19.02.1987
Neðri deild: 46. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3266 í B-deild Alþingistíðinda. (2969)

297. mál, nauðungaruppboð

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Frv. það sem hér er lagt fram og fjallar um breytingar á lögum um nauðungaruppboð nr. 57/1949 er samið af réttarfarsnefnd er starfar á vegum dómsmrn. að endurskoðun réttarfarslöggjafarinnar. Frv. fjallar um tiltölulega afmarkaðan þátt réttarfars við nauðungaruppboð, atriði þar sem talið er brýnt að koma á endurskoðun svo sem nánar kemur fram í grg. frv. Er með frv. stefnt að því að sú meginbreyting verði gerð á framkvæmd nauðungaruppboða á fasteignum að uppboðssölur, sem fyrir fram þykir ljóst að verði ekki endanlegar, fari fram á skrifstofu uppboðshaldara að undangengnum auglýsingum þar um. Jafnframt er ráðgert að uppboð á skipum og loftförum fari ávallt fram á skrifstofu uppboðshaldara þótt um endanlega sölu sé að ræða. Sú breyting er lögð til m.a. til að fyrirbyggja að eigendur skipa og loftfara geti komið í veg fyrir uppboðssölu með því að halda eign sinni utan lögsagnarumdæmis uppboðshaldara, en slíks munu vera nokkur dæmi á liðnum árum.

Er samhliða þessari breytingu lagt til að bundið verði í lög að önnur uppboðssala fari fram án þess að fram komi krafa þess efnis. Er enn fremur ráðgert að endanleg sala fasteignarinnar eigi sér að jafnaði ekki stað fyrr en með þriðju uppboðssölu sem fram fari á viðkomandi eign. Með þeim hætti verður reynt að kalla fram sem hæst boð í eignina. Með því að þriðja uppboð, hin endanlega sala, yrði væntanlega fátíð aðgerð má búast við að aðrir en veðhafar í eigninni gefi opinberri auglýsingu um slíkt uppboð gaum. Verður að ætla að betri möguleikar skapist til að fá viðunandi boð í eign en eftir gildandi reglum. Loks er með þessu aukið það ráðrúm sem upp- boðsþola gefst til að leitast við að afstýra endanlegri uppboðssölu.

Auk þeirra atriða sem hér hafa verið nefnd ráðgerir frv. breytingar á ýmsum öðrum reglum uppboðslaganna sem ekki verður vikið að frekar í þessari framsögu.

Frv. felur í sér breytingar er varða uppboðshaldara, uppboðsbeiðanda og uppboðsþola. Miða þær að því að einfalda framkvæmd fyrir alla aðila, draga úr kostnaði við uppboð sem lendir á uppboðsþola svo og að draga úr óþægindum fyrir uppboðsþola.

Eins og fram kemur í grg. með frv. eru eiginlegar uppboðssölur tiltölulega fáar miðað við fjölda uppboðsbeiðna og fjölda tilvika þegar uppboðshaldari og uppboðsbeiðendur fara á eign uppboðsþola til að halda uppboð, fyrri eða síðari nauðungarsölu. Er þar gerð grein fyrir fjölda uppboðsmála í Reykjavík þar sem langsamlega flest mál eru til meðferðar, en slík mál eru einnig mörg utan Reykjavíkur. Var gerð grein fyrir því við umræður í hv. Ed. hversu mörg þau eru. Yfirlitið í frv. tekur yfir árin frá 1983 til 1. nóv. á fyrra ári, en nú liggja fyrir tölur til loka þess árs.

Á þessu tímabili hefur fjöldi afgreiddra fasteignauppboða í Reykjavík ekki aukist verulega, en hins vegar hafa aðgerðir orðið að ganga lengra ár frá ári áður en skuldara hefur tekist að afstýra uppboðssölu. Var fjöldi afgreiddra uppboðsfasteigna í Reykjavík 3750 á síðasta ári á móti 2924 á árinu áður. Fjöldi aðgerða jókst hins vegar á þessu tímabili þannig að ferðum uppboðshaldara á eign til að framkvæma nauðungarsölu fjölgaði úr 499 í 1628. Aukning á uppboðssölu var svo hlutfallslega mest eða úr 8 í 54.

Með þeirri breytingu frv. að ákveða þrjár uppboðssölur en áskilja einungis þá síðustu á fasteigninni sjálfri sparast veruleg ferðalög og tími uppboðshaldara og uppboðsbeiðanda og innheimtukostnaður sem leggst endanlega á uppboðsþola. Með þessu losnar uppboðsþoli og við óþarfa óþægindi og niðurlægingu sem opinberar auglýsingar og sjálft uppboðshaldið með tilheyrandi mannsöfnuði á eigninni hefur í för með sér. Með því að færa yfirgnæfandi fjölda þessara tilvika á starfsstöð uppboðshaldara má losna við þessi óþægindi og kostnað og er frv. flutt í því skyni. Er það gert á þann hátt að hagsmunir uppboðsþola verði á engan hátt fyrir borð bornir.

Eins og áður greinir felur frv. í sér nokkrar aðrar breytingar á framkvæmd nauðungaruppboðs sem ekki þykir ástæða til að tíunda hér og er vísað til grg.

Rétt er að taka fram að frv. þetta er samið í samráði við starfsmenn borgarfógetaembættisins í Reykjavík sem gerst þekkja það svið sem hér um ræðir og starfsmaður þess, Markús Sigurbjörnsson, vann mjög að samningu frv.

Herra forseti. Ég mun ekki fjölyrða frekar um efni þessa frv. og leyfi mér að leggja til að því verði að þessari umræðu lokinni vísað til 2. umr. og hv. allshn.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.