28.10.1986
Sameinað þing: 8. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í B-deild Alþingistíðinda. (298)

81. mál, skipan í héraðslæknisembætti á Vestfjörðum

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Fyrir nokkru síðan urðu mannaskipti í embætti héraðslæknis á Vestfjörðum. Þeir hlutir sem þar gerðust hafa verið umdeildir. Sú ákvörðun sem tekin var af hálfu hæstv. heilbrmrh. hefur verið mjög svo umdeild fyrir vestan.

Hv. þm. er öllum ljóst að númer eitt er að byggja upp og hlúa að heilsugæslu og heilbrigði í landinu, og það er auðvitað númer eitt að þeir sem fara fyrir séu leiðarljós til þess að nýtt séu öll tækifæri og leitað allra leiða til þess að veita almenningi í landinu sem öruggasta og heilbrigðasta þjónustu.

Ég hef lagt fram fsp. til hæstv. heilbrmrh. og byggi þær á þeim umdeildu atriðum sem átt hafa sér stað og þeirri ákvörðun sem tekin var. Mér er að vísu ljóst að henni verður ekki breytt héðan af. En það sem gerst hefur gæti verið leiðarljós til handa þeim sem í framtíðinni kunna að fara með þessi mál og stjórna heilbrigðiskerfinu í landinu.

Ég vil með örstuttum orðum gera grein fyrir fsp. og sú grein er vegna bréfs sem ég veit ekki betur en allir hv. þm. Vestfjarðakjördæmis hafi fengið og leyfi mér, herra forseti, að lesa örstuttan kafla úr þessu bréfi, þessari greinargerð. Það hljóðar svo:

„Þar sem ég undirritaður hef nú látið af störfum héraðslæknis Vestfjarða gegn eigin vilja eftir fimm ára starf þykir mér rétt að gera lítillega grein fyrir staðreyndum málsins þar sem það tengist nokkuð hagsmunum Bolvíkinga.

Í maí s.l. var mér veitt staða heilsugæslulæknis á Akureyri frá og með 1. okt. n.k. Hinn 25. júní var embætti heilsugæslulæknis í Bolungarvík auglýst laust til umsóknar og var umsóknarfrestur einn mánuður. Hinn 6. ágúst fékk ég loks um það upplýsingar að enginn hefði sótt um stöðuna. Taldi ég umsóknarfrest hafa verið heldur stuttan og vildi freista þess að reyna hvort einhver sérmenntaður heimilislæknir væri ekki fáanlegur til starfa hingað að vori ef næsti vetur yrði notaður til þreifinga og kynningar. Taldi ég að ýmis starfsemi heilsugæslustöðvarinnar, svo sem tölvuskráning, forvarnir o.fl. mundi bíða hnekki ef starfinu yrði sinnt af reynslulitlum hlaupalæknum. Af því tilefni bauðst ég til þess í símtölum við ráðuneyti heilbrigðismála og landlæknisembættið hinn 11. ágúst s.l. að sitja kyrr í Bolungarvík til vorsins og sinna áfram starfi heilsugæslulæknis hér, svo og starfi héraðslæknis Vestfjarða. Sótti ég um leyfi frá störfum á Akureyri með bréfi 12. ágúst.

Þessu var hafnað af hálfu hæstv. heilbrmrh."

Ég fer ekki lengra í þessu bréfi að sinni, mun kannske koma að því síðar, en ég leyfi mér að spyrja hæstv. ráðherra, í fyrsta lagi: Hvaða sjónarmið lagði ráðherra til grundvallar er hún skipaði í stöðu héraðslæknis Vestfjarða nýlega? Og í öðru lagi: Hvers vegna var fyrrverandi héraðslæknir ekki skipaður í stöðuna á ný?