11.02.1987
Neðri deild: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2949 í B-deild Alþingistíðinda. (2711)

321. mál, vaxtalög

Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Frv. þetta er af sama toga spunnið.

Það er flutt til staðfestingar á brbl. um leigunám fasteigna vegna fundar leiðtoga Bandaríkja Norður-Ameríku og Sovétríkjanna hér á landi s.l. haust.

Þegar fundarstaður hafði verið ákveðinn að Höfða kom fram sú krafa frá öryggismönnum leiðtoganna að húsin sem í kringum fundarstaðinn eru yrðu örugglega tæmd og engin mannaferð þar leyfð á meðan á fundinum stæði. Íslenskir öryggissérfræðingar töldu þetta að vísu óþarft en eftir að málið hafði verið ítarlega kannað og rætt var þó talið að ekki væri um annað að ræða en að verða við þessum tilmælum sérfræðinga í öryggismálum og því ákveðið að taka umrætt húsnæði leigunámi frá kl. 6 föstudagskvöldið fyrir fundinn og til sama tíma á sunnudagskvöldi. Voru húsin þannig tæmd og þeim læst og höfð lokuð á meðan á fundinum stóð.

Ég vil geta þess í þessu sambandi að nokkrar kröfur hafa komið fram á hendur stjórnvalda vegna þessa leigunáms. Nefnd, sem í eiga sæti fulltrúar þeirra ráðuneyta sem hér eiga hlut að máli, fyrst og fremst fjmrn., utanrrn. og forsrn., hefur fjallað um þessar kröfur ásamt ríkislögmanni. Þær hafa ekki verið að fullu ræddar og úrskurðaðar og get ég ekki á þessu stigi gefið upplýsingar um þær, en að sjálfsögðu getur nefndin aflað sér nánari upplýsinga ef hún svo kýs.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð þar sem málið er mjög vel kunnugt og legg til að frv. þessu verði vísað að lokinni þessari umræðu til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.