04.02.1987
Neðri deild: 40. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2750 í B-deild Alþingistíðinda. (2586)

125. mál, opinber innkaup

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hér liggur fyrir þinginu frv. til l. um breytingu á lögum um Fiskveiðasjóð Íslands flutt af hv. þm. Halldóri Blöndal, hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni og mér, sem gerir ráð fyrir því að íslensk skipasmíði hafi tiltekinn forgang gagnvart erlendri skipasmíði til lána úr Fiskveiðasjóði og lánafyrirgreiðslu yfirleitt. Það er með öðrum orðum svo að það er yfirgnæfandi þingfylgi á bak við þá skoðun að innlend framleiðsla eigi að hafa vissan forgang þegar um er að ræða samanburð við erlenda framleiðslu. Það er yfirgnæfandi þingfylgi á bak við þá skoðun að mínu mati. Þess vegna teldi ég að það væri eðlilegt að setja ákvæði inn í þau frumvörp sem við erum hér að fjalla um sem tryggja innlendri framleiðslu afgerandi forgang. Ég held að það sé mikil skammsýni að halda því fram að slíkt sjónarmið sé í ósamræmi við hagsmuni skattgreiðenda, eins og hæstv. fjmrh. fullyrti áðan. Ég held þvert á móti að það að halda framleiðslunni í landinu, styðja við bakið á íslenskum iðnaði skapi möguleika á auknum tekjum í ríkissjóð og sé þannig hagkvæmara þegar upp er staðið fyrir þjóðina og fyrir ríkið vegna þess að hvernig sem við veltum þessum dæmum er það rangt, sem hér hefur verið sagt úr þessum ræðustól einhvern tíma, að það sé dýrara að vera Íslendingur. Þegar upp er staðið er það það sem tryggir í rauninni besta efnahagslega hagkvæmni líka. Hér er því ekki aðeins um að ræða almennt stolt fyrir hönd okkar menningar, sögu og þjóðar heldur er alveg ljóst að það er hagkvæmara efnahagslega séð að halda uppi sjálfstæðu þjóðfélagi á Íslandi en láta sig sogast inn í hinar stóru heildir og beygja sig einlægt undir samkeppnisforsendur hinna erlendu risa eins og hæstv. fjmrh. er í rauninni að tala um.

En ástæðan til þess að ég fór í ræðustólinn, herra forseti, var ekki síst sú að fyrir fjh.- og viðskn. Nd. liggur frv. til I. um breytingu á tollalögunum. Þar er gert ráð fyrir vissum heimildum til fjmrh. til að beita ráðstöfunum þegar um er að ræða niðurboð eða „dumping“ á vörum sem fluttar eru hingað til lands. Þessi frumvarpsákvæði eru óbreytt frá gildandi lögum. Gildandi lög um þetta efni, sem hafa verið í gildi um margra ára skeið, hafa ekki dugað. Það hefur ekki verið framkvæmanlegt fyrir fjmrn. að beita nauðsynlegum ráðstöfunum gegn verðlækkunum erlendis á iðnaðarvörum sem eru fluttar hingað. Fjmrn. hefur ekki haft aðstöðu til þess, ekki tæki og yfirleitt ekki mannskap. Í þessum efnum er þess vegna óhjákvæmilegt að líta á málin sem eina heild og horfa ekki aðeins á tollaheimildir heldur líka á þær heimildir sem stjórnvöld hafa þegar um er að ræða tilboð í vörur og verk sem verið er að vinna hér á landi. Ég held þess vegna að ef við eigum að geta beitt áhrifaríkum aðgerðum gegn „dumping“ aðgerðum á alþjóðlegum markaði eigi að vera í lögum um opinber innkaup ákvæði sem heimila fjmrh. sérstaklega að taka þannig á málum að innlendum tilboðum sé tekið frekar en niðurgreiddum erlendum vörum sem aftur og aftur er verið að hrúga inn í landið og að samþykkja á þeim forsendum að um sé að ræða hagstæðari tilboð vegna þess að þau eru ódýrari en eru í raun niðurgreidd og þess vegna á óeðlilegum samkeppnisforsendum miðað við þá samninga sem við höfum gert við EFTA og Efnahagsbandalagið. Þess vegna mun ég í þeirri nefnd sem um þetta mál mun fjalla beita mér fyrir því að þarna verði sett inn ákvæði sem opna fjmrn. leið í þessum efnum.