14.10.1986
Sameinað þing: 3. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í B-deild Alþingistíðinda. (26)

20. mál, samningur milli Íslands og Bandaríkjanna

Gunnar G. Schram:

Herra forseti. Það er ástæða til að fagna því samkomulagi sem utanrrh. hefur nýlega kynnt hér í Sþ. í formi till. til þál. um fullgildingu samnings milli Íslands og Bandaríkjanna til að auðvelda framkvæmd varnarsamstarfs ríkjanna.

Sú deila, sem nú hefur staðið milli Íslands og Bandaríkjanna vegna sjóflutninga til varnarliðsins, hefur verið ærið langvinn. Hún hefur staðið í meira en tvö ár. Miklar samningaumleitanir hafa farið fram til að reyna að finna á henni lausn. Þær báru lengi vel engan árangur. En nú hefur svo brugðið við að það samkomulag hefur náðst og komist á laggirnar sem liggur frammi í þessu þskj. Þeirri niðurstöðu ber vissulega að fagna. Það ber jafnframt að harma að fulltrúar tveggja þingflokka á Alþingi hafa lýst yfir andstöðu við þennan samning og það er ákaflega erfitt að gera sér í hugarlund hver rök liggja til grundvallar slíkri afstöðu. Við höfum þvert á móti, Íslendingar, mikinn hag af því samkomulagi sem hér hefur náðst og það ber að þakka utanrrh. og öðrum þeim íslenskum samningamönnum sem að þessari niðurstöðu unnu.

Það mátti heita með nokkrum furðulegheitum röksemdafærsla hv. 5. þm. Austurl. áðan er hann mælti í ítarlegu máli gegn þessum samningi. Eru þm. þó ýmsu vanir í ræðuhöldum frá þeim hv. þm. Hann fór heljarstökk og tók marga kollhnísa út í geiminn og blandaði umræðum um stjörnustríðsáætlun undanfarins toppfundar í Reykjavík saman við þetta mál. Þar á milli er bókstaflega ekkert samband eins og þegar hefur verið bent á í þessum umræðum. En til allra ráða er gripið þegar á að gagnrýna samning sem mjög erfitt er að gagnrýna með nokkrum rökum. Þá kemur heilaspuninn í góðar þarfir.

Það kom ekki á óvart sá málflutningur sem við heyrðum frá hv. 5. þm. Austurl. Hér er einfaldlega um það að ræða og það er mergurinn málsins að til hliðar hefur verið vikið af Bandaríkjaþingi með sérstakri löggjöf einokunarlögum sem hafa gilt í Bandaríkjunum allar götur frá árinu 1904. Þau giltu einnig varðandi sjóflutninga til bandaríska varnarliðsins sem hér dvelur. Þess vegna var ekki hægt verk né auðvelt að koma í veg fyrir þá einokun. Það var hins vegar gert með nýjum lögum frá Bandaríkjaþingi. Með því er því haldið hér fram í þingsölum að það hafi verið unnið gegn hagsmunum Íslendinga. Slíkar röksemdir eru svo fráleitar að þar er erfitt hönd á að festa, hvað fólk á við sem heldur þeim fram. Er það gegn hagsmunum íslenskra sjómanna að fá tækifæri og möguleika til þess að annast verulega mikilvæga sjóflutninga til landsins? Er það gegn hagsmunum íslenskra skipafélaga að fá tækifæri til að halda áfram þeim flutningum sem þau hafa árum og áratugum saman annast? Menn minnast kannske máls sem bar mjög á góma í þingsölum sem var gjaldþrot Hafskips. Einn þátturinn í því máli var einfaldlega að sjóflutningar til varnarliðsins voru einokaðir af bandarísku skipafélagi í skjóli laganna frá 1904. Það virðist algerlega hafa gleymst í ræðum þeirra hv. þm. sem hafa mælt gegn þessu samkomulagi. Hér er einfaldlega verið að víkja einokuninni til hliðar en koma á siglingum, flutningum á jafnréttisgrundvelli. Það er mergurinn málsins og kjarni þess sem þetta samkomulag fjallar um. Og það er þess vegna sem það ber að fagna því. Það er mjög til hagsbóta fyrir íslenska sjómenn og fyrir íslensk skipafélög fyrir utan að það var hneisa og það var óvirðing gagnvart Íslendingum að krefjast þess, eins og gert var í hátt á þriðja ár, að þessir flutningar væru alfarið einokaðir af nýju bandarísku skipafélagi sem til þess eins var stofnað að seilast til lokunnar um hurðina til þess að notfæra sér þá smugu sem þarna var fyrir hendi.

