17.02.1987
Sameinað þing: 50. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3158 í B-deild Alþingistíðinda. (2866)

327. mál, Landhelgisgæslan

Árni Johnsen:

Herra forseti. Það er ástæða til að hvetja til þess að tekið sé af skarið um verkefnaskiptingu og stjórnun Gæslunnar í framtíðinni. Um árabil hefur starf Gæslunnar dregist nokkuð niður á við, fyrst og fremst vegna þess að menn hafa ekki tekið af skarið í þeim efnum og markað stefnuna við þau þáttaskil sem urðu þegar landhelgisstríðum lauk. Og það hefur verið mikill skortur á fjármagni til rekstrar Gæslunnar, sem lýsir sér m.a. í því að varðskipin hafa siglt hálftóm að olíutönkum, dólað þannig í kringum landið og verið á hálfgerðu slefi af og til má segja. Þau hafa rekið frekar, er réttara að orða það, til þess að spara olíuna. Þetta gengur auðvitað ekki. Það er dugmikið og áhugasamt fólk sem starfar hjá Landhelgisgæslunni. Landhelgisgæslan er aðalútvörður okkar á hafinu og hjálparaðili og hún þarf að njóta virðingar eins og henni ber og reisnar sem eðlilegt er í því hlutverki sem hún á að gegna.