04.02.1987
Efri deild: 37. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2719 í B-deild Alþingistíðinda. (2554)

316. mál, flugmálaáætlun

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni merkt mál.

Það hefur legið í loftinu í nokkurn tíma að í gangi væri undirbúningsstarf að því að leggja fram frv. um flugmálaáætlun og um skipulagningu framkvæmda að því er varðar flugmál.

Það eru um þrjú ár, það var 7. febr. 1984, síðan hæstv. samgrh. skipaði nefnd til að undirbúa frv. sem hér liggur fyrir ásamt því að vinna að öðrum verkefnum. Nefndinni var falið að hraða störfum svo sem kostur væri. M.a. var ætlast til þess að það væri hægt að hefja framkvæmdir við væntanlega flugstöð í Reykjavík eigi síðar en árið 1986 út frá þeirri áætlun sem hugsanlega væri undirbyggð af þessari nefnd. Það hefði sem sagt verið mikið æskilegra að þessi mál hefðu komið inn á hv. Alþingi fyrr, ekki síst vegna þess að það hefði verið æskilegt að núv. hæstv. samgrh. hefði getað fylgt þessu málefni eftir í ráðherrastól, þó að það geti svo sem þannig farið að hann setjist í ráðherrastól aftur eftir komandi kosningar. En eins og stendur er þetta frv. sem verið er að leggja fram á síðustu dögum þings fyrst og fremst fyrirheit um það sem næsta ríkisstjórn kemur til með að gera í þessum málum.

Það eru að mínu mati ekki reglulega góð vinnubrögð að hefja nú umræðu um þetta mál í hv. deild án þess að þingflokkum hafi gefist tækifæri til að fjalla um málið sérstaklega eftir að það var lagt hér fram. Æskilegra hefði verið að tími hefði unnist til að fjalla um það í þingflokkunum þó að ég geri ekki ráð fyrir að hér sé í eðli sínu um mikil deilumál að ræða. Ég fyrir mitt leyti tel að tillagan um flugmálaáætlun muni njóta stuðnings a.m.k. míns flokks að meginhluta til.

Um hinn þáttinn, fjáröflun til framkvæmda í flugmálum, mætti segja að væru einhver vafaatriði. Ríkisstjórn sem hefur á undanförnum árum boðað minnkandi skattaálögur leggur nú fram á síðustu dögum þingsins tillögur um sérstakt skattafrv. Ég sé ekki alveg hvernig það fellur heim og saman við að hafa skorið niður framlög til flugmála á undanförnum árum, svo sem fram kemur í nál. þessarar hv. nefndar sem ég hef nefnt áður og kemur greinilega fram í línuriti sem nefndin birtir á bls. 100 í fylgiriti frv. Þar sést greinilega hvert stefnt hefur í sambandi við veitingu fjármagns til þessa þáttar samgöngumála í landinu. Ekki síður á hinn veginn að nú skuli vera gripið til þess ráðs að ætlast til að það fjármagn sem í framtíðinni á að verða til framkvæmda í flugmálum verði að stórum hluta tekið beint af þeim aðilum sem þarna eru notendur. Það er sem sagt ákveðin sérsköttun á farþega og á flugrekstraraðila, þ.e. eldsneytisgjald, til þess að standa undir þessum sérstaka samgönguþætti.

Nú er þessi sérstaki samgönguþáttur mjög mikilvægur, eins og hæstv. ráðh. nefndi, einkum fyrir ákveðnar byggðir í landinu. En það er ekki eðlilegt að til uppbyggingar þessa samgönguþáttar sé verið að skattleggja þá aðila sem fyrst og fremst þurfa að nota flugið. Ég tel ekki eðlilegt að Austfirðingar, sem þurfa að nota flugið meira en aðrir, eigi að borga meira til uppbyggingar þessa samgönguþáttar en aðrir íbúar landsins, en það hlýtur að gerast með því að greinin sé sérsköttuð til þessara þarfa.

