11.02.1987
Neðri deild: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2969 í B-deild Alþingistíðinda. (2721)

174. mál, stjórnarskipunarlög

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Hér er til framhaldsumræðu frv. til stjórnarskipunarlaga. Ég hef talað í þessu máli áður, en vegna þess sem fram hefur komið í umræðunum, svo og vegna nýrra upplýsinga sem fram hafa komið frá því að málið var síðast rætt hér, vil ég bæta nokkru við mitt mál varðandi þetta frv. og það sem því tengist, aukna valddreifingu og endurskoðun á ýmsum þáttum varðandi stöðu landsbyggðarinnar.

Hér töluðu síðast þegar málið var á dagskrá í hv. deild hv. þm. Stefán Guðmundsson og Birgir Ísl. Gunnarsson. Ég sé að annar hv. þm. er viðstaddur umræðuna og mér þætti vænt um að hv. þm. Birgi Ísl. Gunnarssyni yrði gert viðvart að í máli mínu kunni ég að víkja aðeins að hans ræðu án þess að ég sé að gera það að nokkru skilyrði fyrir framhaldi umræðna.

Ég vil í fyrsta lagi varðandi nýjar upplýsingar benda á skýrslu sem barst alþm. í byrjun þessarar viku undir heitinu „Byggð og atvinnulíf 1985“ þar sem er að finna margar gagnmerkar upplýsingar um þróun mála að því er snertir landsbyggðina sérstaklega, raunar alla landshluta. Og annað plagg vil ég nefna, þskj. 550, sem er svar frá hæstv. forsrh. við fsp. minni um skiptingu aflaverðmætis, útflutningsverðmætis sjávarafurða, gjaldeyrisöflun og landsframleiðslu eftir kjördæmum sem fram var lagt í síðustu viku.

Ég ætla ekki að hefja langan lestur upp úr skýrslu Byggðastofnunar, um byggð og atvinnulíf á árinu 1985, en aðeins undirstrika að þar koma fram upplýsingar um hraðversnandi stöðu landsbyggðarinnar, mismunandi eftir stöðum og svæðum að vísu, en á heildina litið mjög alvarleg mynd sem dregur fram þá áframhaldandi öfugþróun sem er í gangi og er frekar að herða á sér að því er snertir byggðina í landinu. Það kemur m.a. fram í þessari skýrslu á bls. 16 að hlutdeild landshlutanna utan Reykjavíkur og Reykjaness í ársverkum var 37,2% 1981, en 35,8% árið 1985. Þetta er lækkun um 1,4 prósentustig, en hlutfall þessara landshluta af íbúatölu landsins lækkaði einnig um 1,4% á sama árabili.

Í sömu heimild kemur einnig fram sú þróun sem verið hefur á flutningum fólks milli landshluta. Nægir að vísa þar til bls. 23 þar sem er að finna framreikning mannfjöldans til ársins 2000 fyrir landshluta og kjördæmi ef sama þróun yrði áframhaldandi og nú blasir við og verið hefur á undanförnum árum, en á árunum 1983-1985 fluttu að meðaltali um eitt þúsund manns nettó á ári frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Á grundvelli þessarar þróunar er það niðurstaða höfundar þessarar skýrslu Byggðastofnunar að íbúatala höfuðborgarsvæðisins verði tæplega 27% hærri í árslok árið 2000 í stað þess að verða um 14% hærri en hún er nú ef jöfnuður væri í flutningum milli svæða á landinu.

Sama kemur fram í sambandi við hlutfall og breytingu á fólksfjölda. Höfuðborgarsvæðið tæki sem sagt til sín 26,5% á meðan landsbyggðin fengi í sinn hlut aðeins 0,6% og eru þá undanskilin Suðurnes og Eyjafjarðarsvæðið sem flokkuð eru sérstaklega í þessum talnalega samanburði.

