatryggingakerfið ætti að leysa lífeyrismál okkar svo vandasöm sem þau eru. Eina alvarlega jöfnunartilraunin sem þar hefur verið gerð var þegar tekjutryggingunni var komið á á sínum tíma og síðar raunar að nokkru með lagasetningunni um eftirlaun til aldraðra. Ef sú yrði raunin að almannatryggingakerfið okkar leysti í heild lífeyrissjóðavandann og mismununina þar í dag væri ekki síður ástæða til þess að fulltrúar þessara aðila kæmu þar inn í myndina og raunar fleiri, svo sem minnt er á í grg. um hlutdeild aldraðra að þessari yfirstjórn. Þar er mikið verk óunnið, en engu að síður hygg ég affarasælast að nýta annars býsna gott kerfi almannatrygginga til útfærslu á jöfnun lífeyrissjóðsgreiðslna svo sem brýn þörf er á, eitt af þeim brýnustu málum sem við þurfum að fást við á næstu árum.

Ég tek það fram að frv. er ekki flutt að frumkvæði þessara samtaka þó að ýmsir í forustu þeirra hafi lýst fylgi sínu við þessa breytingu. Ég hygg sem betur fer að margt eða flest fari vel í samskiptum þessara samtaka við Tryggingastofnunina og veit að það er vilji manna þar að eiga sem árekstralausust samskipti við hvor tveggja samtökin. Sömuleiðis hlýt ég í lokin að ítreka að í engu er um að ræða gagnrýni á tryggingaráð almennt af þeirri einföldu ástæðu að ég þekki það vel til verka þar að samviskusemi og réttsýni eiga þar trausta liðsmenn sem og hjá stofnuninni sjálfri.

Ég tel einfaldlega þessa skipan mála eðlilegri, enn vænlegri til gifturíks árangurs, og vitna enn til stjórnarnefndar um málefni fatlaðra þar sem Alþingi veitti þessum aðilum ríkulegan hlut í stjórnunar- og ákvörðunarstörfum í enn ómótaðri málum og um margt ekki síður viðkvæmum. Ég vænti þess því að frv. fái verðskuldaða skoðun í nefnd, að þar verði til kvaddir allir aðilar sem málið snertir beint og besta lausnin fundin svo sem ætlunin er með þessu frv.

Ég legg svo til, virðulegur forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.