Það er líka annað sem athuga þarf í sambandi við þessa sérsköttun. Oft fer það svo þegar verið er að byggja upp afmarkaða tekjustofna að þegar búið er að nota skattinn í einhvern ákveðinn tíma er sett klausa í fjárlagafrv. um að þrátt fyrir þetta og þetta skuli það fjármagn notað til annarra þarfa þetta tímabil og fari ekki beint inn á þessa afmörkuðu grein. En í þessu frv. hefur reyndar verið tekinn upp nýr háttur í skattinnheimtu. Hann er sá að nú er fjmrn. ekki ætlað að innheimta skatta heldur er það fært undir flugmálastjórn. Mætti kannske gera sér vonir um að með þessu ákvæði sé frekar komið í veg fyrir að þessi sérsköttun lendi í annarra manna kassa en til framkvæmda í flugmálum.

Í 3. gr. í flugmálaáætlun er sett upp verkefnaröðun og flugvellir flokkaðir í flokka. Síðar í grg. með frv. kemur skýrgreining á því hvernig þessi flokkun á sér stað. Þó að þessi flokkun sé sett inn er kannske ekki víst að hún verði notuð í framtíðinni í framkvæmdaröðun, en mér finnst nokkuð vafasöm sú uppbygging eða sú flokkun sem nefndin hefur valið sér að gera. Ég tel að t.d. þátturinn sem byggður er á einangrun staða sé allt of lágt metinn og að þáttur umferðar eða verkefnisþátturinn sé of mikið metinn. Þáttur einangrunar er svo mikilsverður þáttur í sambandi við uppbyggingu flugmála að ég held að hann eigi að vega mjög þungt. Ef við tökum sem dæmi staði eins og Grímsey og Gjögur, sérstaklega einangraða staði, lít ég svo á að þessir staðir eigi að vera í algjörum forgangi í uppbyggingu, að þeir eigi ekki að lenda í neinni uppbyggingarröð og þeirra einangrun sé á þann veg að við hljótum að viðurkenna þetta sem algjöra forgangsstaði. Það skipti varla máli þarna hvort farþegarnir séu þetta margir eða annað eða verkefni séu þetta stór. Ef við ætlum að halda uppi samgöngum við þessa staði verður það að gerast með flugi. Þar er ekki um neinar aðrar leiðir að ræða nema í undantekningartilfellum á sjó. Ég tel að til þessara þátta hafi ekki verið litið nógu mikið í uppröðun í töflu 5.2 á bls. 80 hjá nefndinni.

Það mætti reyndar nefna aðra hluti í sambandi við forgang. Ég tel t.d. að staður eins og Rif á Snæfellsnesi sé að vissu leyti einangraður og eigi að taka mjög tillit til þess að sá flugvöllur sem þar er staðsettur þjónar ekki aðeins sem farþegaflugvöllur fyrir það svæði heldur þjónar hann sem sjúkraflugvöllur fyrir utanvert Snæfellsnes en á utanverðu Snæfellsnesi er ekkert sjúkrahús. Ég tel þess vegna ekki réttmætt að þessi flugvöllur sé metinn á sama hátt og t.d. staðir eins og Blönduós og Stykkishólmur sem hafa sjúkrahús. Ég tel að þarna þurfi að líta á og athuga frekar þessa uppsettu framkvæmdaröðun flugvallanefndarinnar.

Eins og ég sagði þá geri ég ráð fyrir að þetta sé frv. sem margir hafa beðið eftir og margir munu fagna og sjálfsagt mun vera að meginhluta til stuðningur við efni þess. Á næstu dögum mun verða fjallað um það í þeirri nefnd sem ég á sæti í og sé ég því ekki ástæðu til þess að ræða það mikið frekar. Ég veit að sú hv. nefnd mun leggja sig fram um að vinna þetta mál fljótt og ætti það því ekki að tefjast hér í deildinni og frv. gæti orðið að lögum áður en starfi þessa þings verður slitið. Eins og ég sagði áðan hefði verið æskilegra að frv. hefði verið samþykkt a.m.k. árinu fyrr þannig að við hefðum fengið að fylgjast með starfi hæstv. ráðh. og því hvernig hann hefði framfylgt því frv. sem hann er að leggja fram.