Tölur sem við höfum fengið varðandi þessi efni á árinu 1986, bráðabirgðaupplýsingar um tilfærslu fólks í landinu, bera að sama brunni nema enn herðir þar á öfugstreyminu í þessum efnum og það gerist nú að alger stöðnun og jafnvel bein fækkun fólks verður á stöðum sem hafa verið vaxtarbroddar í einstökum landshlutum og eru ekki aðeins þeir staðir sem vikið er að í skýrslu Byggðastofnunar og kallaðir eru þar útgerðarstaðirnir, þ.e. staðir þar sem sjávarútvegur, fiskveiðar og fiskvinnsla, er burðarás í atvinnulífi, heldur einnig staðir sem eru blanda af hvoru tveggja, þ.e. þjónustustaðir en einnig útgerðarstaðir. Ég get tekið sem dæmi úr mínu kjördæmi Höfn í Hornafirði sem er dæmigerð fyrir þessa stöðnun og reyndar beinu hrörnun sem á sér stað varðandi íbúaþróun og önnur umsvif og annað sem varðar efnahagsstarfsemi á viðkomandi svæði, því að það má segja að það haldist nokkuð í hendur á þessum tíma, og þarna á þessum stað í Austur-Skaftafellssýslu sem liggur að stórum landbúnaðarsvæðum hefur orðið bein fólksfækkun, nálægt 30 manns á árinu 1985 og enn varð fækkun nú um 6 manns til viðbótar á síðasta ári. Þetta vildi ég nefna um þessi efni.

Ég vildi þá aðeins víkja að skýrslu byggðanefndar þingflokkanna sem hefur komið inn í þessa umræðu dálítið sem eðlilegt er, skýrslu sem kom fram í júlímánuði 1986. Ég ætla ekki að fara að lesa mikið upp úr því plaggi, en þar er mjög margar góðar upplýsingar að finna og niðurstöður t.d. varðandi breytta stjórnsýslu í landinu sem ég er samþykkur og er í samræmi við till. sem ég og fleiri þm. Alþb. höfum flutt hér á Alþingi, þ.e. að leitast við að færa völd og áhrif í landinu frá höfuðborgarsvæðinu til landsbyggðarinnar og draga úr þeirri miklu miðstýringu sem einkennir núverandi stjórnkerfi landsins. Ég vil kannske víkja að þessu máli meðan hv. þm. Kristín Halldórsdóttir heyrir mál mitt. Það tekur ekki langan tíma, ef hv. þm. vildi doka við, því að hún nefndi aðeins í sínu máli hér um daginn að Alþb. hefði ekki gert grein fyrir sinni afstöðu í þessum efnum. Þess vegna tek ég mál þetta inn í umræðuna.

Nú liggur það fyrir að fulltrúi Alþb., hv. 2. þm. Austurl. Helgi Seljan, er einn af þeim sem undirritar þessa skýrslu. Alþb. ræddi erindi í þingflokki sínum frá byggðanefnd þingflokkanna, erindi frá 28. febr., og það hygg ég að hafi verið tekið fyrst fyrir af öllum þingflokkum í þingflokki Alþb. Þar kom fram vilji til þess og heimild til fulltrúa okkar í þessari nefnd til að taka undir hugmyndir sem fram komu í erindinu frá 28. febr. um þriðja stjórnsýslustigið í landinu, nýtt stjórnsýslustig ef verða mætti til þess að draga úr þeirri byggðaröskun sem á sér stað. Þetta vegarnesti hafði hv. 2. þm. Austurl. alltaf í sínum störfum. Ég er ekki þar með að segja að um þetta ríki einn vilji í Alþb. í heild sinni. Það eru skiptar skoðanir, ég vil ekki draga neina fjöður yfir það, en ég fullyrði að yfirgnæfandi meiri hluti þeirra sem starfa innan Alþb. út um landið lítur á þetta sem eitt af þeim tækjum sem horfa beri til og taka beri undir til þess að bregðast við núverandi byggðaröskun í landinu. Það fullyrði ég. Hér var verið að vitna í þingræðum til álits einstakra manna sem hafa lýst öndverðri skoðun og tilheyra mínum flokki og ég veit að nokkrir þeirra sem þar var vitnað til hafa nú aðra afstöðu en þeir höfðu fyrir einu eða tveimur árum til þessa máls í ljósi þess sem hefur verið að gerast og eftir þá umræðu sem er í gangi í Alþb. og væntanlega í öðrum flokkum varðandi þetta mikilsverða atriði.

