12.02.1987
Sameinað þing: 49. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3006 í B-deild Alþingistíðinda. (2740)

302. mál, umhverfismál

Björn Dagbjartsson:

Herra forseti. Ég man eftir því þegar ég kom nærri þessu máli á sínum tíma sem stjórnarmaður í Landvernd að það var mjög brýnt fyrir mönnum hversu Norðurlandaþjóðirnar hefðu tekið rösklega á þessum málum og stofnað sín umhverfisráðuneyti. Nú skilst mér aftur að þar hafi menn rekið sig á að ekki er allt fengið með því að stofna eitt umhverfisráðuneyti. Það hafa menn reyndar verið rækilega minntir á upp á síðkastið í heiftarlegum deilum í Danmörku milli landbúnaðarráðherra Dana og umhverfisráðherra, þar sem lá við að annar hvor eða báðir vikju, og reyndar ekki útséð um það, vegna notkunar á tilbúnum áburði. Síðustu fregnir herma að þær mælingar sem umhverfisráðuneytið lagði fram hafi ekki reynst réttar eða ábyggilegar. En þetta er bara til að sýna það að það er ekki allt fengið með því að stofna eitt ráðuneyti.

Ég vil sem sagt lýsa mínum efasemdum við þessa tillögu. Mér finnst að þessi mál séu dæmigerð heimastjórnarmál og umhverfismálunum verði aldrei stjórnað nema af heimamönnum sjálfum. Það er rétt að það þarf víða að taka til hendinni og ganga betur um eins og frsm. gat um. Það er alveg laukrétt að það þarf víða að taka til hendinni, ganga betur um, en ég sé ekki að það gerist sjálfvirkt með stofnun ráðuneytis umhverfismála.

Það var í fyrravetur að við vorum þrjú að basla við það að endurskoða lagafrv. um náttúruvernd sem lagt var fram haustið 1984. Í því sambandi áttum við viðræður við ýmsa menn, sveitarstjórnarmenn, frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, frá Náttúruverndarráði, frá hinum og þessum aðilum og okkur var ljóst hversu geysilega flókinn og erfiður málaflokkurinn er. Einn af þeim sem við fengum til viðtals við okkur var aðstoðarmaður félmrh. Hann var spurður sérstaklega eftir þessu frv. og var þá ekki margt um svör. Sennilega hafa menn þá enn verið að þæfa þetta á milli sín í ríkisstjórninni.

Mér finnst þetta mál bera keim af því að þeir þm. Framsfl. séu að gera ráðherra sínum greiða með því að leggja þetta mál fram og er raunar ekkert við því að segja. En ég spái því að það verði ekki mikið meira en sýningin.