04.02.1987
Efri deild: 37. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2730 í B-deild Alþingistíðinda. (2561)

316. mál, flugmálaáætlun

Jón Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Það eru aðeins örfá orð vegna þeirrar umræðu sem hér hefur skapast um Reykjavíkurflugvöll. Hún er reyndar ekkert ný af nálinni því þessi mál hafa verið nokkuð rædd og þar á meðal í borgarstjórnarkosningum.

Ég er þeirrar skoðunar að Reykjavíkurflugvöllur verði ekki lagður niður í náinni framtíð þó að ég viðurkenni vel þau vandkvæði sem eru vegna legu hans og aukinnar byggðar á þessu svæði. Það er nú einu sinni svo að frá Reykjavíkurflugvelli er stundað margs konar flug, m.a. einkaflug, flugkennsla og annað flug á litlum vélum, auk þess áætlunarflugs sem er stundað þar utan frá landsbyggðinni, frá hinum ýmsu stöðum. Ég held að það sé ekki raunhæft að ætla að þetta flug færist allt saman til Keflavíkur en flugvöllurinn verði hér um næstu framtíð þangað til menn hafa efni á því, sem ég sé ekki fyrir á næstu árum, að byggja flugvöll annars staðar í nágrenni bæjarins.

Ég held að eins og er væri það verulegt óhagræði fyrir innanlandsflugið að færast til Keflavíkur. A.m.k. meðan innanlandsflugið er ekki öruggara en það er núna og fellur oft niður af ýmsum ástæðum held ég að það væri ansi oft óhagræði að því fyrir þá sem þurfa að ferðast mikið a.m.k. að þurfa að fara til Keflavíkur í hvert skipti sem þeir fara út á land því enn þá tekur sú ferð 45 mínútur nema kannske fyrir Karl Steinar. Ég skal ekki segja að hann nái því ekki niður í hálftíma stundum þegar hann er að flýta sér. (KSG: Ég sagði í einstefnu.) Sú ferð tekur um 45 mínútur enn þá. Ég held að ef þetta flug fer í náinni framtíð til Keflavíkurflugvallar, sem ég er ekkert að girða fyrir, auðvitað getur sú þróun orðið að það fari þangað á þann stóra völl, byggist það á því að það sé hæ t að stytta þennan tíma verulega.

Ég held að það sé ómaksins vert að líta á þennan einteinung eða hvað það nú heitir sem ég ætla ekkert að leggja dóm á. (EgJ: Nei, þetta er orðið flokksmál.) Það væri ekki útilokað að líta á hvað þetta kostaði. Ég kannast ekki við að þetta sé neitt flokksmál Framsfl., en ef nýjar hugmyndir eru flokksmal hans er allt gott um það.

En það sem ég ætlaði að segja um þetta mál er að það er grundvallaratriði sem þessi flutningur verður að byggjast á að menn komist suður eftir á sem stystum tíma. Ég held að það sé óraunhæft að tala um flutning flugvallarins við núverandi aðstæður og að því sé verulegt óhagræði fyrir þessar samgöngur yfirleitt, en ég útiloka ekkert hvað skeður í því efni í framtíðinni.