Ég bendi einnig á að undir þessa skýrslu rita fulltrúar annarra flokka, þar á meðal stjórnarflokkanna. Hv. bankastjóri og fyrrv. alþm. Lárus Jónsson sem fulltrúi Sjálfstfl. ritar undir þetta álit og hann er formaður nefndarinnar. Hann reynist hins vegar gersamlega umboðslaus í þessu máli frá sínum flokki, a.m.k. þingflokki. Ég verð að lýsa yfir miklum vonbrigðum með þá afstöðu sem Sjálfstfl. sem stjórnmálaflokkur í heild sinni hefur tekið, m.a. á flokksráðsfundi sínum 14.-15. nóv. s.l., þar sem eindregið er lagst gegn hugmyndum um þriðja stjórnsýslustigið. Í krafti þess talaði hér hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson sem tók mjög sterkt og ákveðið til orða í þessum efnum í ræðu sinni um daginn og lýsti skoðun í þessu efni og vitnaði til og reyndar las upp samþykkt flokksráðsfundarins síðasta hjá Sjálfstfl. um byggðamálin sérstaklega. Ég er ekkert að lasta að menn lýsi skoðunum sínum, það er síður en svo, haldi því öllu til haga sem samþykkt er, en það er a.m.k. æskilegt þegar verið er að taka á málum eins og þessum og skila álitsgerðum eins og skýrslu byggðanefndar þingflokkanna að einhver innistæða sé fyrir afstöðu manna og undirskriftum.

Sama verður raunar að segja í sambandi við það sem kemur fram með undirskrift fulltrúa Framsfl. í nefndinni, Ólafs Þ. Þórðarsonar. Eins og fram kemur í bréfi frá Framsfl. eða þingflokki hans er fyrst og fremst vísað til frv. til sveitarstjórnarlaga sem þá var til meðferðar í þinginu þar sem beinlínis var verið að afnema þær leifar af þriðja stjórnsýslustigi sem þó voru til í sýsluskipan í landinu. (ÓÞÞ: Í frv. eru hugmyndir um þriðja stjórnsýslustigið þótt það væri afnumið hér í þinginu.) Já, alveg hárrétt, hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson. Í frv. var einmitt kafli um héruð sem var afnuminn í meðförum þingsins. Ég þakka fyrir ábendinguna. Þetta skiptir vissulega máli í þessu samhengi og sýnir hug stjórnarflokkanna í þessum efnum.

Ég vildi sem sagt benda á þetta um leið og ég undirstrika sterka sannfæringu mína fyrir því að breytt stjórnsýsla í landinu, þar á meðal nýtt stjórnsýslustig, t.d. í því formi sem ég hef flutt tillögur um í formi þáltill. ásamt fleiri þm. Alþb., í formi brtt. við frv. til sveitarstjórnarlaga á sínum tíma, væri mikið gæfuspor og þýðingarmikið tæki til þess að bregðast við þeirri öfugþróun sem er í gangi nú og birtist í því að þjónustustarfsemin, þar á meðal þjónustustarfsemi á vegum hins opinbera, hleðst upp í Reykjavík með öllu því sem þar tilheyrir, ekki aðeins völdum heldur líka þekkingu og hugviti og atgervi sem því tengist að kalla til fólk sem hefur undirbúið sig til fjölþættra starfa, þar á meðal embættismenn, fyrir utan þá sem fjalla um einstaka málaflokka. Þetta vil ég að hér komi fram enn og aftur af minni hálfu og ég trúi því ekki, þrátt fyrir allar yfirlýsingar og samþykktir, að það verði til lengdar niðurstaða á hv. Alþingi og niðurstaðan í stjórnmálum í landinu að hlaða undir þessa þróun, þessa valdasamsöfnun í Reykjavík, hér í höfuðstaðnum, og halda landsbyggðinni í þeirri úlfakreppu sem hún er í atvinnulegu tilliti, félagslegu tilliti og að því er varðar aðgang að þjónustu.

En það er auðvitað í fullu samræmi við stefnu núv. hæstv. ríkisstjórnar. Það er vissulega í fullu samræmi við hana sem hefur stutt við markaðshyggjuna og auðhyggjuna í landinu og reynst öllum ríkisstjórnum fremri í sögu lýðveldisins að þessu leyti að taka þar úr stíflurnar sem leiða til þess að fjármagnið leitar til miðjunnar, leitar inn á höfuðborgarsvæðið fyrst og fremst og þar með dreginn þrótturinn úr landsbyggðinni. Og þar við bætist síðan hin opinbera stjórnsýsla og það sem opinberir aðilar hlaða undir í þessum efnum og leggst á sömu sveif.

Hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson vék nokkuð að mér og mínu máli í ræðu sinni hér um daginn. (Forseti: Ég vil spyrja hv. ræðumann hvort mikið sé eftir af ræðunni. Það var ætlunin að reyna að ljúka þessari umræðu, en það verður ekki gert á þeim skamma tíma sem er til þingfundanna og við mundum byrja þá aftur kl. 6.) Virðulegur forseti. Ég ætlaði að stytta mál mitt eftir föngum, en ég gæti trúað að ég þyrfti kannske 10 mínútur hið lengsta ef það mundi duga, 5-10 mínútur. Ef það hjálpaði til að ljúka þessari umræðu er ég vissulega reiðubúinn til að þjappa mínu máli saman. (Forseti: Forseti þakkar fyrir það og þá höldum við áfram enn um sinn.)

Ég var að víkja að máli hv. þm. Birgis Ísl. Gunnarssonar sem hafði gefið sig á tal við framkvæmdastjóra í fyrirtæki í minni heimabyggð sem taldi að það væri þýðingarmikið að fyrirtækin á landsbyggðinni fengju að halda eftir fjármagni, fengju að græða, og hann taldi að það væri í andstöðu við mín viðhorf að fyrirtækin á landsbyggðinni fengju að halda eftir arði af þeirri vinnu og verðmætasköpun sem þar á sér stað. Ég veit ekki hvar hv. þm. hefur verið staddur í þinginu undanfarin ár þegar ég hef verið að tala um þessi efni ef hann heldur að ég sé andsnúinn því að snúa fjármagnsflóttanum við í þessum efnum. Ég vísa til þess sem segir á þskj. 39, sem liggur fyrir hv. Sþ., tillögu um nýja byggðastefnu, þar sem beinlínis er í tillögutexta lögð áhersla á að snúa þessari þróun við og koma rekstrarstöðu frumvinnslugreina sjávarútvegs og landbúnaðar í það horf að þessir atvinnuvegir hafi forsendur til endurnýjunar og þróunar, svo að vitnað sé til orðalags í þessu þingplaggi, þar sem jafnframt er lögð áhersla á þjónustuþáttinn og að landsbyggðin fái eðlilegan hlut í þeim vaxtarbroddi atvinnustarfsemi í landinu sem þjónustan er sem skiptir meginmáli ef á að snúa þessari öfugþróun við.

Ég vil þá nefna aðeins það sem fram kom í máli hv. þm. Stefáns Guðmundssonar sem var eðlilega að verja Framsfl. og gerðir hans í sambandi við núv. ríkisstjórn og byggðamálin og atvinnumálin í landinu. Hv. þm. var að draga fram hvernig hlutur landsbyggðarinnar í sambandi við aflaverðmæti hefði frekar vaxið á heildina litið en minnkað frá 1970 til 1985, hygg ég að hann hafi miðað við í sínu máli, og taldi að þetta væru tölur sem sýndu að Framsfl., væntanlega á framsóknaráratugnum, hefði nú tekið til hendinni. Nú er það vissulega efni út af fyrir sig og aðeins góðra gjalda vert að tekist hefur að halda atvinnustarfsemi í sjávarútvegi gangandi út um landið og auka hlutdeild þar í vissum tilvikum sannarlega. En það hefur bara ekki nægt til þess, hv. þm. Stefán Guðmundsson, að snúa byggðaþróuninni við eða viðhalda jafnvægi í byggðaþróun í landinu. Það sem hv. þm. var að reyna að rökstyðja með þessum tölum hittir hann í rauninni og hans flokk beint í höfuðið aftur því að það sýnir sig að það að viðhalda einhæfni í atvinnulífi úti um land eða frumvinnslu sem haldið er á nástrái og haldið hefur verið á nástrái lengi, svo að ekki sé nú talað um landbúnaðinn, nægir ekki til þess að halda fólkinu úti á landi vegna þess að hv. þm. hefur m.a. ekki fengist til þess að taka undir þann veigamikla þátt að færa þjónustuna, þar á meðal opinbera þjónustu, með skipulegum hætti út á land, enda minntist hv. þm. ekki á þriðja stjórnsýslustigið eða neinar slíkar breytingar í sinni ræðu. Hann varaðist það ef ég hef lesið hana rétt.

