17.02.1987
Sameinað þing: 50. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3160 í B-deild Alþingistíðinda. (2869)

327. mál, Landhelgisgæslan

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þann áhuga sem kemur fram hjá hv. alþm. á málefnum Gæslunnar og fyrirheit um að styðja hennar málefni, en eins og komið hefur fram í þessum umræðum veltur geta Landhelgisgæslunnar að sjálfsögðu á þeim fjárveitingum sem Alþingi veitir til hennar.

Hv. 3. þm. Vestf. minntist á gagnrýni sína í fyrra á hv. Alþingi fyrir að þá gerði Landhelgisgæslan samning sem gerði henni kleift að bæta sinn tækjakost þar sem fjárveitingar voru ekki svo miklar að nægðu til að gera það brýnasta sem hún taldi þörf á. En samt sem áður er innan þess ramma sem fjárveitingar Alþingis móta reynt að gera það besta. T.d. má benda á að það er núna verið að ljúka við að gera miklar endurbætur á flugskýli Gæslunnar og gera það raunverulega nothæft. Er þar gerbreyting frá því sem áður hefur verið. Þannig er að sjálfsögðu alltaf reynt að bæta úr og lagfæra eftir því sem fjármagnið sem gæslan fær leyfir.

Það er fjarri mér að fara að gefa loforð um að flytja frv. áður en þingi lýkur, miðað við þann stutta tíma sem er eftir, frv. sem ég hef ekki séð og ekki fengið í hendur. En ég vænti þess að það verði tilbúið þegar nýkjörið þing kemur aftur saman og þá geti ráðherra lagt það fram.

En ég vil að lokum undirstrika að það er ekki á mínu valdi að gefa þessari nefnd fyrirskipanir. Það var Alþingi sem kaus hana og því er það að sjálfsögðu á vegum Alþingis sem hún starfar.