05.02.1987
Sameinað þing: 46. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2778 í B-deild Alþingistíðinda. (2602)

238. mál, framtíðarskipan kennaramenntunar

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um framkvæmdir á Egilsstaðaflugvelli. Tillgr. er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að láta nú þegar hefja undirbúning og forvinnu vegna nýrrar flugbrautar á Egilsstaðaflugvelli. Skal við verk þetta farið eftir tillögum flugmálanefndar. Stefnt skal að því að framkvæmdir hefjist árið 1987. Ríkisstjórninni er heimilt í þessum tilgangi að taka lán allt að 30 millj. kr.“

Eins og fram kemur í grg. með þessari till. hefur framtíðarskipulag Egilsstaðaflugvallar lengi verið til athugunar hjá flugmálayfirvöldum og skal sú saga ekki rakin hér frekar en minnt á að vorið 1983 lágu fyrir hjá flugráði skýrslur um flugleiðsögukerfi, blindaðflug og brautarstæði á Egilsstöðum ásamt verkfræðilegri úttekt og samanburði á endurbyggingu eldri brautar og gerð nýrrar vestan flugstöðvar.

Flugmálanefnd, sem skilaði lokaskýrslu til samgrn. seint á liðnu ári og fengið hafði málefni þessa flugvallar til sérstakrar umfjöllunar, kannaði fyrirliggjandi gögn og greinargerðir og gerði að því búnu tillögu til ráðuneytisins um byggingu nýrrar flugbrautar vestan við núverandi braut nær Lagarfljóti. Framreiknuð kostnaðaráætlun nefndarinnar fyrir 2000 metra braut að viðbættum tækjabúnaði hljóðar upp á 215-220 millj. kr., en tölur þær sem fram koma í grg. eru teknar beint úr skýrslu og taka mið af verðlagsforsendum sem hafa breyst.

Verkefni flugmálanefndar var að taka saman heildarframkvæmdaáætlun fyrir flugvelli sem tæki til flugbrauta, öryggistækja, flugskýla o.fl. og var Egilsstaðaflugvöllur eitt þriggja sérverkefna nefndarinnar. Hin vörðuðu staðsetningu varaflugvallar og flugstöðvarbyggingu í Reykjavík. Það var talið rétt að bíða lokaskýrslu nefndarinnar áður en afstaða yrði tekin til einstakra þátta í tillögugerð hennar. Eitt þeirra atriða sem ljóst var að kæmi frá nefndinni var frv. til laga um flugmálaáætlun og fjáröflun til hennar. Vildu menn bíða eðlilegrar umfjöllunar þess áður en einstök flugmálaverkefni yrðu tekin út úr heildaráætluninni, en ástandi flugbrautarinnar á Egilsstöðum er nú svo komið að ekki verður hjá því komist að grípa nú þegar til sérstakra ráðstafana. Því er þessi þáltill. fram komin.

Það skal sérstaklega tekið fram hér og nú að tillöguflutningi þessum og þeim framkvæmdum sem vonandi fylgja í kjölfarið má alls ekki blanda saman við þá umræðu sem nú er í gangi um byggingu varaflugvallar fyrir millilandaflugið. Það er algjört sérmál sem verður að afgreiðast án tillits til flugbrautargerðar á Egilsstöðum.

Þá vil ég að fram komi að þó að ágæt undirbúningsvinna hafi farið fram eru ýmsir lausir endar sem þarf að ganga frá áður en í framkvæmdir verður ráðist. Hér á ég m.a. við nauðsynlega samningsgerð við landeigendur, ábúendurna á Egilsstaðabýlinu og Finnsstöðum og e.t.v. fleiri. Öll þau mál þurfa að vera tryggilega frágengin áður en ráðist verður í framkvæmdir. En minn hugur er sá eftir snögga ferð austur á Hérað að ekki muni slík atriði tefja framgang málsins. Og þó að þessi till. sé ekki lengra á veg komin hef ég lagt á það áherslu við flugmálastjóra að hefja þegar framhald þeirra viðræðna við landeigendur sem voru í gangi fyrir nokkru til að glata ekki tíma og geta notað tækifærið til framkvæmda þegar kemur fram á vorið eða fram á sumar.

Herra forseti. Ég legg svo til að að lokinni þessari umræðu verði þessari till. vísað til 2. umr. og hv. atvmn.