Svo vék hv. þm. að hugmyndum sem eru á kreiki í Byggðastofnun og verið er að fleyta núna rétt fyrir kosningarnar eftir að Framsfl. stóð að því að koma í veg fyrir að Byggðastofnun yrði staðsett utan höfuðborgarsvæðisins, að það væri komið upp svokölluðum stjórnsýslumiðstöðvum utan Reykjavíkur og þá fyrst á Akureyri. Það er viðleitni til að reyna að krafsa yfir afstöðuna í hitteðfyrra í sambandi við Byggðastofnun. Þar er hins vegar ekki um að ræða að koma upp sjálfstæðum einingum heldur útibúum frá þessari miðstöð hér í Reykjavík og ekki eru hugmyndirnar langt komnar ef lesið er t.d. í Degi, blaðinu sem gefið er út fyrir norðan, í þessum efnum og ekkert er þar fast í hendi. Og ég segi: Þó að ég ætli ekki að leggjast gegn því að tekið yrði á með þessum hætti ef ekki væri samstaða um annað legg ég áherslu á að þjónustustofnanir sem byggðar eru upp úti á landi til að ýta undir jákvæða þróun í landshlutunum eiga ekki að vera settar undir eitthvert miðstjórnarvald Byggðastofnunar suður í Reykjavík. Þær þurfa að hafa sinn sveigjanleika og sjálfstæða möguleika til ákvörðunar.

En af því að hv. þm. var að víkja til þróunar í aflaverðmæti liggur fyrir þskj. 550 þar sem reynt var að draga fram verðmætasköpun á landsbyggðinni, ekki aðeins aflaverðmæti heldur einnig gjaldeyrisöflun og landsframleiðslu eftir kjördæmum. Það kemur í ljós að hlutur landsbyggðarkjördæma, þar á meðal Austurlands, hafi farið verulega vaxandi í sambandi við sjávarafla, í sambandi við aflaverðmæti. Hvergi er aflaverðmæti meira á íbúa en á Austurlandi á árinu 1985, að ég má fullyrða, og nam þá 18,2% af heildinni á landsmælikvarða. Hins vegar kemur fram á þessu þskj . að ekki er möguleiki til að greina frá útflutningsverðmæti sjávarafurða á verðlagi ársins skipt á einstaka landshluta og hvergi er að finna upplýsingar um hvert sé framlag hvers kjördæmis í gjaldeyrisöflun landsmanna því að tiltæk gögn eru ekki fyrirliggjandi, ekki hjá Þjóðhagsstofnun eða annars staðar, til þess að draga þetta fram og ekki heldur um landsframleiðslu.

Ég nefni þetta hér, herra forseti, vegna þess að það er að koma æ betur í ljós að talnalegar upplýsingar eru ekkert miðaðar við að halda til haga hlut einstakra svæða í landinu í sambandi við verðmætasköpun, landsframleiðslu og útflutningsverðmæti. Það kemur fram í þessu og er umhugsunarefni eitt út af fyrir sig.

Herra forseti. Ég hafði orð um að takmarka mál mitt um þetta stóra mál sem hér er rætt. Ég vil að lokum segja þetta: Við snúum ekki við öfugþróuninni í byggðamálum í þessu landi nema gripið sé til róttækra ráðstafana. Þar er auðvitað almennt skilyrði númer eitt að horfið sé frá þeirri efnahagsstefnu auðhyggju, svonefndrar frjálshyggju, sem fylgt hefur verið hér í ört vaxandi mæli hin síðustu ár undir merkjum núv. ríkisstjórnar. Það er forsenda og til umskipta kemur vonandi að vori í þeim efnum því að þar á landsbyggðin mikið undir og auðvitað landsbúar allir því að sú öfugþróun sem hér er í gangi er engin óskaþróun fyrir höfuðborgarsvæðið heldur.

Hinn þátturinn er ný byggðastefna þar sem leitað er allra mögulegra leiða til að efla sjálfræði landsbyggðarinnar með valddreifingu, leita þar nýrra leiða og nýrra tækja þannig að landsbyggðin fái eðlilegt vald í sínum málum og þeim fjölgi sem fást við þjónustustörf úti á landi því að þjónustan er vaxtarbroddurinn í atvinnulífi landsmanna og mun verða það í náinni framtíð eins langt og við fáum séð. Ég tel að það frv. sem hér er til umræðu hafi að geyma marga gagnlega þætti þó að ég sé ekki að taka efnislega undir allt sem þar er á blaði, enda er þetta komið og flutt inn í þingið sem afrakstur af umræðu innan áhugasamtaka sem hafa verið að fjalla um þessi mál, um jafnrétti milli landshluta. Ég tel það mjög góðra gjalda vert að málið var flutt inn í þingið í fyrra og hefur verið hér til umræðu og ég vænti að þó að málið gangi til nefndar sé ekki lokið umræðu um þennan gífurlega þýðingarmikla þátt á yfirstandandi þingi.