Það kom ekki á óvart þó að sú gagnrýni, sem heyrðist á samninginn frá hv. 5. þm. Austurl., beindist kannske minnst að samningnum sjálfum. Það kom fljótt að því í máli hans að framferði Bandaríkjanna og þetta samkomulag væri full ástæða til þess að það bæri að taka allan varnarsamninginn, eins og hann orðaði það, til gagngerðrar endurskoðunar og segja honum síðan upp. Og þar var raunverulega komið að hjartanu í rjúpunni. Vitanlega hafa Alþýðubandalagsmenn allt frá því fyrsta viljað nota þetta mál til að reka fleyg inn í varnarsamstarf vestrænna þjóða sem Íslendingar eru aðilar að. Alþb. og forustumenn þess hafa ætíð verið andvígir því að hér væri varnarlið og við tækjum þátt í þessu samstarfi. Það þarf þess vegna kannske engan að undra að þeir noti þetta mál til að reyna að riðla því samstarfi og fá varnarsamninginn afnuminn.

Það er vitanlega ekki nokkur efnisleg ástæða í dag, þegar þetta samkomulag liggur fyrir milli ríkisstjórnanna tveggja, að taka varnarsamninginn sem slíkan upp til endurskoðunar á grundvelli þessa máls. Milli þess er ekkert samhengi. Milli þess eru engin tengsl. Þetta mál hefur verið farsællega til lykta leitt og þess vegna er ekki minnsti grundvöllur til að taka varnarsamninginn upp vegna þess. Svipaðar kröfur heyrðust í sumar vegna hvalveiðideilunnar og hugsanlegra viðskiptaþvingana í Bandaríkjunum vegna mismunandi túlkunar á orðalagi samþykktar alþjóðahvalveiðiráðstefnunnar í Malmö í júní í sumar milli bandarískra og íslenskra ráðamanna. Það mál fékk einnig farsælan endi fyrir rúmum mánuði með samkomulagi ráðherra beggja landanna. En það var engu að síður reynt að nota það mál einnig til að reka fleyg inn í þá vestrænu samvinnu sem við Íslendingar erum aðilar að og viljum vera aðilar að. Það kemur að vísu ekki á óvart. Það þarf engan að undra. En bæði þessi mál hafa verið til lykta leidd og þess vegna er ekki hin minnsta ástæða að endurskoða varnarsamninginn þeirra vegna.

Hitt er svo annað mál að varnarsamningurinn sem slíkur er ekkert heilagt plagg og það er alveg ljóst að hann mun ekki standa hér á landi til eilífðar frekar en varnarstöðin í Keflavík. Henni verður vonandi unnt að loka í kjölfar fleiri leiðtogafunda þar sem víðtækt og almennt samkomulag hefur náðst um afvopnun í veröldinni. En það er kannske ástæða til þess í sambandi við þær kröfur sem við heyrðum úr þessum ræðustól rétt áðan um uppsögn varnarsamnings að minna á að við þurfum ekkert Rainbow-mál og enga hvalveiðideilu til þess. Við höfum til þess fullt frelsi, Íslendingar, þegar okkur sýnist og án þess að gefa upp neina ástæðu skv. 7. gr. varnarsamningsins frá 5. maí 1951 að segja þeim samningi upp með sex mánaða fyrirvara og þá fellur hann úr gildi eftir tólf mánuði. Að því erum við algerlega frjálsir. En það vill bara svo til að a.m.k. 2/3 ef ekki 3/4 hlutar þjóðarinnar eru fylgjandi vestrænu varnarsamstarfi, veru Íslands í Atlantshafsbandalaginu og staðsetningu varnarliðs hér á landi. Þess vegna hefur hér verið blandað saman ólíkum málum, jafnvel gengið svo langt í ósmekklegum málflutningi, svo vægt sé tekið til orða, að halda því hér fram að bandarískum þingmönnum hafi í raun verið mútað til að fá samninginn hraðbyri í gegnum bandaríska þingið. Það má velta því fyrir sér hve langt menn geta gengið í getsökum um þingmenn annarra þjóðþinga eða sjóði erlendra skipafélaga í því sambandi.

Ég fagna því að fulltrúar Alþfl. hafa lýst því yfir í þessum umræðum að þeir styðji þetta samkomulag, þá till. til þál. sem hér liggur fyrir. Hún er til hagsbóta fyrir Íslendinga. Á því er ekki hinn minnsti vafi. Ég tek undir þau orð, sem hv. þm. Kjartan Jóhannsson mælti áðan, að þessir flutningar hafa verið mikilvægir fyrir atvinnulífið á Suðurnesjum, fyrir Njarðvíkurhöfn. Það liggur alveg ljóst fyrir. En aðalatriðið er að þeir eiga að fara fram á jafnréttisgrundvelli og að því leyti til að vera í íslenskum höndum.