16.02.1987
Efri deild: 40. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3035 í B-deild Alþingistíðinda. (2774)

339. mál, byggingarsjóður aldraðs fólks

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um afnám laga nr. 49 20. apríl 1963, um Byggingarsjóð aldraðs fólks.

Fulltrúaráð Sjómannadagsins í Reykjavík og Hafnarfirði hefur óskað eftir breytingum á lögum um Happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna nr. 16/1973 og jafnframt að lög nr. 49 20. apríl 1963, um Byggingarsjóð aldraðs fólks, verði felld úr gildi.

Lög um Happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna heyra undir dómsmrn. og hefur hæstv. dómsmrh. ákveðið að verða við óskum Sjómannadagssamtakanna um fyrrgreindar breytingar á núgildandi lögum og mun standa að flutningi frv. þar um sem liggur hér fyrir til umræðu.

Samkvæmt lögum um Happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna, nú lög nr. 16/1973, renna 40% af tekjum happdrættisins í Byggingarsjóð aldraðs fólks, en 60% til Dvalarheimilis aldraðra sjómanna og hefur svo verið frá gildistöku laga nr. 49/1963, um Byggingarsjóð aldraðs fólks. Áður rann allur sjóðurinn til Dvalarheimilis aldraðra sjómanna. Hér er farið fram á að framlög frá Happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna til Byggingarsjóðs aldraðs fólks falli niður og sjóðurinn verði jafnframt lagður niður.

Hlutverk Byggingarsjóðs aldraðs fólks, sem heyrir undir félmrn. samkvæmt reglugerð um Stjórnarráð Íslands, er að stuðla með lánveitingum og styrkveitingum að byggingu hentugra íbúða og dvalarheimila fyrir aldrað fólk. Með tilkomu hinnar nýju húsnæðismálalöggjafar hefur orðið mikil breyting til hins betra á lánamöguleikum til að byggja íbúðir fyrir aldraða og má segja að með henni sé margfalt betur komið til móts við lánaþörf aldraðra en með mjög takmörkuðu framkvæmdafé Byggingarsjóðs aldraðs fólks. Eignir sjóðsins í árslok 1985 voru 19,7 millj. frá upphafi og þar af um helmingur í skuldabréfum. Tekjur sjóðsins 1985 voru annars vegar 40% ágóðahluti frá Happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna, 4,1 millj., og hins vegar vaxtatekjur, 3,1 millj. kr. Aðra tekjuliði hefur sjóðurinn ekki haft á starfstíma sínum.

Þá má benda á Framkvæmdasjóð aldraðra sem settur var á fót fyrir nokkrum árum og nýtur tekna með sérstökum persónuskatti skv. lögum um málefni aldraðra nr. 91/1982, með síðari breytingum. Úr sjóðnum er veitt til byggingar þjónustuíbúða og hjúkrunarheimila aldraðra, svo og til byggingar dvalarheimila og endurbóta á þeim.

Hvað varðar eignir og útistandandi kröfur Byggingarsjóðs aldraðs fólks þykir eftir atvikum rétt að þær skiptist að jöfnu milli Framkvæmdasjóðs aldraðra og Byggingarsjóðs hjúkrunarheimilisins Hrafnistu í Hafnarfirði og rétt þykir að miða við að lög þessi taki gildi 30. apríl 1987 þar eð hinn 30. apríl n.k. verður dregið í síðasta sinn í Happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna á yfirstandandi happdrættisári.

Frv. þetta er flutt að ósk og beiðni Sjómannadagssamtakanna í Reykjavík og Hafnarfirði. Ég vil segja það hér að ég tel að það sé rétt að undirstrika mikilvægi þessara samtaka til að leysa þessi vandamál. Þau hafa leyst þessi mál með miklum myndarskap, bæði hér í Reykjavík og ekki síður í Hafnarfirði, og hafa hug á því að vera virkur þátttakandi í því að leysa vandamál aldraðs fólks á þann hátt sem þeir hafa markað þá braut sem þeir hafa gengið í þessum málum. Það er einnig ljóst að stjórn happdrættisins hefur hug á því að láta aðra hluta landsbyggðarinnar njóta þess fjármagns sem happdrættið kann að afla og ég vænti þess að í frv. sem hæstv. dómsmrh. leggur hér fram komi fram að heimilt sé að veita lán til slíkra bygginga annars staðar á landinu.

Það vakti athygli mína þegar ég fékk skýrslu um útlán þessa sjóðs, Byggingarsjóðs aldraðs fólks sem er í vörslu og meðferð Byggingarstofnunar ríkisins, að á öllu þessu tímabili hafa aðeins verið veittar í lán rúmar 10 millj. kr. sem skiptast á tiltölulega fáa aðila. Ég vil einnig segja, og ég held að það sé rétt að undirstrika það, að miðað við þá breytingu sem er nú þegar orðin á tekjuöflun samtaka eins og samtaka Sjómannadagsráðs hér á svæðinu, með tilkomu hinna nýju aðferða, þar á ég við „lottó“, dregur mjög úr þeim möguleikum sem þessi fjáröflun gefur þessum samtökum. Ég mun til að spara tímann ekki fara að lesa úr bréfum Sjómannadagsráðsins, en ég vænti þess að margir hv. þm. hafi þau undir höndum, sem færa full rök að því að þessi skattur, þó hann sé ekki stór hjá happdrættinu í þennan byggingarsjóð, er fyrirferðarmikill fyrir þá og þeir mundu e.t.v. leysa það betur með því að dreifa ágóða happdrættisins á önnur byggðarlög eins og þeir hafa í hyggju að gera og telja sig geta gert betur ef þeir eru einráðir um stjórn á þessu fjármagni.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta lengra mál. Þetta er eins og ég sagði í upphafi gert samkvæmt beinum tilmælum samtaka sjómanna og ég vænti þess að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og félmn. Ég vænti þess að ef hv. þm. vilja ljá þessu máli lið verði reynt að hraða afgreiðslu þess á þeim þingtíma sem eftir er.